Þrír bardagakappar frá Íslandi berjast á Fightstar bardagakvöldinu á Englandi um helgina. Diego Björn Valencia verður þar í aðalbardaga kvöldsins.
Diego Björn Valencia, Dagmar Hrund Sigurleifsdóttir og Haraldur Arnarson eru öll með bardaga á laugardaginn. Diego Björn úr Mjölni keppir í léttþungavigt og er í aðalbardaga kvöldsins gegn Luke Trainer.
Luke Trainer er 1-0 sem atvinnumaður en hann er fyrrum þungavigtar- og léttþungavigtarmeistari áhugamanna hjá Fightstar bardagasamtökunum. Diego er 3-2 sem atvinnumaður en hann barðist síðast í apríl 2018.
Dagmar Hrund (2-1) mætir Manuela Marconetto (0-1) í 125 punda fluguvigt í áhugamannabardaga. Dagmar barðist síðast í desember en hún hefur unnið tvo bardaga í röð.
Haraldur Arnarson (1-0) mætir síðan Simeon Powell (2-1) í millivigt einnig í áhugamannabardaga. Það er stutt síðan Haraldur barðist en hann vann sinn fyrsta MMA bardaga þann 20. apríl eftir 32 sekúndur. Þau Dagmar og Haraldur berjast undir merkjum Reykjavík MMA.
Bjarki Þór Pálsson reyndi að fá bardaga sama kvöld án árangurs og þá missti Bjarki Eyþórsson (1-0) fjóra andstæðinga og fær því ekki bardaga eins og vonast var eftir.