UFC er með bardagakvöld í kvöld í Nashville í Bandaríkjunum. Lítið er um stór nöfn á kvöldinu en þó leynast góðir molar hér og þar.
- Risa tækifæri fyrir Artem Lobov: Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Cub Swanson og SBG Dublin maðurinn, Artem Lobov. Þessi bardagi kom verulega á óvart þegar hann var staðfestur enda Swanson í 4. sæti á styrkleikalistanum á meðan Lobov er ekki á listanum. Lobov er bara 2-2 í UFC og fær hér risa tækifæri á að koma sér meðal efstu manna með sigri. Það verður þó hægara sagt en gert enda Swanson frábær bardagamaður.
- Al Iaquinta snýr aftur: ‘Raging’ Al Iaquinta hefur ekkert barist í tvö ár. Þá vann hann Jorge Masvidal eftir klofna dómaraákvörðun og hraunaði yfir áhorfendur sem bauluðu á hann eftir bardagann. Iaquinta er alltaf skemmtilegur karakter og iðulega í skemmtilegum bardögum en hann mætir Diego Sanchez í kvöld.
- Hnefar munu fljúga: Þeir John Dodson og Eddie Wineland mætast í skemmtilegri viðureign í bantamvigt. Samanlagt eru þeir með 23 rothögg á milli sín og eru góðar líkur á að þessi bardagi verði harður og skemmtilegur.
- Ellenberger hefur ýmislegt að sanna: Jake Ellenberger hefur tapað sex af síðustu átta bardögum sínum en er þrátt fyrir það ennþá á topp 15 í veltivigtinni. Honum til varnar hefur hann verið að mæta hrikalega sterkum andstæðingum en í kvöld fær hann gott tækifæri á sigri. Ellenberger mætir Mike Perry en þetta er andstæðingur sem Ellenberger verður að vinna ef hann ætlar að halda sér meðal þeirra bestu í UFC. Perry er ólátabelgur en engu að síður seigur bardagamaður.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 22:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2. Allir bardagar kvöldsins verða aðgengilegir á Fight Pass rás UFC hér á Íslandi.