Vitor Belfort mun berjast sinn síðasta bardaga í UFC nú í júní. Belfort mætir Nate Marquardt á UFC 212 í Brasilíu.
Vitor Belfort barðist sinn fyrsta bardaga í UFC árið 1997 á UFC 12. Belfort hefur nú greint frá því að bardagi sinn á UFC 212 verði hans síðasti í UFC.
„UFC ferðalagið mitt hófst fyrir 20 árum síðan á UFC 12 og nákvæmlega 200 viðburðum síðar þann 3. júní mun ég berjast minn síðasta bardaga fyrir bardagasamtökin í heimabæ mínum, Rio de Janeiro,“ segir Belfort á Instagram.
Bardaginn verður hans 25. í UFC og hans fertugasti í MMA. Hinn fertugi Belfort vill berjast í einhvers konar goðsagnardeild eða „old boys“ deild gegn jafnöldrum sínum og því ekki víst að þetta verði endilega síðasti bardaginn hans á ferlinum.
Belfort hefur átt ótrúlegan feril í UFC og á metið yfir flest rothögg í sögu UFC eða 12 talsins. Hann hefur þó átt erfitt uppdráttar að undanförnu og tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum. Síðast sáum við hann rotast gegn Kelvin Gastelum í mars.
UFC 212 fer fram þann 3. júní en þeir Jose Aldo og Max Holloway mætast í aðalbardaga kvöldsins.