Íslenska hnefaleika landsliðið er statt í Danmörku þar sem Norðurlandameistaramótið fer fram um helgina. Í gær hófu 5 boxarar frá okkur leik en aðeins 1, Nóel Freyr Ragnarsson, sigraði sinn bardaga og komst áfram í næstu umferð. Nóel fór beint í úrslit eftir sigurinn og mætti fyrr í dag Valdemar Allerslev frá Danmörku í úrslitaviðureign síns flokks.
Valdemar, andstæðingur Nóels, er þrefaldur Danskur meistari, fjórfaldur “Regional Champ” og Norðurlandameistari árið 2023, með 42 bardaga undir beltinu. Daninn byrjaði fyrstu lotuna vel og gerði mjög vel tæknilega og tók lotuna. Nóel kom sterkur inn í aðra lotu með tæknilegar breytingar og stóð mjög vel í dananum. Sama gekk á í þeirri þriðju en niðurstaðan silfur á Nóel Frey eftir frábæra frammistöðu í undanúrslitum og mjög harðan bardaga í dag.
“Ég er gríðarlega stoltur af Nóel sem skildi allt eftir inn í hring, sem er það sem ég ætlast til. Það er mjög mikið um mjög reynda boxara þegar komið er á þetta level og þá þarf maður að stíga upp og setja allt í sölurnar sem Nóel gerði svo sannarlega og ég tek hatt minn ofan fyrir honum” sagði Davíð Rúnar landsliðsþjálfari.
Erika Nótt Einarsdóttir er svo eini keppandi Íslands sem á enn eftir að berjast en hún fer beint í úrslit og á úrslitabardaga á morgun gegn Arina Vakiili sem hún hefur keppt við áður og má búast við flugeldasýningu. Áfram Ísland!