Nick Diaz var í löngu og fremur skrítnu viðtali hjá Ariel Helwani á dögunum. Þar segist Nick Diaz vilja berjast aftur.
Nick Diaz ræddi við Ariel Helwani síðasta miðvikudag en viðtalið var birt í gær. Viðtalið var langt og sagði Nick lítið á löngum tíma. Nick Diaz var óskýr í svörum sínum en greindi frá því að hann vilji berjast aftur.
Eftir viðtalið greindi Ariel Helwani frá því að hann hefði rætt við umboðsmann Nick sem fullvissaði Helwani um að Nick vildi snúa aftur í búrið á næsta ári og verið væri að vinna í þeim málum.
Nick Diaz hefur ekki barist síðan í janúar 2015 þegar hann tapaði fyrir Anderson Silva. Báðir féllu á lyfjaprófi eftir bardagann en í lyfjaprófi Diaz fundust leyfar af marijúana. Diaz fékk fimm ára keppnisbann þar sem þetta var hans þriðja brot en bannið var síðar stytt í 18 mánuði.
Síðan Nick barðist síðast hefur Nate Diaz risið upp og orðið ein stærsta stjarna UFC. Nate tapaði fyrir Jorge Masvidal á dögunum um BMF titilinn fyrr í nóvember. Nick var ósáttur við orðalag Masvidal eftir bardagann þar sem Masvidal talaði um að „skíra Nate“. Nick vill mæta Jorge Masvidal á AT&T leikvanginum í Dallas, heimavelli Dallas Cowboys, að sögn umboðsmanns hans.
Nick leit ekki vel út í viðtalinu og var mjög óskýr í svörum sínum – mun óskýrari en áður. Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.
Jorge Masvidal og hans lið svöruðu ósk Nick Diaz með þessu myndbandi.