Þá er komið að því að loka augunum og biðja til MMA guðanna. 2019 var skemmtilegt ár í MMA heiminum og vonumst við eftir að sjá sem flesta stóra bardaga á næsta ári.
Í fyrra fengum við bara tvo af þeim tíu bardögum sem ég óskaði eftir. Við fengum Amanda Nunes gegn Holly Holm, Gunnar Nelson gegn Leon Edwards og svo fáum við Tony Ferguson gegn Khabib Nurmagomedov í apríl (vonandi). Hér tökum við saman þá bardaga sem ekki hafa verið staðfestir (líkt og Khabib gegn Tony Ferguson) en vonumst eftir að eigi sér stað á árinu.
10. Aljamain Sterling gegn Cory Sandhagen
Það eru hákarlar syndandi um í vötnum bantamvigtar og þessir eru tveir af þeim bestu. Báðir hafa sýnt ótrúleg tilþrif í undanförnum bardögum og báðir gæti orðið framtíðar meistarar. Ég vil sjá þessa kalla kljást á meðan Henry Cejudo ver titilinn og sigurvegarinn fer svo bent í titilbardaga.
9. Robert Whittaker gegn Darren Till
Robert Wittaker er elskaður af öllum og það var erfitt að sjá hann tapa illa gegn Israel Adesanya. Whittaker var nýlega bókaður gegn Jared Cannonier í mars en það væri gaman að sjá hann gegn Darren Till síðar á árinu. Þetta yrði spennandi bardagi og þó svo að Whittaker væri talinn sigurstranglegri er aldrei að vita hvað Till getur ef hann dettur í stuð.
8. Henry Cejudo gegn Petr Yan
Ef ég hefði mátt ráða hefði Henry Cejudo varið titilinn sinn í fluguvigt gegn Joseph Benavidez en þar sem hann hefur ákveðið að láta titilinn frá sér er komin upp ný staða í bantamvigt. Þó svo að Dana Whita lítist vel á José Aldo þessa stundina gegn Cejudo á sá rússneski skilið að fá titilbardaga. Petr Yan var geggjaður gegn Urijah Faber á UFC 245 og ég vil sjá hvað hann getur gert á móti Cejudo.
7. Leon Edwards gegn Tyron Woodley
Eftir stórkostlegan bardaga Kamaru Usman og Colby Covington er spurningin, hver fær næsta titilbardaga? Sumir segja Jorge Masvidal en ég held að Masvidal muni róa á önnur mið. Þá standa eftir Leon Edwards og Tyron Woodley. Mín vegna mætti Edwards fara beint í titilbardaga en þar sem Usman virðist ætla að taka sér smá frí væri tilvalið að fá þessa fínu viðureign í millitíðinni. Woodley virðist loksins hafa samþykkt að mæta Edwards og stefnir allt í að þetta verði aðalbardaginn í London í mars.
6. Zhang Weili gegn Tatiana Suarez
Það eru ákveðin umskipti í gangi í strávigt kvenna. Á þessu ári kom hin kínverska Zhang Weili inn með látum og tók titilinn af Jessca Andrade á 42 sekúndum. Hún mætir sennilega næst Joanna Jędrzejczyk og Rose Namajunas er enn þarna einhvers staðar. Mér finnst hins vegar vera kominn tími á titilbardaga hjá Tatiana Suarez en hún hefur unnið alla sína fimm bardaga í UFC með yfirburðum.
5. Alexander Volkanovski gegn Zabit Magomedsharipov
Max Holloway tapaði titlinum núna í desember og sennilega fær hann annað tækifæri gegn Volkanovski næst. Ég held hins vegar að það séu mistök þar sem hinn bardaginn var ekkert sérstaklega jafn. Meira spennandi væri að sjá Ástralann spreyta sig gegn rússnesku vélinni Zabit Magomedsharipov. Allir vilja vita hversu góður Zabit er og þetta er fullkomið tækifæri til að komast að því.
4. Jon Jones gegn Junior dos Santos
2020 er árið sem ég vil sjá Jon Jones þreifa fyrir sér í þungavigt. Maðurinn verður nánast búinn að þurrka út léttþungavigt ef hann vinnur Dominck Reyes í febrúar. Spurningin er því hvern ætti hann að berjast við fyrst? Hann færi ekki beint í meistarann þar sem Stipe Miocic á að mæta Daniel Cormier næst. Ekki fer hann í hættulegasta gaurinn strax, þ.e. Francis Ngannou. Bardagi gegn stóru nafni og fyrrverandi meistara sem er aðeins farinn að dala, eins og Junior dos Santos, hljómar eins og lausnin og virðist auk þess skemmtilegur bardagi.
3. Justin Gaethje gegn meistaranum í léttvigt
Um miðan apríl ætti að fara fram sá bardagi sem allir bíða eftir á milli Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson. Hvernig sem hann fer er ljóst að Justin Gaethje ætti að vera næstur í röðinni. Gaethje er ekki bara skemmtilegur bardagamaður heldur er hann búinn að rota þrjá andstæðinga í röð í fyrstu lotu og hefur aldrei verið betri. Gaethje vill standa en er líka mjög góður glímumaður og gæti því átt möguleika gegn þessum snillingum sem mætast í apríl. Auk þess á hann eftir að mæta þeim báðum.
2. Israel Adesanya gegn Paulo Costa
Eftir stórkostlegan sigur Israel Adesanya gegn Robert Whittaker á árinu lá beint við bardagi gegn stálboltanum Paulo Costa en hann var því miður meiddur. Líklega mætir Adesanya Yoel Romero fyrst en ef hann vinnur væri tilvalið að taka Costa næst. Báðir eru ósigraðir, á besta aldri og stílarnir eru þannig að útkoman ætti að verða fjör.
1. Conor McGregor gegn Jorge Masvidal
Jorge Masvidal er kominn í mjög góða stöðu. Hann er efstur á lista í veltivigt og titilbardagi gegn Kamaru Usman er í boði ef hann vill það. Það er hins vegar bæði erfiðari og minni bardagi tekjulega séð heldur en mögulegur bardagi gegn Conor McGregor. Fyrst þarf Conor auðvitað að komast í gegnum Donald Cerrone í janúar sem er alls ekki sjálfgefið. Ef hann gerir það held ég að þessi bardagi verði að veruleika næsta sumar og ef það er raunin verður það stærsta bardagakvöld ársins.