spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentStaðan og framtíðin í þungavigtinni

Staðan og framtíðin í þungavigtinni

Eftir bardaga Mark Hunt og Derrick Lewis núna um helgina þótti okkur góður tímapunktur til að taka punktstöðu á þungavigtinni. Hver fær næsta titilbardaga, hver er á uppleið, hver er búinn að vera? Reynum að svara þessum spurningum ásamt öðrum.

Þungavigt er dramatískur þyngdarflokkur sem er ólíkur öllum öðrum. Bardagamenn í þungavigt eru augljóslega stærri en aðrir en líka misjafnlega stórir en það getur verið svo mikið sem 27 kg þyngdarmunur á milli keppenda (eða 60 pund).

Í þungavigt eru rothögg líklegri og úrslit því þeim mun ófyrirsjáanlegri. Enginn meistari hefur varið beltið oftar en tvisvar sem segir sína sögu. Bardagamenn í þungavigt berjast oft lengur en aðrir og ekki er óalgengt að þeir byrji seint eftir að hafa hætt í öðrum íþróttum. Þessi litríki þyngdarflokkur getur verið bæði hrikalega spennandi og hræðilega leiðinlegur. Stundum skiptast menn á höggum þar til annar fellur eins og timbur en stundum þreytast þessir stóru skrokkar fljótt og við tekur sveitt og loðið hnoð sem enginn vill sjá.

Hér að neðan er stykleikalisti UFC ásamt upplýsingum um hvað hver og einn er að bralla þessa dagana. Það er gott að sjá að þrátt fyrir háan meðalaldur (34) er að eiga sér stað ákveðin endurnýjun í þyngdarflokknum. Óvíst er hvort að Derrick Lewis berjist aftur en tilfinning netheima virðist vera sú að hann geri það.

Meistarinn: Stipe Miocic, 34 ára – Sigraði nýlega Junior Dos Santos.
1. Fabricio Werdum, 39 ára – Sigraði Travis Browne í september. Mætir Alistair Overeem í júlí.
2. Cain Velasquez, 34 ára – Sigraði Travis Browne í júlí 2016. Ekki með andstæðing.
3. Alistair Overeem, 37 ára – Tapaði fyrir Mark Hunt í mars. Mætir Fabricio Werdum í júlí.
4. Junior Dos Santos, 33 ára – Tapaði nýlega fyrir Stipe Miocic.
5. Francis Ngannou, 30 ára – Sigraði Andrei Arlovski í janúar. Ekki með andstæðing.
6. Derrick Lewis, 32 ára – Tapaði fyrir Mark Hunt um helgina.
7. Mark Hunt, 43 ára – Sigraði Derrick Lewis um helgina.
8. Andrei Arlovski, 38 ára – Tapaði fyrir Francis Ngannou í janúar. Mætir Marcin Tybura um helgina.
9. Travis Browne, 34 ára – Tapaði fyrir Derrick Lewis í febrúar. Mætir Oleksiy Oliynyk í júlí.
10. Alexander Volkov, 28 ára – Sigraði Roy Nelson í apríl. Mætir Stefan Struve í september.
11. Stefan Struve, 29 ára – Sigraði Daniel Omielańczuk í október. Mætir Alexander Volkov í september.
12. Tim Johnson, 32 ára – Sigraði Daniel Omielańczuk í mars. Mætir Junior Albini í júlí.
13. Marcin Tybura, 31 árs – Sigraði Luis Henrique í mars. Mætir Andrei Arlovski næstu helgi.
14. Aleksei Oleinik, 39 ára – Sigraði Viktor Pesta í janúar. Mætir Travis Browne í júlí.
15. Daniel Omielanczuk, 34 ára – Tapaði fyrir Tim Johnson í mars. Mætir Curtis Blaydes í júlí.

Stipe Miocic er óumdeildur meistarinn í þungavigt en hvern ætti hann að berjast við næst? Eins og staðan er í dag virðast vera þrír möguleikar fyrir hendi. Í fyrsta lagi gæti Miocic beðið eftir sigurvegaranum úr bardaga Alistair Overeem og Fabricio Werdum sem fram fer í júlí. Báðir töpuðu fyrir Miocic á síðasta ári en annar bardagi við Werdum væri sérstaklega áhugaverður í ljósi þess hvernig sá síðasti endaði.

Annar möguleiki væri að bíða eftir Cain Velasquez en það væri hrikalega spennandi bardagi við fyrrverandi meistara sem sumir telja enn vera þann besta. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig heilsa Velasquez er en hver veit, kannski verður hann klár í titilbardaga haust.

Þriðji möguleikinn er að henda hinum efnilega en óreynda Francis Ngannou fyrir ljónin. Það væri mjög áhugavert en sennilega er skynsamlegra að láta hann fá eitt til tvö stór nöfn áður en þetta skref er tekið.

Francis Ngannou

Nokkrir efnilegir eru á uppleið en þó er einn sem ber af. Francis Ngannou hefur litið út eins og skrímsli en hann hefur afgreitt síðustu þrjá andstæðinga í fyrstu lotu. Fyrir utan hann má nefna Alexander Volkov sem áður var meistari í Bellator. Hann er aðeins 28 ára gamall og leit vel út gegn Roy Nelson.

Curtis Blaydes er ekki á lista en hann er 26 ára og eina tapið hans var gegn Francis Ngannou. Í þeim bardaga stóð hann sig vel og að lokum var það læknir sem stöðvaði bardagann vegna bólgu á auga Blaydes. Munið þetta nafn.

Curtis Blaydes

Bardagasamtökin hafa verið dugleg að semja við upprennandi þungavigtarmenn að undanförnu en hér förum við stuttlega yfir þá bardagamenn.

Justin Ledet: 9-0 og 2-0 í UFC en féll á lyfjaprófi nýlega og er í banni.

James Mulheron: Besti þungavigtarmaður í Evrópu utan UFC og er hann 11-1. Berst sinn fyrsta UFC bardaga í Skotlandi í júlí.

Junior Albini: Klárað 11 af 13 sigrum sínum. 26 ára Brassi sem fær erfitt próf gegn Timothy Johnson í sínum fyrsta bardaga í UFC.

Adam Wieczorek: Pólskur þungavigtarmaður sem er 8-1 á ferlinum og berst sinn fyrsta bardaga í UFC í júlí. Klárað alla sína sigra en hans eina tap var gegn Marcin Tybura eftir dómaraákvörðun.

Dmitry Poberezhets: 14 sigrar í röð hjá þessum 32 ára Úkraínumanni. Ekki með bardaga eins og er.

Justin Willis: Er bara 4-1 en æfir hjá AKA. Berst sinn fyrsta bardaga í UFC gegn fyrrnefndum Mulheron.

Dmitriy Sosnovskiy: Annar Úkraínumaður en þessi er 10-0 og bara 27 ára. Klárað alla nema tvo bardaga sína og gæti verið mjög spennandi.

Arjan Bhullar: 6-0, æfir hjá AKA og er með öflugan bakgrunn í glímunni. Hljómar kunnuglega?

Allir þessir hafa fengið samning við UFC á undanförnum mánuðum. Einhver af þessum mun pottþétt blanda sér í toppbaráttuna einn daginn og verður gaman að sjá hvernig þeim á eftir að vegna í UFC.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Í þungavigt er hættulegt að afskrifa menn þar sem sumir eiga níu líf. Sem dæmi voru Andrei Arlovski og Alistair Overeem taldir búnir fyrir mörgum árum eftir nokkur rothögg. Nú eru báðir á topp 10. Mark Hunt er elstur á listanum en hann sigraði ungan og hættulegan andstæðing um síðustu helgi. Aldurinn segir ekki allt en svo dæmi sé tekið hafa Travis Browne og Junior Dos Santos ekki litið vel út upp á síðkastið.

Það er erfitt að spá fyrir um framhaldið í þungavigt en alltaf er gaman að fylgjast með. Næstu helgi er bardagi á milli Andrei Arlovski og Marcin Tybura og sama kvöld mætast Cyril Asker og Walt Harris. Einhver sigrar, einhver tapar. Millimeter til eða frá getur skipt sköpum þegar höggin fljúga í þungavigt.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular