UFC hélt bardagakvöld í Chicago um helgina þar sem þær Holly Holm og Valentina Shevchenko mættust í aðalbardaga kvöldsins. Bantamvigt kvenna er alltaf að verða skemmtilegri og áhugaverðari þyngdarflokkur.
Valentina Shevchenko sigraði Holly Holm eftir einróma dómaraákvörðun. Með sigrinum er Shevchenko komin ansi ofarlega í bantamvigt kvenna. Þessi þyngdarflokkur kemur stöðugt á óvart, beltið fer kvenna á milli og nýjir áskorendur spretta upp.
Holly Holm átti fá svör við gagnhöggum Shevchenko. Holm er best þegar hún getur setið til baka og beitt gagnhöggum en Shevchenko leyfði henni það ekki og lét Holm stjórna pressunni. Það hentaði Holm illa og át hún beina hægri margsinnis í bardaganum.
Aðeins 29% högga Holm hittu og var hún oft að kýla og sparka út í loftið. Hún átti erfitt með að finna rétta fjarlægð og komst aldrei í góðan takt. Shevchenko náði öllum þremur fellum sínum og virtist Holm ekki vera með neina varaáætlun.
Núna hefur Holm tapað tveimur bardögum í röð síðan hún vann Rondu Rousey og er þetta í fyrsta sinn á ferlinum (í MMA, boxi og sparkboxi) sem hún tapar tvisvar í röð. Annar bardagi gegn Rousey virðist fjarlægur núna en við vitum þó að hlutirnir eru fljótir að breytast í MMA. Holm þarf ekki meira en tvo góða sigra til að komast aftur á sama stað en hafa skal í huga að hún er bara 3-2 í UFC.
Dana White og fleiri töldu Holm hafa gert mistök með því að bíða ekki eftir Rousey og hefur tapið gegn Shevchenko bætt vatn á myllu gagnrýnenda hennar. Það er skrítin gagnrýni enda eru bardagamenn eins og Tyron Woodley oft gagnrýndir fyrir að bíða eftir titilbardaga í stað þess að berjast. Af hverju ekki að hrósa Holm fyrir að nýta tímann og berjast? Vissulega tapaði hún eflaust einhverjum peningi á þessu en það verður að bera virðingu fyrir þeim sem kjósa að berjast. Og hver veit hvenær (og hvort?) Ronda Rousey kemur til baka. Í júlí, sjö mánuðum eftir tapið gegn Holm, höfum við ekkert heyrt af endurkomu Rousey.
Valentina Shevchenko óskaði eftir titilbardaga en eflaust eru ekki miklar líkur á að hún fái ósk sína uppfyllta. Shevchenko tapaði fyrir núverandi meistara, Amanda Nunes, í mars í fremur tilþrifalitlum bardaga og hlýtur Juliana Pena að vera á undan henni í röðinni. Einn sigur enn ætti þó að koma Shevchenko í titilbardaga.
Edson Barboza stimplaði sig inn í titilbaráttuna í léttvigt með sigri á Gilbert Melendez. Barboza hefur greinilega unnið í sínum veikleikum og bugaðist ekki undan pressu Melendez. Leiftursnögg lágspörkin hans höfðu líka töluverð áhrif á Melendez og hans sókn. Frábær frammistaða hjá Barboza og væri gaman að sjá hann næst gegn fyrrum meistaranum Rafael dos Anjos.
Þó Barboza hafi unnið í veikleikum sínum er hann enn með einn veikleika sem erfitt er að vinna í – hakan. Melendez er ekki höggþyngsti maður heims en tókst að vanka Barboza nokkrum sinnum í bardaganum. Hakan mun sennilega vera það sem kemur í veg fyrir að Barboza verði meistari.
Gilbert Melendez er að sama skapi kominn í ansi erfiða stöðu. Þrjú töp í röð og aðeins einn sigur (gegn Diego Sanchez) í fimm bardögum er ekki það sem Melendez vonaðist eftir þegar hann kom í UFC úr Strikeforce. Dagar hans sem einn af bestu léttvigtarmönnum heims eru sennilega taldir og hreinlega spurning hvort hann haldi starfi sínu í UFC. Hann er á mjög góðum samningi en er ennþá nokkuð stórt nafn og yfirleitt í skemmtilegum bardögum. Hann er kannski ekki einn af þeim bestu lengur en ætti að geta sigrað alla nema þá allra bestu.
Francis Ngannou gerði það sem hann átti að gera og vann Bojan Mihajlović eftir rúmar 90 sekúndur í 1. lotu. Bojan gerði bókstaflega ekki neitt í bardaganum og er Ngannou nú með þrjú rothögg í þremur bardögum í UFC. Hann er ennþá afskaplega hrár enda aðeins æft MMA í rúm þrjú ár. Vonandi fær hann aðeins sterkari andstæðing næst og verður gaman að sjá hvað hann gerir í framtíðinni.
Felice Herrig átti sína bestu frammistöðu í UFC með sigri sínum á Kailin Curran. Curran fékk hér stórt tækifæri en náði ekki að nýta það. Hún er 1-3 í UFC og gæti þurft að fara í Invicta til að fá aðeins meiri reynslu.
Næsta UFC er núna á laugardaginn þegar UFC 201 fer fram. Robbie Lawler mun verja veltivigtartitilinn sinn gegn Tyron Woodley í aðalbardaga kvöldsins.