Diego Sanchez, sem átti einn eftirminnilegasta bardaga ársins gegn Gilbert Melendez á UFC 166, er ekki sáttur við kjaftinn á Conor McGregor og sagði í þættinum The MMA Hour að hann myndi glaður þagga niður í honum ef UFC bæði hann um það. McGregor gerði lítið úr Sanchez eftir UFC 166 og sagði að ef hann væri látinn mæta Sanchez í UFC væri það auðveld leið til að fá góða útborgun.
Sanchez svaraði vel fyrir sig í þættinum:
“Þessi gaur er góður fyrir íþróttina því hann dregur að írska og evrópska aðdáendur. Það er gott fyrir fyrirtækið. En hann er með mikinn kjaft. Þetta byrjaði allt þegar hann sendi út tíst þar sem hann vanvirti alla topp fjaðurvigtarmenn í heiminum. Ég hugsaði “þetta er fáránlegt, ætlar enginn að svara honum?” Einhver verður að lækka í honum rostann. Hann trúir öllu sem er sagt um hann. Ég sendi út tíst þar sem ég spurði hverja hann er þekktur fyrir að hafa sigrað. Hverjir eru það? […] Hvaða mikilvægu bardögum hefur þú barist í? Hverjir eru þetta sem hafa sigrað þig? Þú hefur tapað bardögum og þú lætur eins og þú sért Muhammad Ali Írlands.”
“Hann verður auðmýktur. Ef vegir okkar liggja saman og það er það sem UFC vill gera. Ég efa að UFC myndi leyfa því að gerast, satt að segja. Það eru peningar í honum, hann getur dregið fjöldann að á Írlandi og í Evrópu. Þannig að þeir láta hann ekki mæta einhverjum eins og mér sem er bara að fara að rústa þessum gaur. Það er ekkert vit í því út frá viðskiptasjónarmiði.”
“McGregor er fær, hann er hæfileikaríkur, en hefur hann verið í stríðum, hefur virkilega reynt á hann? Hefur hann barist við svartbeltung í jiu-jitsu? Nei! Hefur hann barist við fyrstu deildar glímumann? Nei! Hann þarf að stíga niður af stallinum og vera auðmjúkur.”
“Ef UFC vill að ég berji hann, myndi ég gera hvað sem er fyrir fyrirtækið. Ég hef verið í UFC í níu ár, ég held ekki aftur af mér og ef þeir vilja að ég stígi inn og þaggi niður í svona litlum rindli væri það mér sönn ánægja.”
Ætli Conor hafi farið yfir strikið? Er hann tilbúinn fyrir toppmennina í fjaðurvigtardeildinni eða er hann að grafa sér gröf? Það er sagt að skærustu stjörnurnar skíni skemmst, en er Conor undantekning? Það verður að koma í ljós þegar meiri reynsla kemst á hann í UFC. Hingað til hefur hann staðið sig glæsilega og virðist vera áhugaverð viðbót við fjaðurvigtardeildina. Það er erfitt að segja hvort hann sé efni í meistara, en það er greinilegt að stórhættulegir menn eru farnir að taka eftir honum og hann á erfiða bardaga í vændum þegar hann snýr aftur frá meiðslum.
Upptökuna úr þættinum má nálgast hér.
Það væri frábær bardagi