Daninn Martin Kampmann hefur formlega lagt hanskana á hilluna. Kampmann er 33 ára gamall og hafði ekkert barist í rúm tvö ár.
Kampmann ákvað að taka sér frí frá keppni í janúar 2014 eftir tvö töp í röð. Núna hefur hann hins vegar formlega lokið ferlinum eftir 27 MMA bardaga.
Kampmann barðist 16 bardaga í UFC og sigraði 11 þeirra. Hann sigraði sterka bardagamenn á borð við Rick Story, Carlos Condit, Thiago Alves og Thales Leites en náði aldrei að komast nálægt titilbardaga. Öll töpin hans í UFC voru gegn topp bardagamönnum á borð við Jake Shields, Carlos Condit og Johny Hendricks.
Síðan hann tók sér frí frá keppni hefur hann verið yfirþjálfari Team Alpha Male en sagði upp starfi sínu lausu í ágúst. Ástæðan ku vera sú að eiginkonu hans líkar illa við að búa í Sacramento en mikil ánægja hefur ríkt með Kampmann sem þjálfara.
Kampmann getur vel við unað eftir góðan feril og gengur sáttur frá borði. Hann býr nú í Danmörku og mun áfram vera viðloðinn MMA sem þjálfari. Þess má geta að Kampmann þykir góður póker spilari og hefur gert það ágætt í stórum póker mótum.
https://www.youtube.com/watch?v=zKuUN8qX5i0