UFC ætlar aftur á Yas Island í september. UFC verður með fimm bardagakvöld á eyjunni og byrjar á UFC 253.
UFC var með nokkur bardagakvöld á Yas Island í Abu Dhabi í sumar. Í fyrri heimsókn UFC á eyjuna voru 52 bardagar á fjórum kvöldum yfir þrjár vikur.
UFC kallaði þetta bardagaeyjuna en eyjan er ekki merkileg þar sem hægt er að keyra þangað frá Abu Dhabi.
UFC 253 þann 26. september verður fyrsta bardagakvöldið á eyjunni í seinni heimsókn UFC. Þar munu þeir Israel Adesanya og Paulo Costa eigast við í hrikalega spennandi bardaga um millivigtarbeltið.
Á eftir fylgja þrjú minni bardagakvöld (3., 10. og 17. október) og klárar UFC svo ferðina á eyjuna með UFC 254 þann 24. október. Þar mætast þeir Khabib Nurmagomedov og Justin Gaethje í aðalbardaga kvöldsins.