Snemma í morgun héldu fræknir keppendur frá Mjölni/HR að keppa á boxmóti í Svíðþjóð. Ein af keppendunum er Sunna Rannveig Davíðsdóttir, fyrsta íslenska konan til að keppa í MMA. Í gær birtum við viðtal við einn af ferðafélögum hennar, Steinar Thors, en viðtalið má lesa hér.
Hversu sterkt er þetta mót?
Þetta er þokkalega öflugt mót. Þarna fá klúbbar frá nágrannalöndunum boð um þátttöku. Núna eru það Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Ísland, Finnland og England sem taka þátt og yfir tvö hundruð þátttakendur skráðir nú þegar.
Hverjir aðrir fara með þér?
Steinar Thors Íslandsmeistari í boxi, Mustafa sem keppt hefur hvað oftast eða 35 sinnum og tveir aðrir mjög spennandi boxarar sem vert að fylgjast með í framtíðinni, Brynjólfur sem margir þekkja úr keppnisliði Mjölnis (hér má lesa meira um hann) og Daníel Þór sem hefur sigrað alla sína þrjá box bardaga.
Hvað hefur þú boxað lengi og hvernig hefur árangurinn verið?
Ég byrjaði skömmu eftir að ég byrjaði að æfa hjá Mjölni/HR en ég byrjaði þar í september árið 2010. Mig hefur lengi langað að keppa í boxi og sjá árangur en nú er loksins komið að því.
Hefur þú áður farið erlendis að keppa?
Ég fór til Tælands árið 2013 og keppti þar sex bardaga í þjóðaríþrótt Tælendinga, Muay Thai, og í blönduðum bardagalistum eða MMA.
Hvernig undirbýrð þú þig fyrir box mót?
Eins og venjulega nema ég þarf að beita mér aðeins öðruvísi á æfingum. Fæturnir verða að vera á jörðinni, engar fellur né hengingar og það er stranglega bannað að nota högg á jörðinni. Ég reyni að slaka vel á milli æfinga, borða og sofa vel. Það skiptir líka öllu máli að vera með hreinan og sterkan huga þegar þú ferð í bardaga og þess vegna reyni ég að vera góð við mig dagana fyrir, fara í göngutúra, nudd, heitt bað og ekki vera að stressa mig á veraldlegum hlutum. Ég hef lært að hugleiða og þykir það góð leið til þess að hreinsa huga og sál.
Hvað stefnir þú á í framtíðinni?
Ég held minni stefnu og ætla að leyfa framtíðinni að ráðast.