Tony Ferguson mætir Rafael dos Anjos í aðalbardaganum á bardagakvöldi í Mexíkó á laugardaginn. Ferguson þykir skemmtilegur innan búrsins en ekki eins skemmtilegur utan þess.
Tony Ferguson hefur unnið átta bardaga í röð í UFC og vann 13. seríu The Ultimate Fighter. Af þessum átta sigrum hafa fimm komið eftir uppgjafartök og einn eftir rothögg.
Þrátt fyrir að vera bráðskemmtilegur bardagamaður innan búrsins nýtur hann ekki sömu vinsælda og aðrir skemmtilegir bardagamenn á borð við Carlos Condit og Donald Cerrone. Ferguson fær töluvert af neikvæðri gagnrýni þar sem hann hagar sér oft eins og algjör vitleysingur og segir misgáfulega hluti.
Það fyrsta sem við fengum að sjá af þessum vitleysisgangi hans var í TUF. Eftir drykki og partýstand varð Ferguson skyndilega mjög aggressívur. Hann varð æstur og spurði Charlie Rader ítrekað hvar sonur hans væri.
Rader átti þá í forræðisdeilu um fimm ára son sinn. Sama hversu drukkinn þú ert þá er þetta eitthvað sem þú segir ekki og mun gleymast seint hjá bardagaðadáendum.
Þá á hann sín augnablik sem erfitt er að lýsa. Hér er hann að sparka í púða (sem var þegar rifinn þegar hann byrjaði að sparka í púðann) með sólgleraugu og klút. Hver æfir með sólgleraugu og klút inni??
https://www.youtube.com/watch?v=UE6z5BqRSb0
Síðasti bardagi hans var gegn nýliðanum Lando Vannata í sumar. Vannata kom seint inn eftir meiðsli Michael Chiesa og olli Ferguson töluvert meiri vandræðum en búist var við. Vannata kýldi Ferguson niður í 1. lotu og var ansi nálægt því að rota Ferguson. Eftir bardagann kvaðst Ferguson hafa runnið á Metro PCS borðanum í búrinu var í raun ekkert vankaður.
Allt þetta (og fleiri ummæli) láta Ferguson líta dálítið illa út. Hann virkar eins og ekta „douchebag“ sem erfitt er að halda með. Fólk vill þó horfa á hann þar sem hann er virkilega skemmtilegur bardagamaður og vill kannski sjá hann tapa.
Á laugardaginn fær hann gullið tækifæri til að koma sér í kjörstöðu í léttvigtinni sigri hann Rafael dos Anjos. Hér að neðan má sjá einn hans besta bardaga í UFC þegar hann mætti Edson Barboza í fyrra.
https://www.youtube.com/watch?v=9YXuYfTa340