spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÞjálfari Rondu vill sjá hana taka einn bardaga í viðbót gegn Cyborg

Þjálfari Rondu vill sjá hana taka einn bardaga í viðbót gegn Cyborg

Ronda Rousey hefur farið huldu höfði síðan hún tapaði fyrir Amöndu Nunes í desember í fyrra. Flestir reikna með að hún sé hætt en sjálf hefur hún ekkert sagt og vill þjálfari hennar sjá hana taka einn bardaga í viðbót – gegn Cyborg.

Ronda Rousey tapaði fyrir Amöndu Nunes á UFC 207 með rothöggi eftir aðeins 48 sekúndur. Þar áður var hún rotuð af Holly Holm á UFC 215.

Þjálfarinn hennar umdeildi, Edmond Tarverdyan, var í The MMA Hour á mánudaginn þar sem hann talaði um Rondu Rousey og hvort hún muni berjast aftur. Ef Ronda snýr aftur mun það bara vera einn bardagi í viðbót að mati Tarverdyan og er það aðeins einn bardagi sem Tarverdyan vill sjá – Cyborg vs. Ronda.

„Það er bardaginn. Ég vil þann bardaga. Þegar ég var að þjálfa Rondu vissi ég að Ronda gæti unnið Cyborg. Ég veit það. Cyborg er of hæg,“ sagði Tarverdyan.

Cris ‘Cyborg’ Justino er ríkjandi fjaðurvigtarmeistari UFC og ein allra besta bardagakona heims. Þegar Ronda var á toppi ferilsins var mikið talað um mögulegan ofurbardaga þeirra á milli. UFC reyndi að fá Cyborg niður í bantamvigt og barðist hún tvisvar í 140 punda hentivigt. Það var þó alltof erfiður niðurskurður og er hún nú í sínum rétta þyngdarflokki í UFC. Ronda hefur lengst af barist í 135 punda bantamvigt og áður lýst því yfir að hún muni ekki fara upp í fjaðurvigt til að mæta Cyborg.

„Ég veit ekki hvort hún berjist aftur. Við þurfum að sjá til. Ef meiðslin væru ekki til staðar og allt væri eins og það var gætum við tekið þann bardaga og ég er að segja þér, hún er of hæg fyrir okkur. Ronda mun vinna hana. Ronda þarf áskorun þar sem henni líkar ekki við andstæðinginn og þarf að sanna eitthvað fyrir heiminum. Þannig virkar Ronda.“

„Það verður hennar ákvörðun ef hún berst aftur. Einn í viðbót, ég veit ekki. Ég hef talað við hana og veit ekki hvort hún muni gera það. Kannski einn bardaga ef hún getur það. Ef skrokkurinn leyfir og hún er tilbúin andlega gæti hún barist. Ég myndi segja að það væri 50-50 eins og er.“

Þær Cyborg og Ronda áttu oft í orðaskiptum í fjölmiðlum og létu margt ljótt flakka um hvor aðra. Eftir seinna tap Rondu hefur Cyborg aðeins grafið stríðsöxina og óskað henni alls hins besta. Eftir ummæli Tarverdyan sagðist Cyborg vera til í að mæta Rondu en bara í WWE fjölbragðaglímunni.

„Ef Ronda vill berjast aftur held ég að það væri betra fyrir hana að mæta Mieshu Tate. Ég er á öðru stigi ferilsins núna. Ég vildi berjast við Rondu þegar hún var andlega heil og með sjálfstraust. Ef hún vill einn góðan bardaga fyrir aðdáendurna getum við haft það í WWE. Það væri fullkomið fyrir hana að fara til Hollywood og væri önnur áskorun á ferli mínum,“ sagði Cyborg eftir viðtalið við Tarverdyan.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular