spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSpá MMA Frétta fyrir UFC 266

Spá MMA Frétta fyrir UFC 266

UFC 266 fer fram í kvöld þar sem tveir titilbardagar eru á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í fjaðurvigt: Alexander Volkanovski gegn Brian Ortega

Pétur Marinó Jónsson: Alexander Volkanovski er ekki alltaf að fá þá virðingu sem hann á skilið og er oft gleymdur. Hann er meðvitaður um það sjálfur og veit að hann þarf að klára þessa stóru titilbardaga til að fá meiri ást. Það er líka stundum erfitt að fatta hvað það er sem gerir hann svona góðan. Hann er einhvern veginn með skrítinn ryðma sem andstæðingarnir eiga erfitt með að átta sig á og stöðvar þá að komast úr sporunum. Holloway var til að mynda ekki að ná þessum 5-6+ högga fléttum gegn Volk sem hann er vanur að ná á alla. Volkanovski kemur líka alltaf með eitursnjalla leikáætlun og fylgir henni frá A til Ö.

Ortega þarf að mínu mati að finna eitthvað jafnvægi milli taktíska Ortega sem við sáum síðast og villta Ortega sem við sáum fyrst í UFC til að eiga séns gegn Volk. Ég held að Ortega geti ekki komið inn með snjallari leikáætlun en Volk og unnið þannig. Hann þarf að gera þetta aðeins villtara og að meiri óreiðu til að vinna. Ortega er alveg með nokkra góða ása í erminni sem hann gæti nýtt en Volk er einhvern veginn aldrei í neinu veseni eða hættu. Held að Volk nái bara að halda sér öruggum yfir 25 mínútur og vinni eftir dómaraákvörðun í ágætis bardaga.

Guttormur Árni Ársælsson: Með sigri skellir Volkanovski sér í 20 sigra í röð en hann hefur ekki tapað síðan 2013. Hann er líka með tvo sigra gegn Holloway, sem er verulega flott fyrir ferilskránna. Ég held að Volkanovski sé betri standandi og betri wrestler en Ortega og hugsa að hann sigli þessu örugglega heim eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Ortega hefur bætt sig mikið standandi en ég efast um að það sé nóg. Alex þarf að passa sig á subbum en geri hann það ætti hann að taka þetta nokkuð örugglega. Tek sénsinn á finish. Volk TKO í fjórðu.

Brynjólfur Ingvarsson: Þetta er einn af meira spennandi bardögum ársins. Ortega er alltaf hættulegur og virðist það halda í seinni loturnar. Volkanovski kemur alltaf inn með gott gameplan og er agaður að fylgja því. Ortega hefur verið opinn fyrir lágspörkum og ég held að hann verði það áfram. Hann er með bætta vörn en ég held að hann sé akkúrat opinn fyrir hægri krók Volkanovski. Ég spái agaðri frammistöðu frá Volkanovski og sigur á dómaraákvörðun gegn frústreðurum Ortega sem nær ekki að koma árásum sínum af stað.

Alexander Volkanovski: Pétur, Guttormur, Óskar, Brynjólfur
Brian Ortega: ..

Titilbardagi í fluguvigt kvenna: Valentina Shevchenko gegn Lauren Murphy

Pétur Marinó Jónsson: Það er bara spurningin hér hversu lengi mun Lauren Murphy lifa af. Hún er með ekkert sem á að ógna Valentinu og í raun aðdáunarvert hve alvarlega Valentina tekur öllum þessum titilbardögum. Hún er ekkert að slaka á og heldur bara áfram að bæta sig. Valentina skiptist á að vinna eftir dómaraákvörðun og klára en það breytist núna. Í fyrsta sinn í UFC mun Valentina klára tvo bardaga í röð. Valentina klárar þetta með uppgjafartaki í 3. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég vorkenni eiginlega bara öllum andstæðingum Shevchenko fyrirfram. Hún er að fara að baka Murphy og allir vita það en samt þarf þessi bardagi að fara fram. Murphy er 38 ára og ég sé ekki hvernig hún vinnur þetta. Shevchenko með tæknilegt rothögg í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Það vita allir hver vinnur, það eina sem er spennandi er hvernig. Ég segi armbar í fyrstu lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Önnur fyrir ljónið. Það er einfaldlega engin í þessum þyngdarflokki að standa í hárinu á Shevchenko og Murphy er þar engin undantekning. Murphy er hæg en dugleg og gæti látið Shevchenko hafa fyrir sigrinum. Ég held að Shevchenko reynist of hröð og of öguð og vinni þægilega á dómaraákvörðun.

Valentina Shevchenko: Pétur, Guttormur, Óskar, Brynjólfur
Lauren Murphy: ..

Millivigt: Nick Diaz gegn Robbie Lawler

Pétur Marinó Jónsson: Maður veit eiginlega ekkert hvernig þetta verður því enginn veit hvernig 38 ára Nick Diaz mun líta út í búrinu. Ég veit ekki alveg með það að fá hann inn 38 ára gamlan og ekki búinn að berjast í 6 ár. Hann virðist ekki vera neitt sérstaklega spenntur fyrir þessu sjálfur en lítur svo sem ágætlega út. Robbie Lawler hefur ekki verið góður í smá tíma núna og er alveg á lokametrunum. Lawler virðist vera þokkalega útbrunninn og virðist eiga erfitt með að komast af stað og er ekki eins scary og hann var. Það gerist með aldrinum og bara spurning hvort hann nái að taka í gikkinn almennilega gegn Nick. Ég er samt ánægður að þessir tveir séu bara að mæta hvor öðrum en ekki ungum, hungruðum drápsvélum. Myndi nú halda að sá sem hefur barist nokkra bardaga síðan 2015 væri líklegri heldur en sá sem barðist síðast í janúar 2015. En ég ætla samt að tippa á að Nick Diaz vinni aftur en í þetta sinn eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er yfirleitt ekki aðdándi þess að menn séu að mætast aftur þegar svona langur tími er liðinn og þessi bardagi er engin undantekning. Ég sá myndband af Diaz skuggaboxa og fannst hann líta hræðilega út. Hann hefur ekki unnið bardaga síðan 2011 og Lawler hefur tapað fjórum í röð. Lawler sigrar eftir dómaraákvörðun og svo mega báðir hengja upp hanskana og rúlla inn í sólsetrið.

Óskar Örn Árnason: Ég trúi varla að Nick Diaz sé að berjast um helgina. Því miður er ég hræddur um að of langur tími sé liðinn með of litlum æfingum. Ég held að Lawler muni valta yfir hann þar til dómarinn rífur hann af. Lawler TKO í annarri.

Brynjólfur Ingvarsson: Þessi er skemmtilegur en það veit enginn hvernig Diaz lítur úr í búrinu eftir tæp 7 ár. Hann virðist lítið hafa gert annað en að djamma og gat ekki náð þyngdinni sem hafði verið samið um sem er ills boði. Hér er þó bardagi sem hann á möguleika á að vinna ef hann snýr aftur með sömu bardagagetu og hann hafði áður en hann hlaut bann. Lawler hefur átt erfitt með að toga í gikkinn í síðustu bardögum og ef að Diaz pressar hann snemma gæti verið að Lawler nái ekki að koma sér af stað. Stóra spurningin er hvort Lawler geti fylgt gameplaninu að lágsparka og hlaupa á meðan Diaz eltir hann um búrið. Ég hef ekki trú á því og held að Diaz nái að pressa hann snemma og vinna í skemmtilegum bardaga. Diaz lota 4 tko

Nick Diaz: Pétur, Brynjólfur
Robbie Lawler: Guttormur, Óskar

Þungavigt: Curtis Blaydes gegn Jairzinho Rozenstruik

Pétur Marinó Jónsson: Curtis Blaydes er furðulegt eintak en mjög góður bardagamaður. Hann mun seint fá titilbardaga en vinnur marga mjög góða andstæðinga. Jairzinho getur verið skemmtilegur en þetta er bardagi sem hann verður bara á rassinum held ég og hann fær ekki að gera sitt. Curtis Blaydes wrestlar Jairzinho niður yfir 3 lotur og vinnur eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Tveir stórir strákar og ekkert ólíklegt að þessi endi með rothöggi. Tippa á Roz ko í 1.

Óskar Örn Árnason: Blaydes þarf bara að forðast bombu í þessum, annars held ég að þetta verði wrestle rúst og decision win. Blaydes á stigum.

Brynjólfur Ingvarsson: Þessi er nokkuð áhugaverður. Öll töp Blaydes hafa komið gegn bestu roturum þyngdarflokksins og hér getur Rozenstruik stimplað sig meðal þeirra. Blaydes gæti mögulega unnið bardagann standandi þar sem Rozenstruik gerir ekki neitt nema einhver hlaupi á hann en þar sem Blaydes virðist ekki geta barist nema reyna fellu eru góðar líkur á að hann hlaupi í upphögg og rotist. Öruggara finnst mér samt að spá Blaydes á dómaraákvörðun.

Curtis Blaydes: Pétur, Óskar, Brynjólfur
Jairzinho Rozenstruik: Guttormur

Fluguvigt kvenna: Jessica Andrade gegn Cynthia Calvillo

Pétur Marinó Jónsson: Jessica Andrade var gjörsamlega pakkað saman af Valentinu í vor. Hún hefur tapað þremur af síðustu fjórum sem lítur ekkert alltof vel út en það var allt gegn þeim allra bestu í strávigt og fluguvigt kvenna. Andrade er alltaf skemmtileg en Calvillo verið fremur misjöfn síðustu ár. Hef alltaf gaman af Andrade og alltaf trú á henni. Tippa á að Andrade opni kvöldið vel með bomburothöggi í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Sigurvegarinn fær líklega það öfundsverða hlutskipti að mæta Shevchenko í titilbardaga. Calvillo hefur aldrei verið stöðvuð á ferlinum og ég held að þessi fari í dómaraákvörðun þar sem Andrade stendur uppi sem sigurvegari.

Óskar Örn Árnason: Þetta er stórt test fyrir Calvillo og mikið tækifæri. Andrade hreinlega verður að vinna eftir 3 töp í 4 bardögum. Tek sénsinn á Calvillo, rear naked choke.

Brynjólfur Ingvarsson: Andrade tapar ekki nema á móti þeim allra bestu og ég held að Calvillo sé ekki enn komin þangað. Andrade sigrar með tko í 3. lotu.

Jessica Andrade: Pétur, Guttormur, Brynjólfur
Cynthia Calvillo: Óskar

Heildarstig ársins:

Brynjólfur: 30-14
Óskar: 26-18
Pétur: 25-19
Sævar: 24-15
Guttormur: 20-19

spot_img
spot_img
spot_img
Previous article
Next article
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular