Kveðjubardagi Michael Bisping mun ekki fara fram í London nú í mars. Miðasalan á bardagakvöldið hefst í vikunni og enn á eftir að staðfesta aðalbardaga kvöldsins.
Mikil óvissa ríkir um hverjir verða í aðalbardaga kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í London þann 17. mars. Í síðustu viku virtist sem Gunnar fengi aðalbardagann gegn Darren Till en nú er búið að slá það af borðinu.
Um helgina greindi Ariel Helwani frá því að verið væri að skoða mögulegan bardaga á milli Rashad Evans og Bisping og átti það að vera aðalbardagi kvöldsins. Nú hefur Bisping sagt að hann muni ekki berjast í London.
Don’t buy tickets to see me fight in London. I’m not fighting. Just spoke with ufc.
— michael (@bisping) January 30, 2018
Bisping stefndi af því að taka kveðjubardaga sinn í London í mars en eftir að hann var rotaður af Kelvin Gastelum í nóvember breyttust áætlanir hans. Nú hefur hann sagt í hlaðvarpi sínu að hann sé hugsanlega hættur.
Það verður því áhugavert að sjá hver aðalbardagi kvöldsins verður en hugsanlega mun Gunnar Nelson enda þar. Þá gæti bardagi Jimi Manuwa og Jan Blachowicz, sem nú þegar er staðfestur á kvöldið, endað sem aðalbardagi kvöldsins.