spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaUFC fær einkennisbúninga frá Reebok árið 2015

UFC fær einkennisbúninga frá Reebok árið 2015

Lorenzo Fertitta, framkvæmdastjóri UFC.
Lorenzo Fertitta, framkvæmdastjóri UFC.

Talsmenn UFC tilkynntu í dag nýjan samning við íþróttavörufyrirtækið Reebok. Fyrirtækið mun framleiða klæðnað fyrir alla keppendur í UFC og hornamenn þeirra frá og með júlí 2015. Eftir það verða öll önnur vörumerki bönnuð í UFC.

„Við lítum svo á að Reebok og UFC séu beinlínis að breyta landslagi íþróttarinnar,“ sagði Lorenzo Fertitta, framkvæmdastjóri UFC. „Þetta hefur augljóslega aldrei verið gert áður í bardagaíþróttum.“

Staða á styrkleikalista ræður kaupi

Samningurinn er til sex ára og forsvarsmenn UFC segja að þetta sé stærsti samningur sem fyrirtækið hefur gert, utan samninga um sýningarrétt. UFC á þó ekki að græða beint á samningnum heldur eiga næstum allar tekjur að renna beint til bardagamanna. Þeir fá greitt fyrir hvern bardaga og launin ráðast af stöðu þeirra á styrkleikalista UFC daginn sem vigtun fer fram.

Meistarar fá auðvitað mest, bardagamenn í sætum 1-5 verða í næsta launaþrepi, síðan sæti 6-10, svo 11-15 og loks þeir sem eru utan styrkleikalista. Jafn mikið verður greitt fyrir alla bardaga, óháð því hvar og hvernig þeir eru sýndir og seldir. „Þetta skapar hvatningu fyrir bardagamennina,“ sagði Fertitta. „Því betur sem þeim gengur, því meiri pening fá þeir út úr þessu kerfi.“

Þar að auki fá bardagamenn 20% af ágóðanum af sölu á öllum varningi sem er merktur þeim. Það á líka við um þá sem eru hættir keppni og þær greiðslur hætta aldrei. Samkvæmt Fertitta verða gerðir sérstakir búningar fyrir goðsagnir íþróttarinnar sem eru hættar keppni. Hann sagði að búningarnir myndu halda í einstaklingseinkenni hvers bardagamanns en um leið gefa íþróttamönnunum útlit sem er  „einstakt, auðþekkjanlegt og samræmt“.

Engir styrktaraðilar í bardagavikunni

Nýi samningurinn þýðir að frá og með UFC 189 í júlí 2015 verður bardagamönnum ekki lengur leyft að ganga í fötum sem eru merkt utanaðkomandi styrktaraðilum, ekki bara þegar viðkomandi berst, heldur líka á öllum fjölmiðlaviðburðum vikunnar fyrir bardaga. Auglýsingafánar verða líka bannaðir í hringnum, svo sú hefði hverfur einnig. Hornamenn bardagamanna fá líka búning til að gefa þeim samræmt útlit.

Þetta þýðir að styrktaraðilar UFC-bardagamanna verða að finna nýjar leiðir til að auglýsa, því engin utanaðkomandi vörumerki verða leyfð í UFC útsendingum, fyrir utan þau sem kunna að styrkja titla seinna meir. Fertitta segir líkur á að líkt og í fótboltanum komi stór fyrirtæki til með að styrkja titla til að koma sínu merki að. „Þetta er ekkert öðruvísi en í öllum öðrum stórum íþróttum“, sagði Fertitta. „Þú mátt ekki bara hlaupa inn á völlinn með hvaða styrktaraðila sem þér sýnist. Það virkar bara ekki þannig. Við erum núna á því stigi. Við erum fullvissir um að þetta á eftir að auka tekjur bardagamanna.“

Jákvæð viðbrögð frá bardagamönnum

Forsvarsmenn UFC hafa leitað til bardagamanna undanfarið og útskýrt nýja kerfið til að fá viðbrögð þeirra og Fertitta segir að þau hafi verið mjög jákvæð. „Þeir skilja að þetta lyftir íþróttinni og vörumerkinu á nýtt stig – og fyrir vikið þeim sjálfum – því þetta mun líta mun fagmannlegra út,“ segir Feritta. „Þeir fá borgað fyrir að vera í þessum búningum fyrir hvern bardaga, sem þýðir að margir þeirra þurfa ekki að leita að styrktaraðilum á síðustu stundu, sem getur verið mikil truflun. Þar að auki fá þeir prósentu af sölu.“

Þessi nýja stefna mun án efa fara í gegnum mjög mikla skoðun á næstu mánuðum og árum og án efa verða skiptar skoðanir á henni en Fertitta segir þetta vera rétta átt fyrir fyrirtækið. Hann segir enn fremur að þetta sé eitt það mikilvægasta sem hefur gerst í sögu UFC og líkir þessu við það þegar Zuffa keypti UFC árið 2001.

„Við teljum okkur vera að gera langtíma fjárfestingu, líkt og sú sem ég og bróðir minn gerðum árið 2001,“ sagði Fertitta. „Við tókum fjögur eða fimm ár til að byggja þetta og útaf peningunum sem við fjárfestum og tímanum, vinnunni og orkunni sem við settum í þetta, tel ég að allir hafi hagnast gríðarlega. Við líkjum þessu við það. Þetta er lykilstund fyrir þennan iðnað og þessa íþrótt.“

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular