Ronda Rousey hefur fengið sér nýjan styrktarþjálfara og næringarfræðing. Gæti þetta bent til þess að hún sé ekki hætt?
Ronda Rousey hefur lítið látið í sér heyra síðan hún var rotuð af Amöndu Nunes á UFC 207 í lok síðasta árs. Dana White lét hafa eftir sér að hún væri líklegast hætt og bendir ekki margt til þess að hún muni berjast aftur.
Í gær sagði styrktarþjálfarinn og næringarfræðingurinn Dan Garner að hann hefði hafið samstarf við Rondu Rousey.
Garner hefur áður unnið með nokkrum óþekktum MMA íþróttamönnum en engum sem hefur verið hátt skrifaður í UFC. Þegar svona fréttir berast er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort Ronda Rousey ætli sér að snúa aftur. Hún hefur ekki sjálf sagt að hún sé hætt. Rousey hefur auðvitað verið í nokkrum kvikmyndum og leikarar eru oft með svona þjálfara svo þetta þarf ekki endilega að tengjast bardagaferlinum.
Ef hún ætlar hins vegar að snúa aftur er þetta ekki endilega þjálfarinn sem hún þarfnast mest. Á meðan Edmund Tarverdyan verður í horninu hennar mun hún áfram vera í vandræðum.