Thursday, April 18, 2024
HomeForsíðaArnóri var boðið að æfa með Floyd fyrir bardagann gegn Conor

Arnóri var boðið að æfa með Floyd fyrir bardagann gegn Conor

Boxaranum Arnóri Má Grímssyni var boðið að æfa með Floyd Mayweather til að aðstoða hann í undirbúningnum fyrir bardagann gegn Conor McGregor. Arnór þurfti að afþakka boðinu en getur vel ímyndað sér að það sé ekki þægilegt að vera sleginn af Floyd.

Arnór Már er 23 ára hnefaleikamaður frá Akranesi. Hann æfir hjá Gunnari Davíð í Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar, Daða Ástþórssyni á Akureyri og kíkir einnig á æfingar hjá Örnólfi Stefáni hjá HAK á Akranesi. Arnór hefur æft box frá 11 ára aldri en hann er með 36 skráða áhugamannabardaga.

Arnór var nýlega staddur í Írlandi en á meðan hann var þar var honum boðið að koma til Las Vegas til að æfa með Floyd Mayweather.

„Þjálfari sem ég hef verið hjá í Vegas, Luis Monda, þjálfar í gymminu hjá Jonny Toccos en þar var Floyd Mayweather Senior að þjálfa þegar hann og Floyd Junior voru ekki á sömu blaðsíðu og fúlir út í hvorn annan. Senior gat ekki verið í Mayweather gymminu þá. Eftir það hefur Luis verið með sambönd í Mayweather campinu og það er talað við hann til að fá sparr félaga fyrir Floyd,“ segir Arnór.

„Luis vildi senda mig en þá var ég á Írlandi í æfingabúðum og gat ekki komið mér til Vegas í tæka tíð. Þetta var svipað fyrir Pacquiao bardagann en þá var ég nýkominn úr gifsi á höndinni og gat lítið boxað af alvöru.“

Arnór hefur verið í sambandi við þjálfarana hjá Jonny Toccos lengi og var þar í 10 vikur að æfa síðasta sumar. Til stóð að Arnór færi þangað aftur í sumar en hann ákvað frekar að keppa meira á Írlandi.

Arnór er örvhentur en Floyd er að æfa með örvhentum boxurum til að undirbúa sig fyrir hinn örvhenta Conor McGregor. Meðal þeirra sem Floyd hefur fengið til sín er gamall andstæðingur hans, Zab Judah (43-9 (2)). Það hefði eflaust verið ótrúleg reynsla að boxa við Floyd Mayweather enda er hann einn besti boxari sögunnar.

„Ég get ímyndað mér að það sé í fyrsta lagi skrítið að hafa hann þarna fyrir framan sig inn í hringnum þar sem hann er nú Floyd Mayweather sjálfur. Held það væri svolítið eins og að keppa. Fullt af fólki í kringum hringinn og smá læti og þú veist ekki hversu margar lotur þú ert að fara með honum.“

„Get líka ímyndað mér að það sé ekki þægilegt að vera sleginn af Floyd. Ekki það að ég myndi ekki ráða við það eða neitt þannig en hann veit hvenær er best að kýla þig og hvaðan. Sérstaklega þegar þú ert ekki endilega tilbúinn, þá er það vont. Það er öðruvísi heldur en að vera með einhvern sem kýlir bara svaka fast.“

Arnór er ekki viss hversu mikið hann hefði fengið að sparra við Floyd ef hann hefði stokkið til Vegas. „Það er erfitt að segja hversu mikið maður hefði sparrað við hann en ég hefði allavega verið í Vegas fram að bardaganum. Það fer víst svakalega eftir Floyd hversu oft hver æfingafélagi kemur inn. Fer mikið eftir því hverju hann er að vinna í og hversu mikið maður pushar hann. Ég er viss um að ég hefði farið nokkuð oft, held ég myndi pusha hann dálítið. En hann borgar manni víst gegnum allar æfingabúðirnar bara fyrir að vera tilbúinn og sparra þegar þess þarf. Ég heyrði eitthvað um að maður fái 200-300 þúsund krónur á viku, það fer líklega eftir fólkinu en held það sé minnst 160 þúsund krónur á viku.“

Conor McGregor er eins og áður segir örvhentur og halda margir því fram að Floyd sé ekki eins góður þegar hann mætir örvhentum andstæðingum.

„Hann var ekki eins góður gegn örvhentum en hann var samt alltaf góður. Meira eins og hann hafi verið A+ á móti öllum en svona B+ gegn örvhentum. En hann er búinn að bæta það helling og það sást á móti Robert Guerrero og Manny Pacquiao sem dæmi. Í dag er hann kannski A- gegn örvhentum.“

Allir hafa skoðun á bardaga Floyd Mayweather og Conor McGregor. Margir boxsérfræðingar hafa gengið svo langt og sagt að Conor muni ekki hitta einu einasta höggi á Floyd. Að mati Arnórs er Conor að gera margt rétt í undirbúningnum sínum en getur ekki gert annað en að tippa á Floyd.

„Ég er alveg Conor aðdáandi þegar kemur að MMA en ég verð eiginlega að segja að ég held að Floyd vinni hann nokkuð örugglega. En Conor virðist samt vera að gera einhverja góða hluti í training campinu sínu eins og að fá Joe Cortez á æfingar og fá smá tilfinningu fyrir reglunum og tímanum. Ég sé samt fyrir mér Floyd eiga smá í basli með hann í byrjun. Svo mælir hann fjarlægðina, stjórnar honum með fremri höndinni og skýtur svo inn hægri og rúllar undir vinstri höndina hans Conor aftur og aftur. En Floyd er 40 ára og hefur verið tvö ár í burtu og Conor er active fighter, ungur og að æfa svo við sjáum bara hvað gerist á laugardaginn.“

Arnór stefnir á að ná allavegna fjórum bardögum til viðbótar á þessu ári og helst meira. Planið er að fara í atvinnumennsku á næsta ári og taka þetta alla leið. Hans næsti bardagi verður á Ljósanótt um næstu helgi og stefnir hann svo á boxmót í Danmörku og Írlandi.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular