spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox 23: Shevchenko vs. Pena

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox 23: Shevchenko vs. Pena

Það voru kannski ekki stærstu nöfnin á UFC bardagakvöldinu á laugardaginn en þó nóg af fjöri. Hér förum við yfir það helsta í Mánudagshugleiðingunum.

Valentina Shevchenko vann Julianna Pena í aðalbardaganum á laugardaginn eftir „armbar“ í 2. lotu. Þó margir hafi fyrirfram spáð Shevchenko sigri er óhætt að segja að enginn hafi séð fyrir að Shevchenko myndi klára bardagann af bakinu.

Shevchenko mun sennilega mæta meistaranum Amöndu Nunes næst og hefur komist ansi langt á rúmu ári í UFC. Það var bara í desember 2015 sem við sáum hana fyrst í UFC og núna er hún að fara að berjast um titilinn.

Fyrri bardagi Nunes og Shevchenko á UFC 196 var ekkert stórkostleg skemmtun en seinni bardaginn ætti að verða ansi áhugaverður. Nunes hafði betur fyrstu tvær loturnar síðast en fjaraði út og Shevchenko vann þriðju lotuna. Ef það sama gerist í fimm lotu titilbardaganum munum við fá nýjan meistara í bantamvigt kvenna.

Það er kannski smá klaufalegt fyrir Julianna Pena að tapa svona. Hún var klárlega að fylgja góðri leikáætlun, þjarma Shevchenko upp að búrinu og taka hana svo niður en það var ekki að ganga neitt frábærlega. Shevchenko náði tvisvar að fella Pena upp við búrið með frábærlega vel tímasettum fellum og kláraði hana svo með uppgjafartaki í gólfinu.

Pena ætlaði að taka hana niður og stjórna henni í gólfinu en Shevchenko var vel undirbúin. Pena hefur sennilega vanmetið „guard-ið“ hjá Shevchenko enda virtist hún ekki hafa miklar áhyggjur af höndunum sínum þegar hún var ofan á í gólfinu.

Pena er ennþá ung og ennþá efnileg í flokknum. Núna þarf hún bara að koma sér aftur á bak og halda áfram að bæta sig. Hún er enn dálítið takmörkuð standandi og þyrfti að koma þeim leik sínum á hærra plan.

Jorge Masvidal átti eina bestu frammistöðu kvöldsins þegar hann kláraði Donald Cerrone með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Masvidal hefur oft verið gagnrýndur fyrir að slaka á bensíngjöfinni þegar líður á bardagann en það var ekkert slíkt á teningnum hjá honum á laugardaginn.

Masvidal kýldi niður Cerrone í lok 1. lotu og var talið að bardaginn væri búinn. Dómarinn Herb Dean var þó aðeins að stoppa bardagann þar sem lotan var búin. Í endursýningu sést að Dean stígur á milli Masvidal og Cerrone áður en bjallan glumdi. Þó ber að nefna að gríðarlegur hávaði var í salnum og getur verið að Dean hafi ekki heyrt í bjöllunni sjálfur.

Bardaginn hefði í raun átt að vera stöðvaður þarna enda var Cerrone ekki búinn að jafna sig þegar 2. lota byrjaði. Cerrone var með reynslumikið lið í horninu sínu en þeir ákváðu samt að senda hann út í 2. lotu sem er gagnrýnisvert. Cerrone var rotaður, eða í það minnsta illa vankaður, í 1. lotu og hefði hornið sennilega átt að stoppa bardagann. Það er þó auðvelt að vera vitur eftir á og kannski hélt þjálfarinn Greg Jackson að Cerrone myndi jafna sig.

Þetta var þó geggjaður sigur fyrir Masvidal og kemur honum hátt upp listann. Þetta var hans þriðji sigur í röð og verður forvitnilegt að sjá hvern hann fær næst. Það eru margir möguleikar í stöðunni og hafa menn á borð við Nick Diaz og Neil Magny verið nefndir til sögunnar.

Francis Ngannou sýndi enn og aftur hvers slags skrímsli hann er. Hann minnir dálítið á Cheick Kongo, stór og ógnvænlegur nema hann er meira en útlitið og er bara þrælgóður bardagamaður. Hann vill fara í stóru strákana, Junior dos Santos, Cain Velasquez og Alistair Overeem og verður áhugavert að sjá hvern hann fær næst. Hann þarf þó ekkert að flýta sér og þarf ekki að fara í þá allra bestu strax. Bardagi gegn Ben Rothwell væri fínt næsta skref fyrir hann eða gegn sigurvegarnum úr viðureign Travis Browne og Derrick Lewis.

Andrei Arlovski tapaði sínum fjórða bardaga í röð um helgina og hefur hann verið kláraður í öll skiptin. Núna hefur hann tapað tíu sinnum eftir rothögg sem er fjórðungur allra bardaga hans á ferlinum. Hann vill eflaust halda eitthvað áfram en vonandi þarf hann ekki að berjast við topp 10 bardagamenn aftur.

Næsta UFC fer fram á laugardaginn þegar kóreski uppvakningurinn Chan Sung Jung snýr aftur eftir langa fjarveru en þá mætir hann Dennis Bermudez.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular