spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaNick Diaz snýr aftur - gæti mætt Silva í febrúar

Nick Diaz snýr aftur – gæti mætt Silva í febrúar

Nick Diaz

Eftir langt hlé frá keppni hefur ein stærsta stjarnan í MMA, Nick Diaz, skrifað undir þriggja bardaga samning við UFC. Þetta tilkynntu bardagasamtökin á vefsíðu sinni á fimmtudag. UFC stefnir á að hann snúi aftur snemma á árinu 2015, en hinn þrítugi Diaz segist tilbúinn að berjast strax á morgun.

Nick Diaz barðist síðast gegn Georges St. Pierre á UFC 158, þar sem hann tapaði eftir dómaraúrskurð. Þar áður tapaði hann gegn Carlos Condit eftir dómaraúrskurð á UFC 143. Eftir bardagann gegn GSP tók hann sér hlé frá keppni í MMA og lengi var óvíst hvort hann myndi yfirhöfuð keppa aftur.

Nú þegar hann hefur snúið aftur vaknar spurningin; hverjum á hann að mæta?MMA Fréttir hafa nú þegar gert samantekt á hugsanlegum andstæðingum Diaz, en næsti andstæðingur hans hefur enn ekki verið staðfestur. Lífsseigur orðrómur segir að næsti bardagi verði gegn millivigtarmeistanaum fyrrverandi, Anderson Silva. Sjálfur segist Diaz vilja sigra Silva og fá svo titilbardaga gegn veltivigtarmeistaranum Johny Hendricks.

„Ég hefði áhuga á því að berjast við Anderson Silva og öllum bardögum sem munu ganga vel [að selja],“ sagði Diaz. „Hvað varðar Anderson Silva, ég held að það væri frábær bardagi fyrir fólk að sjá því hann hefur svipaðan stíl og ég.“

Heimildir herma að þegar Silva snúi aftur til keppni vilji hann mæta Diaz, helst á Super Bowl-helginni 2015, en Super Bowl 2015 fer fram 1. febrúar.

Eftir sigur á Silva vill Diaz klófesta veltivigtartitilinn. „Ég vil berjast um titilinn,“ sagði Diaz. „Ég held að það yrði stórmál og þess virði að berjast fyrir. Ég vil bardaga sem leiða til titilbardaga. Hver sem er í röðinni og hver sem hefur titilinn, það verður sá sem ég berst við.“

Diaz er ekki sáttur við bardagamenn eins og Johny Hendricks, sem Diaz finnst ekki sýna sínu tímabili í UFC nægilega virðingu. „Johny Hendricks er að rífa kjaft,“ sagði Diaz. „Fólk æpir á mig að ég sé ekki nógu góður til að eiga heima á topp tíu listanum. Þú lærðir að berjast með því að fylgjast með mér. Sá sem þjálfar þig er einhver sem er frá mínu tímabili.“

Nýtti hléið

Dana White, forseti UFC, hélt áfram að bjóða Diaz bardaga á meðan hann var í hléi, m.a. gegn Condit og Hector Lombard, en Diaz neitaði. Diaz segist þó ekki hafa verið að sóa tíma í hléinu, heldur „koma hlutum í verk“.

„Það var erfitt hjá mér í smá tíma, en fólk lætur eins og ég sé ekki búinn að vera að gera neitt,“ sagði Diaz. „Ég hef komið nokkrum hlutum í verk. Þó að ég sé ekki að láta kýla mig á hverjum degi þýðir það ekki að ég sé ekki að einbeita mér að því sem ég geri. Ég hef haldið mér í góðu formi, hlaupið mikið. Það hefur verið góð reynsla að fá allt þetta frí.“

Diaz er með sigur á Robbie Lawler, sem mætir Matt Brown á laugardag. Sigurvegarinn í þeim bardaga fær næsta titilbardaga í veltivigt. Sumir hafa stungið upp á því að Diaz ætti að mæta þeim sem tapar þeim bardaga, jafnvel eftir bardagann gegn Silva. Það gæti þó orðið ansi löng bið fyrir þann sem tapar á morgun, því þarnæsti bardagi Diaz mun líklega ekki eiga sér stað fyrr en í fyrsta lagi í apríl eða maí á næsta ári, að því gefnu að hann mæti Silva í byrjun febrúar. Það kemur líka til greina að Diaz mæti þeim sem tapar á morgun og bardaginn gegn Silva bíði, eða verði aldrei.

Það er orðið ansi langt síðan Diaz sigraði Lawler. Sá bardagi fór fram í apríl 2004, svo það er ekki mjög sanngjarnt á byggja á þeim árangri, þó UFC gæti vissulega notað hann til markaðssetningar á bardaga milli Lawler og Diaz. Líklega ætti frekar að líta á gengi Diaz undanfarið, en Diaz hefur ekki unnið bardaga síðan í október 2011 þegar hann sigraði BJ Penn.

Það er því hálf óraunsætt að tala um titilbardaga í sterkri veltivigtardeildinni enn um sinn. Með sigri á Silva gæti það hins vegar breyst hratt. En ef Diaz mætir Silva og tapar þarf hann að vinna sig upp aftur og þá gætu menn eins og Hector Lombard, Carlos Condit og jafnvel Gunnar Nelson verið góðir andstæðingar.

Þess má geta að bróðir Nick, Nate Diaz, hefur verið í deilu við yfirmenn sína hjá UFC undanfarið og því kemur örlítið á óvart að Nick skuli semja við UFC á þessari stundu, þó endurkoma hans hafi vissulega verið lengi í umræðunni.

Þeir sem vilja kynna sér hvers vegna Nick Diaz er ein stærsta stjarnan í MMA geta gert það hér.

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular