Quinton „Rampage“ Jackson virðist vera aftur kominn í UFC! Þetta kom fram í útsendingunni á UFC Fight Night: Machida vs. Dollaway á laugardagskvöldið. Bellator gætu þó haft eitthvað að segja um málið.
Jackson barðist síðast í UFC í janúar 2013 en var látinn fara eftir þrjú töp í röð. Jackson var ófeiminn við að láta í ljós óánægju sína með UFC og talaði illa um samtökin í fjölmiðlum. Hann samdi síðar við Bellator og sigraði alla þrjá bardaga sína þar.
Þessar fréttir koma eins og þruma úr heiðskýru lofti. Jackson er 36 ára og virtist hafa brennt allar brýr að baki sér með neikvæðum ummælum um UFC eins og dæmið hér að neðan sýnir.
@LawsAboutTheD @MMAHistoryToday Joe silva is a lil bitch. I never saw that b4. Those guys hated me ever since I beat Chuck. Haha fuck em
— Quinton Jackson (@Rampage4real) November 13, 2014
Þarna á hann við Joe Silva sem sér um að raða bardagamönnum saman og telur að UFC hafi hatað sig síðan hann vann Chuck Liddell.
Það virðist nú vera allt gleymt og grafið og er Jackson tilbúinn til að berjast aftur fyrir UFC. Þrátt fyrir að hann sé orðinn 36 ára gæti hann enn nýst UFC enda enn ágætlega stórt nafn. Hann gæti t.d. verið í aðalbardaga á UFC Fight Night gegn öðrum eldri bardagamönnum á borð við Shogun Rua, Dan Henderson eða Lil Nog og það gæti fengið fólk til að horfa.
Það sem vakti þó helst athygli voru ummæli Scott Coker, forseta Bellator, á Twitter.
Let us be clear that Quinton “Rampage” Jackson is under an exclusive contract with #BellatorMMA. We will protect our contractual rights
— Scott Coker (@ScottCoker) December 21, 2014
Í yfirlýsingu Jackson kemur fram að Bellator hafi ekki staðið við gerða samninga og því hafi Jackson rift samningnum. Það gætu því orðið deilur milli lögfræðinga Bellator og UFC (ekki í fyrsta sinn) og verður áhugavert að fylgjast með þeirri framvindu. Það er hins vegar athyglisvert að UFC skuli tilkynna að Jackson sé kominn aftur þegar hann er enn á samningni hjá Bellator (miðað við ummæli Scott Coker). Það væri enn athyglisverðara ef UFC ákveður að fara í lögfræðingaslag um hinn 36 ára gamla Jackson.