Næstu tveir bardagar á UFC bardagakvöldinu í Glasgow voru rosalegir. Danny Henry sigraði Daniel Teymur eftir dómaraákvörðun og Galore Bofando vann eftir óvenjulegt rothögg.
Danny Henry sigraði Daniel Teymur í geggjuðum bardaga. Þetta var þvílíkt stríð þar sem báðir skildu allt eftir í búrinu. Henry byrjaði hægt en kom öflugur til baka og var nálægt því að klára bardagann í 2. lotu.
Þetta var frumraun beggja í UFC og eiga báðir mikið hrós skilið fyrir frábæran bardaga. Stemningin var rosaleg í bardaganum enda er Henry Skoti og fögnuðu þeir gríðarlega við hvert högg.
Í næsta bardaga mættust þeir Charlie Ward og Galore Bofando. Galore Bofando byrjaði afar sterkt gegn Ward með alls konar spörk. Hann sparkaði þungt í skrokkinn á Ward strax á fyrstu 10 sekúndunum og fleiri spörk fylgdu í kjölfarið. Ward stjórnaði miðjunni í búrinu og Bofando hringsólaði í kringum Ward á meðan hann sparkaði í hann.
Ward náði loksins „clinchinu“ sem hann vildi en Bofando hristi hann af sér með þeim afleiðingum að Ward skall með höfuðið í gólfinu og rotaðist! Bofando fylgdi því eftir með höggum í gólfinu en Ward var rotaður. Ótrúlegt atvik og sjaldséð að sjá svona rothögg. Þetta var frábær frumraun hjá Bofando en Ward er á útleið úr UFC eftir þetta. Bofando sýndi alls konar spörk, heljarstökk og splitt eftir bardagann.