spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC London: Werdum vs. Volkov

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC London: Werdum vs. Volkov

UFC er með bardagakvöld í London á morgun, laugardag. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Fabricio Werdum og Alexander Volkov en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana annað kvöld.

MMA aðdáendur í Evrópu voru svekktir þegar uppröðun bardaganna í London var klár enda lítið um stór nöfn. Þegar betur er að gáð má þó sjá að þarna eru þó nokkrir áhugaverðir bardagar sem gaman verður að sjá.

Hver tekur skrefið í átt að titilbardaga?

Í aðalbardaga kvöldsins mætast þungavigtarmennirnir Fabricio Werdum og Alexander Volkov. Hinn fertugi Werdum hefur ekki farið leynt með það að hann vill fá annan titilbardaga. Werdum hefur unnið þrjá af síðustu fjórum bardögum sínum eftir að hann tapaði beltinu til Stipe Miocic. Volkov hefur farið vel af stað í UFC og unnið alla þrjá bardaga sína en bara klárað einn af þeim. Það er ólíklegt að sigurvegarinn hér fái titilbardaga enda mun meistarinn Miocic ekki berjast fyrr en í sumar (gegn Daniel Cormier) og verður næsti bardagi þungavigtarmeistarans , hver sem það verður, eftir bardagann í sumar sennilega ekki fyrr en í haust. Sigurvegarinn hér væri kominn í ágætis stöðu en þyrfti sennilega einn sigur í viðbót til að fá titilbardaga.

Frábær tími

Það er fátt betra en að horfa á UFC í beinni útsendingu á eðlilegum tíma! Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 21 en fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 17:45! Frábær tímasetning fyrir MMA aðdáendur hér í Evrópu.

Nær Manuwa að bæta upp ömurlega frammistöðu?

Þeir Jimi Manuwa og Jan Blachowicz mætast öðru sinni á morgun. Fyrri viðureign þeirra var hörmulega leiðinleg þar sem Manuwa gerði fátt annað en að halda Blachowicz upp við búrið. Það er eini bardagi Manuwa sem farið hefur allar loturnar og spurning hvort hann bæti upp fyrir fyrri bardagann með klassísku Manuwa rothöggi á morgun?

Leon Edwards á uppleið

Leon Edwards er í 15. sæti á styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Edwards getur nælt sér í sinn fimmta sigur í röð og væri það ein lengsta sigurgangan í veltivigtinni þessa stundina. Edwards er áhugaverður bardagamaður og kannski verður hann framtíðar andstæðingur fyrir Gunnar Nelson?

Ekki gleyma!

Tölfræðin er ekki beint með bardagamönnunum í upphitunarbardögum kvöldsins. Af þeim 14 bardagamönnum sem berjast í upphitunarbardögum kvöldsins eru fimm bardagamenn á taphrynu og sex bardagamenn að berjast sinn fyrsta bardaga í UFC. Það leynast þó nokkrir áhugaverðir bardagar.

John Phillips er afar áhugaverður maður en hann býr í hjólhýsi fyrir utan heimili John Kavanagh á Írlandi og æfir með SBG. Phillips er með 19 sigra eftir rothögg og verður gaman að sjá hann á stóra sviðinu. Hakeem Dawodu er annar SBG gæji sem verður gaman að fylgjast með. Hinn 26 ára Kanadamaður hefur klárað sex af sjö sigrum sínum með rothöggi og er spennandi.

Þá verður áhugavert að sjá Oliver Enkamp aftur en hann kom inn með skömmum fyrirvara síðast þegar hann barðist sinn fyrsta bardaga í UFC og tapaði gegn hinum reynslumikla Nordine Taleb. Enkamp sýndi samt ágætis takta og leit út fyrir að vera skemmtilegur bardagamaður. Að lokum má alls ekki gleyma Tom ‘The Fire Kid’ Duquesnoy. Hann tapaði fremur óvænt síðast og þarf góða frammistöðu núna til að minna á sig.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular