Það voru 9 viðureignir á dagskránni í þriðju og síðustu umferð Vorbikarmóts Hnefaleikasambands Íslands sem fram fór í dag í húsakynnum Hnefaleikafélags Reykjavíkur/World Class Boxing Academy og liggja nú úrslit fyrir. HFK á 5 bikarmeistara, HFH 3 og Þór 2. HR, HAK og Bogatýr eiga svo 1 hver.
Elmar Freyr Aðalheiðarson sigraði Sigurjón Guðnason á einróma dómaraákvörðun í síðasta bardaga dagsins í þungavigtinni(90+ kg). Það mátti heyrast kallað úr áhorfendahópnum “Áfram Sigurjón” frá Magnúsi Kolbirni rétt áður en bardaginn hófst enda hefði allt verið jafnt ef Sigurjóni hefði tekist að vinna en svo fór ekki og Elmar er því orðinn bikarmeistari. Sigurjón kom inn í bardagann af fullum krafti en mögulega eyddi of miklu púðri í 1. lotu og tók að draga úr honum þegar leið á þó hann héldi áfram pressunni fram í blálokin. Elmar sýndi þó yfirburði og sigraði bardagann á afgerandi hátt.
Dagurinn byrjaði á viðureign Arnars Jaka Smárasonar og Arnars Geirs Kristbjörnssonar og settu þeir tóninn strax í byrjun. Arnar Jaki var nú þegar orðinn bikarmeistari eftir sigur í 1. umferð og Arnar Geir hafði þurft að draga sig úr keppni vegna veikinda í 2. umferð. Arnar Geir hefði ekki getað náð Arnari Jaka þó hann hefði sigrað í dag en honum tókst að sannfæra 1 dómara um að hann ætti sigurinn skilið. Arnar Jaki átti mun erfiðara með að eiga við nafna sinn í dag heldur en í 1. umferð sem svaraði mun betur fyrir sig þegar Arnar Jaki pressaði hart að honum og var honum oft refsað þegar hann ætlaði sér of mikið, eitthvað sem hann komst betur upp með í fyrri viðureigninni.
Teitur Þór Ólafsson og Viktor Zoega mættust í gríðarlega spennandi bardaga sem var jafn en Teitur sigraði þó á einróma ákvörðun. Einn dómarinn gaf Teiti allar loturnar en hinir 4 gáfu Viktori eina lotu. Viktor tapaði gegn Nóel Frey liðsfélaga Teits í 2. umferð en liðsfélagarnir hafa ekki haft áhuga á að mæta hvorum öðrum þannig flokkurinn þeirra endar jafn, allir með 10 stig.
Róbert Smári Jónsson og Viktor Örn Sigurðsson mættust í hreinum úrslitabardaga en þeir höfðu báðir sigrað Adrian Pawlikowski í fyrri umferðum. Bardaginn var mikil skemmtun og nokkuð jafn og sýndu báðir menn mikinn vilja til að þess að vinna bikarmeistaratitilinn. Viktor sigraði að lokum á klofinni dómaraákvörðun og er því orðinn bikarmeistari.
Alejandro Cordova Cervera þurfti á sigri að halda í dag gegn Mihail Fedorets en þeir mættust bara í 2. umferð þar sem Alejandro sigraði þannig Mihail gat í besta lagi jafnað metin. Þessi bardagi eins og sá fyrri var nokkuð jafn en kaflaskiptur og æsispennandi. Í báðum bardögum byrjar Alejandro vel, Mihail kemur sterkur inní 2. lotu, en Alejandro tekur aftur yfir í þeirri þriðju. Alejandro sigraði með klofinni dómaraákvörðun og er því orðinn bikarmeistari.
Full úrslit Vorbikarmótsins 2025:
90+ kg A: Elmar Freyr Aðalheiðarson (Þór)
90+ kg B: Ágúst Davíðsson (Þór)
-80 kg: Demario Elijah Anderson (HFK)
-75 kg A: Benedikt Gylfi Eiríksson (HFH)
-75 kg B: Vitalii Korshak (Bogatýr)
U19 -75 kg A: Alejandro Cordova Cervera (HFH) (73,5 kg umsamið)
U19 -75 kg B: Jakub Biernat (Þór)
U17 -85 kg: Viktor Örn Sigurðsson (HFK)
U17 -66kg A: Kormákur Steinn Jónsson (HFK)
U17 -66kg B: Jökull Bragi Halldórsson (HR)
U17 -66kg: Arnar Jaki Smárason (HFK)
U17 -60kg: Volodymyr Moskvychov (HAK)
U15 -57kg: Alan Alex Szelag Szadurski (HFK)
U15 -50kg: Tristan Styff Sigurðsson (HFH)