Mikael Leó féll úr leik á Heimsbikarmótinu í MMA í undanúrslitum á föstudaginn. Mikael kemur þó heim með bronsið eftir sína fyrstu bardaga í MMA.
Mikael Leó Aclipen barðist þrjá bardaga á þremur dögum. Eftir tvo sigra í vikunni mætti hann ríkjandi Evrópumeistara, Otabek Rajabov, á föstudaginn en tapaði eftir hengingu í 2. lotu. Mikael hefur æft bardagaíþróttir lengi en þetta voru hans fyrstu MMA bardagar og því glæný upplifun.
„Þetta var bara gaman. Smá skrítið að vera að gera allt svona fast og allir meira intense. Ég varð vanari með tímanum að gera allt af fullum krafti. Í bardaga nr. 2 fannst mér þægilegra að kýla einhvern svona fast í jörðinni. Hef aldrei gert þetta áður, vissi ekki alveg hvernig ég átti að beita mér en leið betur þegar á leið. Í fyrsta bardaganum var ég bara óvanur að kýla af fullum krafti. Ég fór að kýla of fast og í svona brawl, sveifla villt. Mér leið síðan betur þegar á leið,“ sagði Mikael þegar við heyrðum í honum frá Prag.
Áður en hann hélt út talaði Mikael um sanna fyrir sjálfum sér að hann ætti heima þarna. En hvar telur Mikael hann standa meðal þeirra bestu á þessum stóru áhugamannamótum?
„Ég var ekkert súper ánægður með þetta ef ég á að segja eins og er. Ég er betri að wrestla en ég hélt. Var búinn að vinna í því fyrir mótið þar sem mér fannst ég þurfa að gera það. Það kom mér eiginlega á óvart hve tæknin mín upp við búrið var að virka vel. Ég hefði viljað standa aðeins meira, var mikið að wrestla gæjana bara niður. Mér fannst síðan svo gaman að nota höggin í gólfinu. Mér fannst allavegna enginn þarna vera eitthvað tæknilega betri en ég.“
„Þetta var líka miklu meira þreytandi en ég hélt að berjast marga bardaga í röð. Var ekki búinn að fatta hversu þreytandi það myndi vera. Fannst eins og ég væri þreyttur strax í 3. bardaganum en mig langar strax að keppa við hann [Rajabov] aftur. Væri bara mega til í að keppa á móti þessum gæja aftur og vera þá alveg heill. Það var líka gott að fá að keppa. Núna er ég búinn að prófa að keppa og strax kominn með meiri reynslu.“
„Ég þarf bara að gera þetta meira, venjast þessu og læra að nota kraftinn betur. Var oft í rólegum gír í staðinn fyrir að vera í fight mode. Var of mikið að negla eða of afslappaður, ég er ekki búinn að finna milliveginn.“
Eftir þrjá bardaga á jafn mörgum dögum er Mikael eðlilega þreyttur í skrokknum en kemur annars nokkuð heill úr þessu. „Ég fékk nokkur hné í lærið í fyrsta bardaganum og eitt gott spark og var aðeins lemstraður í hægri löppinni eftir það. Ég skil vel af hverju menn reyna að klára þetta strax á þessum mótum. Ég var orðinn mjög þreyttur í líkamanum eftir tvo bardaga. Það er djöfulli þreytandi að keppa dag eftir dag, það kom mér á óvart. En annars var þetta mjög gaman.“
Mikael glímdi við meiðsli á öxl fyrir mótið en um tíma var tvísýnt hvort hann gæti keppt eða ekki. „Öxlin er búin að vera svona í marga mánuði eða síðan ég keppti á Mjölnir Open í júní. Ég er aumur í öxlinni, stundum eins og hún gefi sig og ég nái ekki krafti í hana. Finn aðallega fyrir þessu þegar ég er upp við búrið að reyna að taka einhvern niður eins og ég lenti í í undanúrslitunum.“
Í undanúrslitunum mætti hann Otabek Rajabov sem virkaði einfaldlega betri og sterkari. Mikael er þó ekki alveg sammála því og er handviss um að hann gæti sigrað Rajabov fái hann annað tækifæri á því.
„Ég fann í þriðja bardaganum [gegn Rajabov] að ég væri orkulaus strax. Ég fann vinstri öxlina gefa sig aðeins þegar ég var að reyna að taka hann niður. Hann lenti nokkrum hnjám en ég fann ekkert fyrir þeim í augnablikinu og ekki núna heldur. Hann henti í combo þarna og ég setti höndina aðeins niður í gólfið en þetta lenti ekkert. Ég hefði viljað standa meira með honum, leið allt í lagi með honum þar. Hefði líka viljað skjóta meira út á miðju gólfi en ekki bara upp við búrið. Hann var betri að vita hvenær á að gera hluti fast og hvenær ekki. Ég var of mikið í sama gír, rólegum gír. Hann var í fight mode allan tímann.“
„Mér finnst ég vera tæknilegri en þessi gæji. Aldrei nein staða þar sem ég var bara ‚vá djöfull er þessi gæji góður‘. Ég þarf bara meiri reynslu og keppa meira. Í 1. lotu þegar hann tók bakið á mér sast hann bara niður og mér fannst ekki vera nein ógn þarna. Þegar hann tók bakið á mér í 2. lotu var ég of mikið að hugsa um að standa upp. Ég var síðan alltof tjillaður þegar hann var að reyna að ná chokinu. Það var bara eins og ég væri á æfingu en ekki í bardaga. Ég hefði líka átt að þrauka lengur í þessu choki. Var ekki að berjast strax, var ekki stressaður. Þetta varð síðan þéttara og þéttara og þá var það of seint. Ég hefði getað gert betur þarna.“
„Þegar ég tappaði þá leið mér bara eins og á æfingu. Leið bara í momentinu eins og ég væri ekki að hugsa skýrt, eins og þetta væri bara æfing og svo myndi ég bara halda áfram. En um leið og ég tappaði þá hugsaði ég bara ‚oh my god, þetta er búið!‘. Þarf bara að venjast þessum keppnisgír, hvenær á að vera rólegur og hvenær á að sprengja. Og aldrei að vanmeta einhvern þegar hann er að taka bakið! Væri til í að keppa við hann aftur með góða öxl.“
Otabek Rajabov vann síðan úrslitabardagann í gær og er því Heimsbikarmeistari og Evrópumeistari. Rajabov er enn ósigraður en hann verður 19 ára á þessu ári og er því greinilega mikið efni.
Á þessum mótum IMMAF þarf að ná vigt á hverjum keppnisdegi. Það þarf því að halda sér undir þyngd allan tímann enda vigtað að morgni keppnisdags alla daga. Niðurskurðurinn var ekki skemmtilegur en var þó aldrei til vandræða á meðan mótinu stóð.
„Niðurskurðurinn var leiðinlegur en ég þurfti ekkert að skera mikið niður hérna úti nema í morgun [föstudag]. Ég drakk aðeins of mikið vatn í gær og þurfti að fara í bað í morgun sem var leiðinlegt. Ég er búinn að vera í handónýtu skapi í einhverja mánuði því ég er alltaf svangur en var orðinn vanur þessu í endann. Ég veit ekki hvort þessi niðurskurður hafi haft áhrif á mig en ég held að það séu allir hérna aðeins orkuminni og með aðeins minni sprengju en vanalega. Líður örugglega öllum þannig hérna. Ég verð áfram í þessum flokki. Þarf bara að mannast aðeins upp.“
Íslenski hópurinn heldur heim á leið í dag og er Mikael spenntur fyrir því að keppa aftur sem fyrst. „Langar bara að fara heim, borða aðeins, laga öxlina mína og svo keppa aftur. Ég er mega ánægður að hafa fengið þrjá bardaga sem er jafn mikið og þeir sem eru i úrslitum núna. Fékk þriggja bardaga reynslu þó ég hafi tapað.“ Stefnan er síðan auðvitað sett á að taka gullið næst.