Næsta titilvörn Stipe Miocic fer fram í janúar gegn Francis Ngannou. Bardaginn fer fram á UFC 220 þann 20. janúar.
UFC ætlar að byrja næsta ár vel. Strax í janúar fáum við titilbardaga í þungavigtinni.
Ríkjandi meistari, Stipe Miocic, hefur ekkert barist síðan hann sigraði Junior dos Santos í maí. Síðan þá hefur hann átt í samningadeilum við UFC þar sem tveir síðustu áskorendur hans (dos Santos og Alistair Overeem) fengu betur greitt en hann. Samningadeilunum lauk á dögunum og er næsta titilvörn hans komin á hreint.
Miocic er með tvær titilvarnir í röð sem þungavigtarmeistari UFC en með sigri á Ngannou bætir hann met yfir flestar titilvarnir í sögu þungavigtarinnar í UFC.
Francis Ngannou hefur komið inn með hvelli í UFC. Hann hefur klárað alla sex bardaga sína í UFC en nú síðast sáum við hann rota Alistair Overeem um síðustu helgi. Hann tekur sér því litla hvíld milli bardaga en aðeins sex vikur eru í titilbardagann.
UFC 220 fer fram í Boston og stefnir í fantagott kvöld. Á dögunum staðfesti UFC titilbardaga Daniel Cormier og Volkan Oezdemir í léttþungavigt.