Það verður sannkallaður ofurbardagi í kvöld þegar töframennirnir Dominick Cruz og T.J. Dillashaw eigast við í kvöld.
Það er ekki oft sem UFC heldur bardagakvöld á sunnudegi en sú er raunin í kvöld. UFC gerði það sama á svipuðum tíma í fyrra þegar Conor McGregor mætti Dennis Siver á sunnudegi í Boston. Allt tengist þetta NFL leikjunum sem fara fram í kvöld og eru sýndir á FoxSports 1 líkt og bardagarnir.
Dominick Cruz og T.J. Dillashaw eru í aðalbardaga kvöldsins og ríkir mikil eftirvænting fyrir bardaganum. Báðir eru gríðarlega hreyfanlegir en þó á ólíkan máta. Það verður því forvitnilegt að sjá hvernig þeir munu taka á hreyfanleika hvors annars þar sem báðir eru vanir að mæta andstæðingnum sem eru mun kyrrstæðari en þeir sjálfir.
Það má segja að bæði Cruz og Dillashaw séu töframenn. Þeir blekkja og plata andstæðinginn endalaust með sýnum hreyfingum sem virkar feiknavel gegn mönnum sem beita ekki töfrunum sjálfir.
Þegar töframenn sýna töfrabrögð á venjulegu fólki veit meðalmaðurinn yfirleitt ekkert hvað töframaðurinn er að gera. Ef töframaður sýnir öðrum töframanni sama bragð er líklegra að töframaðurinn skilji hvað er í gangi á meðan venjulegi maðurinn gerir það ekki.
Það verður því forvitnilegt hvort sömu blekkingar og brögð sem Dillashaw og Cruz nota gegn öðrum andstæðingum virki jafn vel gegn hvor öðrum. Það kemur í ljós í kvöld þegar þessir frábæru bardagamenn eigast við.
Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 í nótt og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23 á Fight Pass rás UFC.