Til stendur að taka nýjar og endurbættar reglur og stigakerfi í MMA á næsta ári. Breytingarnar snúa aðallega að því að fella út úreltar reglur auk þess sem ramminn hvað varðar stigagjöf í bardögum verður skýrari. Hér verður farið í stuttu máli yfir helstu breytingarnar.
Breytingarnar á reglunum eru flestar minniháttar sem ættu ekki að hafa mikil áhrif á framvindu bardaganna. Þetta eru breytingar eins og að hælspörk úr „guardi“ verði leyfileg, þ.e þegar bardagamaður liggur á bakinu og sparkar með hælunum í bak andstæðingsins sem liggur ofan á honum. Einnig hefur sú regla að bannað sé að grípa í viðbein andstæðingsins verið felld út en hún þótti úrelt og ólíkleg til þess að veita forskot í bardaga.
Stærsta breytingin fyrir áhorfendur verða reglurnar um hvenær bardagamenn teljast liggjandi og hvenær ekki. Hingað til hafa standandi einstaklingar getað lagt eina hönd á gólfið í búrinu og þá talist vera liggjandi. Þar af leiðandi má ekki veita þeim spörk eða hnéspörk í höfuð.
Þessu hefur nú verið breytt og þurfa bardagamenn nú að vera með báðar hendur á gólfinu (eða annað hnéð) til að teljast vera liggjandi. Nú má einnig stappa á höndum bardagamanns sem hefur aðeins eina hönd á gólfinu þar sem hann telst ekki lengur vera liggjandi samkvæmt nýju reglunum.
Það sem einna helst hefur verið fjallað um sem mein í MMA hafa verið augnpotin. Jon Jones hefur verið duglegur við að nýta sér þessa aðferð til þess að öðlast forskot í bardögum sínum. Það sem breytt hefur verið í reglunum hvað þetta varðar er:
- Bardagamenn sem baða út höndunum með útrétta fingur fá viðvörun frá dómara, sama hvað.
- Dómari má gera hlé á bardaga til að aðvara bardagamann en getur líka tekið ákvörðun um að aðvara hann í miðjum bardaga, án hlés.
- Dómari getur stöðvað bardaga til að taka stig af bardagamönnum auk þess sem hægt er að dæma bardagamenn úr leik fyrir endurteknar viðvaranir.
Að lokum hefur stigakerfið verið endurbætt og núna á dómurum að reynast auðveldara að skora lotur og stigagjöf verði skýrari. T.a.m verður mun meiri áhersla lögð á högg og glímu heldur en það sem kallað hefur verið „octagon control” eða að vera aggressívari bardagamaðurinn í búrinu. Þ.e. sá sem sækir meira fram en er kannski ekkert mikið að lenda höggum eða ná fellum ætti ekki að vinna líkt og er oft í dag.
Skaði af höggum verður metin umfram fjölda högga. Ef að bardagamaður A lendir fimm stungum í lotu sem gera lítinn skaða á meðan andstæðingur B lendir einu þungu höggi sem vankar hinn aðilann þá telur það högg meira en hin fimm.
10-8 lotur munu verða algengari þar sem 10-9 lotur gefa til kynna að lotan hafi verið mjög jöfn. Lotur verða því skoraðar á grundvelli þess sem kallað hefur verið D-in þrjú (Damage – Duration – Domination). Nú verður einnig hægt að skora lotur 10-10 en óhætt er að fullyrða að það verði sjaldgæf sjón enda þurfi bardaginn að vera gjörsamlega hnífjafn.
Reglubreytingarnar voru samþykktar í ágúst og eiga að taka gildi þann 1. janúar. Nú hefur hins vegar komið í ljós að nokkur fylki Bandaríkjanna munu hugsanlega ekki samþykkja eða innleiða nýju reglurnar strax. Það yrði þá í fyrsta sinn sem fylki gætu haft misjafnar reglur í sömu íþróttinni sem væri ansi snúin staða fyrir bardagamenn og aðdáendur.
Sum ríki hafa neitað að innleiða reglurnar og önnur hafa sagt ætla að kjósa um þær. T.a.m munu New Jersey, Ohio og Virginia fylki ekki innleiða reglurnar að eigin sögn og Texas mun kjósa um þær í mars. Nevada, bardagahöfuðborg Bandaríkjanna, mun mögulega ákveða að kjósa um reglurnar í janúar.
Ástæðan fyrir þessu er sú að ABC (Association of Boxing Commissions and Combative Sports) hafa ekki lögsögu til að þvinga ríki til að innleiða eða fara eftir nýju reglunum. Það er því undir hverju fylki og formanni íþróttaráðanna komið að ákveða hvort farið verði eftir reglunum eða þær innleiddar.
Aðal ástæðan að baki þessari ákvörðun fylkjanna er talin vera sú að flest fylkin hafa efasemdir gagnvart tveimur af reglubreytingunum – þeim sem snúa að nýrnaspörkunum og þeim reglum sem snúa að því hvenær bardagamaður sé liggjandi (grounded) eða ekki.
Skiptar skoðanir eru á þessum reglum en högg og spörk í nýrun eru leyfð standandi og í öllum öðrum stöðum bardaga. Þá er talið að breytingar á reglunum sem snúa að liggjandi manni geti einungis vafist fyrir og flækt hlutina.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessar reglubreytingar munu koma út og hvort að umdeildum dómaraákvörðunum muni fækka eða hvort reglurnar muni einhvern tíman verða samþykktar af öllum en tíminn einn mun leiða það í ljós.