Max Holloway var eðlilega mjög sáttur eftir sigur sinn á Jose Aldo um helgina. Holloway segist ætla að halda beltinu í langan tíma.
Max Holloway kláraði Jose Aldo með tæknilegu rothöggi í 3. lotu í aðalbardaga kvöldsins á UFC 212. Þetta var hans 11. sigur í röð í UFC og er hann tilbúinn fyrir hvern sem er í hans fyrstu titilvörn.
Holloway er ekkert að eltast við peningabardaga og ætlar bara að verja beltið sitt. Hann sagði þó að nú vilji hann setjast niður með Dana White og UFC og fara yfir samninginn sinn.
Það tók Holloway smá tíma að koma sér í bardagann en í 2. lotu fóru hlutirnir að smella hjá honum. „Ég hélt hann yrði hraðari. Þegar ég var þarna með honum var ég að horfa á hann af aðdáun og þurfti að venjast því. Ég vandist tímasetningunni hans í 2. lotu, fór að hafa gaman af þessu og brosa. Þetta var mitt kvöld og fór á minn veg,“ sagði Holloway í viðtali við Fox Sports eftir bardagann.
Sigurganga Holloway hefur verið afskaplega löng og þurfti hann að bíða lengi eftir titilbardaganum sínum. Hann lét bið sína eftir titilbardaga ekki fara í taugarnar á sér og hélt bara áfram að berjast og vinna bardaga.
„Það eru alltof margir vælukjóar í þessari íþrótt. Ég hefði getað setið og grenjað ‘hvar er titilbardaginn minn, bla bla bla’. En það vildi ég ekki gera það, þú ert tík ef þú hagar þér þannig,“ sagði Holloway á blaðamannafundinum eftir bardagann.
„Ég vældi aldrei. Það tók mig minna en mínútu að samþykkja Aldo bardagann. Hættiði þessu væli, ‘ég á skilið að fá þetta’, þið eigið ekkert skilið. Haldiði áfram að reyna, haldiði áfram að leggja hart að ykkur.“