spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Thiago Santos vs....

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Thiago Santos vs. Eryk Anders

UFC heldur bardagakvöld í Brasilíu núna um helgina. Bölvun virðist hafa hvílt á kvöldinu en það hefur breyst oftar en gengi krónunnar á undanförnum vikum. Kvöldið er laskað eftir allt þetta rask en þó má finna nokkrar góðar ástæður til að horfa á herlegheitin.

Nokkuð góð redding

Fyrst átti Glover Teixeira að mæta Jimi Manuwa í aðalbardaga kvöldsins. Svo kom Thiago Santos inn fyrir Teixeira. Því næst kom Eryk Anders inn fyrir Manuwa með aðeins nokkurra daga fyrirvara. Venjulega endum við með hálf fúlan bardaga eftir svona hringl en Santos gegn Anders er nokkuð heillandi viðureign. Santos er harði gaurinn sem við þekkjum vel og getur rotað hvern sem er. Anders er nýji náunginn á hraðri uppleið sem þarf að standast erfitt próf. Eina tap Anders var gegn Lyoto Machida á klofnum úrskurði dómaranna. Hvað gerir hann gegn hinum hættulega Thiago Santos?

Renan Barão

Brasilískar goðsagnir

Þetta kvöld fáum við endurkomu Antônio Rogério Nogueira, eða Little Nog. Nogeira hefur ekki sést í búrinu síðan árið 2016 og er orðinn 42 ára gamall. Það er gaman að sjá að hann fær andstæðing við hæfi, engan ungan orkubolta, bara hinn vingjarnlega „Smiling“ Sam Alvey. Auk Nogueira fáum við líka Renan Barão sem eltist enn við drauminn um að ná aftur á toppinn. Barão fær spólgraðan nýliða, Andre Ewell, sem hefur klárað fjóra andstæðinga í röð. Barao skeit harkalega á sig í vigtuninni í morgun en hann var 141,6 pund og 5 pundum of þungur.

Ben Saunders

Faldir gullmolar

Eins og svo oft á UFC kvöldum leynast áhugaverðir bardagar ef grannt er skoðað. Til dæmis þá er bardagi Ben Saunders og Sergio Moraes mjög spennandi fyrir Jiu-jitsu nörda. Saunders er með öflugt „rubber guard“ úr skóla Eddie Bravo og Moraes er fyrrverandi heimsmeistari í blíðlistinni. Vonandi fer þessi bardagi í gólfið. Annar skemmtilegur er bardagi Thales Leites og Hector Lombard. Þessa herramenn þarf ekki að kynna en þeir eru sjaldan í leiðinlegum bardaga.

Livinha Souza

Nýliðavaktin

Kvöldið býður upp á nokkra áhugaverða nýliða. Í fyrsta bardaga kvöldsins mætir til leiks Livinha Souza sem er fyrrverdandi meistari í Invicta. Eina tap hennar í 12 bardögum var naumt tap á stigum gegn Angela Hill, engin skömm af því. Brassinn Luis Henrique sem er alltaf erfiður tekur á móti Bandaríkjamanninum Ryan Spann sem kom sér nýlega inn í UFC með rosalegri frammistöðu í The Contender series. Það verður gaman að sjá hvað hann getur gert í léttþungavigt. Að lokum er það er Carlo Pedersoli Jr. sem mætir hinum skemmtilega Alex „Cowboy“ Oliveira. Það er alltaf gaman að fá nýliða í veltivigt en Pedersoli hefur barist einu sinni í UFC og sigraði þá Bradley Scott á stigum. Hann hefur nú unnið átta bardaga í röð og gæti gert góða hluti þó þetta gæti orðið erfitt gegn brasilíska kúrekanum.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2:30. Allir bardagarnir verða aðgengilegir á Fight Pass rás UFC.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular