spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu bardagarnir í mars 2021

10 áhugaverðustu bardagarnir í mars 2021

Mars mánuður er genginn í garð og er hann gjörsamlega frábær! UFC á þennan mánuð alveg skuldlaust enda tvö risastór bardagakvöld á dagskrá.

Það eru fimm titilbardagar á dagskrá í þessum mánuði hjá UFC. Það verður áhugavert að sjá hverjir halda beltinu þegar mánuðurinn verður gerður upp en eitt er víst – þessi mánuður verður magnaður!

10. Sean O’Malley gegn Thomas Almeida (UFC 260, 27. mars)

Sean O’Malley byrjaði árið 2020 mjög vel en endaði það á niðurlægjandi tapi gegn Chito Vera. O’Malley þarf að eiga góða frammistöðu til að ná aftur sama hæpi og hann var með eftir sigurinn á Eddie Wineland. Thomas Almeida hefur tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum en er alltaf hættulegur.

Spá: Almeida er hræðilegur varnarlega en getur ennþá slegið frá sér. O’Malley rotar hann í 2. lotu.

9. Leon Edwards gegn Belal Muhammad (UFC Fight Night: Edwards vs. Muhammad, 13. mars)

Belal Muhammad bjargar deginum og kemur inn með nokkra vikna fyrirvara í stað Khamzat Chimaev. Edwards hefur ekki barist síðan í júlí 2019 og þarf nauðsynlega að komast aftur í búrið. Þetta er stórt tækifæri fyrir Muhammad en ætti að vera skyldusigur fyrir Edwards.

Spá: Edwards verður örlítið ryðgaður til að byrja með en siglir þessu örugglega heim í lokin. Edwards með sigur eftir dómaraákvörðun.

8. Dominick Cruz gegn Casey Kenney (UFC 259, 6. mars)

Casey Kenney er ekki einu sinni á topp 15 í bantamvigtinni en fær hér risa tækifæri. Kenney hefur unnið fimm af sex bardögum sínum í UFC og getur stökkbreytt ferli sínum með sigri á Dominick Cruz. Að sama skapi hefur Cruz lítið barist undanfarin ár en síðast sáum við hann tapa fyrir Henry Cejudo í maí 2020. Cruz er orðinn 35 ára gamall og farið að síga á seinni hluta ferilsins en spurning hvort hann sé ennþá nógu góður til að vinna yngri og ferskari andstæðinga.

Spá: Kenney mun standa sig vel en Cruz getur ennþá unnið menn eins og Kenney. Cruz eftir dómaraákvörðun.

7. Thiago Santos gegn Aleksandar Rakić (UFC 259, 6. mars)

Þessi bardagi er mikilvægur í léttþungavigtinni. Santos var nálægt því að vinna Jon Jones 2019 en tapaði síðast fyrir Glover Teixeira í skrítnum bardaga. Hann er orðinn 37 ára gamall og er að renna út á tíma ef hann ætlar að fá annan titilbardaga. Aleksander Rakic hefur litið vel út á sínum ferli í UFC en síðast sáum við hann vinna Anthony Smith eftir dómaraákvörðun í slöppum bardaga.

Spá: Thiago getur ennþá lamið frá sér og rotar Rakic í 1. lotu.

6. Islam Makhachev gegn Drew Dober (UFC 259, 6. mars)

Loksins getur Islam Makhachev barist og það gegn hörku andstæðingi. Allir hjá AKA tala sífellt um hve góður Islam er en hans vandamál hefur aðallega verið hve sjaldan hann berst. Islam er búinn að vera í UFC í 5 ár og þarf að vera aktívari ef hann ætlar að komast á topp fjallsins. Drew Dober hefur verið mjög flottur á síðustu árum og unnið sex af síðustu sjö bardögum sínum. Þessi verður mjög áhugaverður!

Spá: Eins góður og Dober hefur verið þá held ég að Islam geti unnið ansi marga í léttvigtinni með því að taka þá niður bara. Islam vinnur eftir dómaraákvörðun.

5. Amanda Nunes gegn Megan Anderson (UFC 259, 6. mars)

Hver einasta titilvörn Nunes þessa dagana virðist bara vera formsatriði á sigri hjá Nunes. Hún er tvöfaldur meistari og er leitandi að verðugum áskorendum í báðum flokkum. Núna mætir hún Megan Anderson í fjaðurvigt sem hefur staðið sig ágætlega en ekki beint gegn topp andstæðingum.

Spá: Það er erfitt að sjá fyrir sér að Nunes tapi hér. Nunes vinnur með uppgjafartaki í 3. lotu.

4. Alexander Volkanovski gegn Brian Ortega (UFC 260, 27. mars)

Fjaðurvigtarmeistarinn Alexander Volkanovski fær nú að mæta nýjum andstæðingi eftir að hafa eytt 50 mínútum í búrinu með Max Holloway. Volkanovski er oft vanmetinn en sigrarnir tveir gegn Holloway tala sínu máli. Brian Ortega leit frábærlega út þegar hann sigraði Chan Sung Jung eftir tveggja ára fjarveru. Ortega nýtti tímann vel í fjarverunni og hefur tekið miklum framförum.

Spá: Ortega var flottur síðast og greinilega ný og endurbætt útgáfa. Volkanovski er samt svo klókur og sigrar eftir dómaraákvörðun.

3. Petr Yan gegn Aljamain Sterling (UFC 259, 6. mars)

Enn einn titilbardaginn í mánuðinum og þessi er kannski sá sem er mest 50/50. Yan hefur litið vel út síðan hann kom í UFC en síðustu tveir sigrar hans hafa komið gegn eldri andstæðingum. Hér fær hann Aljamain Sterling sem hefur aldrei verið betri rétt eins og Yan. Sterling er ótrúlega fær glímumaður og er afskaplega klókur að vinna lotur.

Spá: Hrikalega erfitt að spá í þennan en ætla að giska á að Sterling taki þetta eftir dómaraákvörðun.

2. Jan Błachowicz gegn Israel Adesanya (UFC 259, 6. mars)

Þessi er líka erfiður að spá í. Blachowicz hefur verið ótrúlega vanmetinn á sigurgöngu sinni. Þvert á spár manna hefur hann unnið hvern andstæðinginn á eftir öðrum og tók beltið eftir að hafa rotað Dominick Reyes í fyrrahaust. Israel Adesanya er án áskorenda í millivigtinni og fer því upp til að taka gamla beltið hans Jon Jones. Adesanya hefur verið magnaður í millivigtinni en getur hann gert það sama með því að fara upp um flokk þar sem um 20 pund skilja flokkana að?

Spá: Adesanya á að vinna þetta á pappírum en kannski getur pólska tröllið komið öllum á óvart enn einu sinni? Segjum samt Adesanya eftir dómaraákvörðun.

1. Stipe Miocic gegn Francis Ngannou (UFC 260, 27. mars)

Sá áhugaverðasti af mörgum frábærum í mánuðinum. Þungavigtarmeistarinn er alltaf sagður The baddest man on the planet og er alltaf áhugavert þegar barist er upp á beltið í þungavigtinni.

Francis Ngannou hefur gert allt rétt í búrinu síðan hann tapaði í hræðilegum bardaga gegn Derrick Lewis. Hann hefur rotað alla fjóra andstæðingana sína í 1. lotu á samanlagt 2:42! Þrátt fyrir þann ótrúlega árangur má ekki gleyma því hvernig fyrri bardagi hans gegn meistaranum fór. Stipe Miocic glímdi Ngannou í drasl yfir fimm lotur en þung högg Ngannou voru ekki langt frá því að hitta í 1. lotu.

Spá: Þessi verður gríðarlega áhugaverður. Ngannou hittir að þessu sinni og vinnur með rothöggi í 1. lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular