Það styttist í bardaga Gunnars Nelson en fyrstu þrír bardagarnir á aðalhluta bardagakvöldsins voru að klárast.
Strávigt kvenna: Karolina Kowalkiewicz gegn Heather Jo Clark
Þetta var nokkuð fjörugur bardagi. Karolina var betri standandi og átti margar fínar syrpur standandi. Heather Jo Clark reyndi ítrekað að taka hana niður en án árangurs. Karolina hitnaði þegar leið á og átti nokkra þunga olnboga og hné í Heather sem brotnaði þó ekki. Í hvert sinn sem Karolina meiddi Heather skaut sú síðarnefnda í fellu en alltaf varðist Karolina. Hin pólska Karolina Kowalkiewicz sigraði eftir dómaraákvörðun, 29-28, og er enn ósigruð.
Léttþungavigt: Nikita Krylov gegn Francimar Barroso
Það var ekki mikið um að vera í 1. lotunni og hélt Barroso hinum úkraínska Krylov upp við búrið án þess að ná fellu. Í 2. lotu var talsvert meira fjör. Barroso náði góðri fellu en nánast umsvifalaust náði Krylov að snúa stöðunni við. Krylov lét Barroso aðeins finna fyrir því í gólfinu með hnefunum en virtist einnig skalla Barroso. Dómarinn stöðvaði fjörið strax en Krylov neitaði því að hafa skallað hann og héldu þeir áfram.
Barroso reyndi uppgjafartök á borð við „triangle“ hengingu og „omoplata“ en Krylov varðist vel. Barroso náði einnig góðu uppsparki en Krylov lét það ekki hafa mikil áhrif á sig. Barroso gaf á sér bakið og náði Krylov að koma sér í góða stöðu. Fljótlega hafði hann læst „rear naked choke“ hengingunni á svartbeltinginn og tappaði Brasilíumaðurinn út eftir 3:11 í 2. lotu. Krylov var ekki einu sinni undir hökunni en kreisti af afli og var það nóg til að Barroso þyrfti að gefast upp.
Bantamvigt kvenna: Anna Elmose gegn Germaine de Randamie
Germaine de Randamie er á heimavelli og hlaut hún gríðarlegan stuðning meðal áhorfenda. Hún olli ekki vonbrigðum gegn nýliðanum Anna Elmose. De Randamie er hrikalega góð í Muay Thai og lét hnén dynja í skrokk Elmose. Svona hélt de Randamie áfram þar til Elmose gaf sig eftir eitt þungt hnéspark í kviðinn. De Randamie fylgdi eftir með höggum en dómarinn hafði séð nóg. Germain de Randamie með frábæra frammistöðu og sigraði eftir 3:46 í 1. lotu eftir tæknilegt roth0gg.