spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentUndarlegt háttalag Jose Aldo í lyfjaprófi

Undarlegt háttalag Jose Aldo í lyfjaprófi

jose aldoAllir bardagamenn sem tóku þátt í UFC 189 voru lyfjaprófaðir í kringum viðburðinn. Allir stóðust prófið en próf Jose Aldo var langt frá því að fara eðlilega fram.

Þvag- og blóðsýni frá Chad Mendes, Conor McGregor, Robbie Lawler, Rory MacDonald, Jeremy Stephens og Dennis Bermudez voru prófuð, bæði fyrir og eftir bardagann Aðrir bardagamenn á kvöldinu skiluðu þvagsýni sem var prófað. Enginn féll.

Erfitt að fá sýni frá Aldo

Íþróttaeftirlit Nevada-fylkis reyndi að fá utanaðkomandi aðila til að prófa Aldo svo það væri ekki á vegum íþróttaeftirlitsins þar né í Brasilíu. Haft var samband við fyrirtæki sem heitir Drug Free Sport (DFS), en samkvæmt skýrslu forstjóra DFS lenti sá sem sá um prófið, Ben Mosier, í ýmsum erfiðleikum þegar hann reyndi að fá sýni frá Aldo.

Mosier var í samstarfi við lyfjaeftirlitsmann frá Brasilíu og var með vegabréfsáritun þar sem kom skýrt fram að hann myndi framkvæma lyfjapróf í landinu.

Upphaflega átti prófið að fara fram 10. júní en ekki náðist í Aldo svo fyrsta prófið fór fram 11. júní. Aldo var „mjög samvinnuþýður“ þar til ónafngreindur þjálfari stöðvaði prófið þangað til Andre Pederneiras, aðalþjálfari Aldo, kom á staðinn. Pederneiras hafði þá samband við íþróttaeftirlit Brasilíu og þá byrjuðu vandræðin.

Misskilningur eða spilling?

Ónafngreindur alríkislögreglumaður sem var að æfa á staðnum gerði vegabréf Mosiers upptækt og „tók hann fastan“ eins og það er orðað í skýrslunni. Lögreglumaðurinn sagði Mosier að hann hefði verið í haldi bandarískra yfirvalda í sólarhring eitt sinn þegar hann var á leið heim frá Bandaríkjunum. Hann bætti við að þeir hefðu komið illa fram við hann og hann væri að koma mun betur fram við Mosier. Hann tók þó fram að þetta væri ekki hefndaraðgerð og að hann hefði vald til að færa hann í gæsluvarðhald.

Brasilíski lyfjaeftirlitsmaðurinn sem vann með Mosier kom svo á staðinn og hóf að deila við fulltrúa brasilíska íþróttaeftirlitsins, Christiano Sampaio.

Eftirlitsmaðurinn sagði að Mosier hefði ekkert gert rangt og að hann hefði leyfi til að framkvæma prófið. Þrátt fyrir það bannaði Sampaio þeim báðum að sinna störfum sínum og taka sýni. Þeim var sagt að eingöngu lyfjaeftirlitsmaður á vegum brasilíska íþróttaeftirlitsins mætti taka sýni.

Það virðist augljóst að hér er annað hvort alvarlegur misskilningur á ferð eða einhver maðkur í mysunni.

Allt er þegar þrennt er

Þegar hér var komið við sögu hafði Mosier ekki lengur sýnið í fórum sínum svo sýninu þurfti að farga. Lyfjaeftirlið þarf að hafa auga með sýninu allan tímann til að útiloka að átt hafi verið við sýnið.

Innflytjendaeftirlitið kom svo loks á staðinn og lýsti því yfir að Mosier hefði leyfi til að framkvæma prófið sem var sett á dagskrá daginn eftir, 12. júní.

Þá tókst loks að klára að fá sýni frá Aldo en þó ekki vandræðalaust. Aldo mætti of seint í prófið og missti fyrsta sýnið áður en hann gaf annað.

Í lok skýrslunnar kemur athyglisverð málsgrein sem varpar ljósi á fagmennskuna sem brasilíska íþróttaeftirlitið sýnir í starfi sínu:

„Þegar prófinu var lokið bað lyfjaeftirlitsmaður brasilíska íþróttaeftirlitsins Jose Aldo um að árita tímarit sem hann hafði tekið með í prófið og að fá mynd með honum. Aldo varð við báðum beiðnum.“

Það er eðilegt að velta fyrir sér hversu fagmannlega meðferð agamál brasilískra bardagamanna fá þegar starfsmenn íþróttaeftirlitsins eru gallharðir aðdáendur þeirra.

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular