spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Barboza vs. Gaethje

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Barboza vs. Gaethje

UFC er með ágætis bardagakvöld í Philadelphiu í kvöld. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Edson Barboza og Justin Gaethje sem er hreinlega magnaður bardagi.

Getur ekki klikkað

Aðalbardagi kvöldsins er þess eðlis að hann hreinlega getur ekki verið leiðinlegur. Justin Gaethje kann ekki að vera í leiðinlegum bardögum og ekki er Barboza neitt mikið verri. Þessi tveir eru grjótharðir en ólíkir. Gaethje er eins og einhver tortímandi sem veður í gegnum eld og brennistein til að rota andstæðinginn. Hann er frábær glímumaður og gæti vel unnið bardaga með því að taka andstæðinga niður en kýs frekar að standa og skiptast á höggum. Ofan á það er Gaethje með þung lágspörk sem andstæðingar hans hafa fengið að finna fyrir.

Barboza er tæknilegri standandi en sýndi gegn Dan Hooker að það er slæm hugmynd að standa með honum og skiptast bara á höggum. Barboza er sennilega með bestu lágspörkin í MMA í dag en ESPN birti skemmtilega grein á dögunum þar sem andstæðingar beggja lýstu því hvernig það er að fá spark frá þeim. Þetta er bardagi sem þú hreinlega mátt ekki missa af!

Mikilvægur bardagi í strávigtinni

Þær Michelle Waterson og Karolina Kowalkiewicz mætast í kvöld í strávigt kvenna. Það er mikilvægur bardagi í strávigtinni enda báðar á topp 10 í þyngdarflokknum. Waterson hefur unnið tvo bardaga í röð á meðan Kowalkiewicz var síðast illa rotuð af Jessicu Andrade. Waterson ætlar eflaust að gera atlögu að toppnum með sínum þriðja sigri í röð á meðan Kowalkiewicz vill ekki tapa stöðu sinni.

Nýtt nafn í léttþungavigtinni

Kennedy Nzechukwu berst sinn fyrsta bardaga í UFC í kvöld þegar hann mætir Skotanum Paul Craig. Kennedy er fæddur í Nígeríu og var tvisvar í áskorendaseríu Dana White. Fyrst var hann of hrár fyrir UFC (vann samt) en í seinni bardaganum rotaði hann andstæðinginn í 1. lotu. Kennedy er nokkuð spennandi viðbót við léttþungavigtina og verður áhugavert að sjá hvað hann getur gert gegn skoska glímumanninum.

Ekki gleyma

Það eru fullt af ágætis bardögum á kvöldinu. Svíinn Jack Hermansson fær stórt tækifæri þegar hann mætir David Branch í fínum bardaga í millivigt. Josh Emmett snýr aftur eftir hrikalegt rothögg í fyrra og mætir Michael Johnson. Þá verður gaman að sjá Sodiq Yussuf mæta Sheymon Moraes í fjaðurvigt og gæti sá bardagi orðið mjög skemmtilegur.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 19:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 23.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular