Valgerður Thelma Sól Einarsdóttir frá Hnefaleikadeild Þórs keppti síðustu helgi á Golden Girl þar sem hún fór beint í úrslit, bar sigur úr býtum og kemur heim með gullið í sínum allra fyrsta bardaga.
Valgerður keppti sinn fyrsta bardaga á Golden Girl í +81kg u17 ára flokki. Það hefur reynst erfitt að finna andstæðing í sömu þyngd og aldursflokki fyrir Valgerði, a.m.k. heima fyrir, en það gekk eftir í þetta skiptið enda er Golden Girl stærsta kvenna hnefaleikamót í heiminum.
Þjálfarar Valgerðar sögðu hana hafa pressað á andstæðing sinn allan bardagann og átti hin stelpan í miklum vandræðum með hana þrátt fyrir að vera með töluvert meiri keppnisreynslu, 5-10 bardaga. Hún reyndi aðallega að ná Valgerði með villtum sveiflum sem voru nánast alltaf vindhögg. Einstaka högg lentu en Valgerður lét það lítið á sig fá, hélt sínu striki og sigraði með einróma dómaraákvörðun.

Valgerður sagði að hún hafi dansað mikið í kringum móherjann í 1. lotunni. Í 2. lotu tók hún eftir þreytumerkjum hjá mótherjanum og náði þá að smella hana með beinni hægri og hægri króknum. Í 3. lotunni var hin stelpan alveg búin og Valgerður að hitta hana að vild, bæði í höfuð og skrokkinn, og sagðist Valgerður aðeins hafa gefið eftir og siglt þessu þægilega heim frekar en reyna að valda henni meiri skaða.
Valgerður er skráð á HFH Open í mars og vonandi kemur einhver stelpa frá útlöndum því það er engin heima fyrir skráð í hennar flokki.