spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu bardagarnir í október 2020

10 áhugaverðustu bardagarnir í október 2020

Október er genginn í garð og lítur dagskrá mánaðarins ansi vel út. Hér eru 10 áhugaverðustu bardagar mánaðarins.

UFC er með bardagakvöld allar helgar í október og Bellator verður með fjögur bardagakvöld. Kíkjum á það helsta.

10. Magomed Ankalaev gegn Ion Cutelaba (UFC 254, 24. október)

Þessi bardagi er að verða eitthvað grín. Fyrri bardagi þeirra sem fór fram í febrúar var umdeildur en illa hefur gengið að setja bardagann aftur saman. Þrisvar sinnum hefur þurft að hætta við bardagann vegna kórónuveirunnar og nú ætlar UFC að reyna að setja enduratið á dagskrá í fjórða sinn. Vonandi tekst það að þessu sinni.

Spá: Ankalaev er betri og þó fyrri bardaginn hafi endað sviplega mun Ankalaev klára þetta aftur. TKO í 1. lotu hjá Ankalaev.

9. Cris ‘Cyborg’ Justino gegn Arlene Blencowe (Bellator 249, 15. október)

Cyborg er búin að taka fjaðurvigtartitil Bellator en þetta verður hennar fyrsta titilvörn í Bellator. Hún mætir hinni 37 ára Arlene Blencowe sem hefur verið í Bellator í fimm ár. Blencowe hefur áður fengið titilbardaga í Bellator en þá tapaði hún fyrir Julia Budd.

Spá: Cyborg er ein sú besta í heiminum og klárar Blencowe með TKO í 2. lotu.

8. Katlyn Chookagian gegn Jessica Andrade (UFC Fight Night: Ortega vs. Korean Zombie, 17. október)

Þessi bardagi er mikilvægur í fluguvigt kvenna. Andrade er að fara upp um flokk eftir að hafa verið í strávigtinni í fjögur ár. Valentina Shevchenko er mörgum skrefum á undan samkeppninni en spurning hvort Jessica Andrade geti gert góða hluti í nýjum flokki.

Spá: Andrade er bolabítur sem lendir bombum. Andrade með TKO í 2. lotu.

7. Anderson Silva gegn Uriah Hall (UFC Fight Night: Silva vs. Hall, 31. október)

Þetta verður að öllum líkindum síðasti bardagi Anderson Silva á ferlinum. Það má vel færa rök fyrir því að þetta sé löngu tímabært skref hjá hinum 45 ára Anderson Silva. Silva mætir Uriah Hall sem hefur verið að gera ágætis hluti undanfarin tvö ár. Þessir kappar áttu að mætast í maí 2016 og fá nú að berjast í lok október.

Spá: Smá hræddur um að þetta verði leiðinlegur sparkbox bardagi þar sem Hall ber of mikla virðingu fyrir Silva. Hall vinnur eftir dómaraákvörðun.

6. Marlon Moraes gegn Cory Sandhagen (UFC Fight Night: Moraes vs. Sandhagen, 10. október)

Þessir tveir eru ansi nálægt toppnum í bantamvigtinni og er þetta mikilvægur bardagi í flokknum. Marlon Moraes barðist síðast í desember þegar hann sigraði Jose Aldo í jöfnum bardaga sem margir (þar á meðal Dana White) töldu að hann hefði átt að tapa. Þar áður tapaði hann fyrir Henry Cejudo og þarf því að ná einum góðum sigri til að minna á sig. Cory Sandhagen var á blússandi siglingu þar til hann tapaði fyrir Aljamain Sterling eftir aðeins 90 sekúndur í sumar. Þar fékk Sandhagen ekki að sýna hvað hann getur og er hann eflaust ólmur í að sanna að hann eigi heima við toppinn.

Spá: Sandhagen er góður en held að Moraes roti hann í 3. lotu.

5. Gegard Mousasi gegn Douglas Lima (Bellator 250, 29. október)

Millivigtartitillinn í Bellator er laus eftir að Rafael Lovato lét beltið af hendi. Gegard Mousasi ætlar að reyna að endurheimta beltið sem hann tapaði til Lovato og mætir því veltivigtarmeistaranum Douglas Lima. Lima ætlar að freista þess að verða tvöfaldur meistari í Bellator með því að ná millivigtarbeltinu en það verður ekki auðvelt gegn reynsluboltanum Mousasi.

Spá: Þetta verða stálin stinn en ég ætla að segja að Lima taki þetta eftir klofna dómaraákvörðun.

4. Brian Ortega gegn Chan Sung Jung (UFC Fight Night: Ortega vs. Korean Zombie, 18. október)

Loksins loksins ætlar Brian Ortega að berjast. Ortega hefur ekki barist síðan hann tapaði fyrir Max Holloway í titilbardaga í desember 2018. Það var magnað stríð og átti hann að snúa aftur í fyrra gegn Chan Sung Jung en sleit krossband. Hann hefur nú náð sér af meiðslum og stefnir allt í að þeir Chan Sung Jung, betur þekktur sem The Korean Zombie, fái loksins að mætast í október. Þeir Ortega og Jung hafa átt í útistöðum um nokkurt skeið og sló m.a. Ortega umboðsmann Jung er þeir hittust á bardagakvöldi fyrr á þessu ári.

Spá: Erfitt að spá í þennan. Ortega sýndi mikla hörku og harða höku gegn Holloway en er um leið góður í að tapa lotum. Ortega vinnur með hengingu í 3. lotu eftir að hafa verið að tapa allan tímann.

3. Robert Whittaker gegn Jared Cannonier (UFC 254, 24. október)

Þessi er mjög mikilvægur í millivigtinni enda hefur meistarinn Israel Adesanya nú þegar gefið það út að hann vilji mæta Jared Cannonier ef honum tekst að sigra Whittaker. Fyrrum meistarinn Whittaker kemur vissulega til greina ef hann sigrar en augu meistarans beinast að Cannonier. Þetta eru tveir af þeim bestu í millivigtinni og ætti að verða frábær þriggja lotu veisla.

Spá: Whittaker er seigur og enn með þetta. Whittaker vinnur eftir dómaraákvörðun.

2.  Zabit Magomedsharipov gegn Yair Rodriguez (UFC 254, 24. október)

Vonandi fáum við loksins þennan bardaga enda höfum við þurft að bíða lengi eftir þessum. UFC hefur þegar þurft að hætta við þennan bardaga tvisvar vegna meiðsla Rodriguez en allt er þá þrennt er. Zabit er ósigraður á ferli sínum í UFC á meðan Rodriguez er með eitt tap í UFC. Aðeins tveir bardagar á síðustu þremur árum er ekki alveg það sem Rodriguez óskaði sér en þessi verður ansi mikilvægur fyrir næstu skref beggja. Sigurvegarinn hér verður í kjörstöðu til að skora á ríkjandi meistara, Alexander Volkanovski, og er því mikið undir fyrir báða.

Spá: Zabit vinnur eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga.

1. Khabib Nurmagomedov gegn Justin Gaethje (UFC 254, 24. október)

Einfaldlega langstærsti og áhugaverðasti bardagi mánaðarins. Justin Gaethje er með mörg tól sem gætu valdið Khabib vandræðum. Gaethje er frábær glímumaður og sennilega sá besti í glímunni sem Khabib hefur mætt í langan tíma. Auk þess er hann hættulegur standandi og hefur verið einfaldlega geggjaður í síðustu bardögum. Khabib er alltaf Khabib og lætur þetta allt líta auðveldlega út en getur hann gert það líka gegn Gaethje?

Bónus: Ef annar hvor þeirra dettur út kemur Michael Chandler inn og væri það ekki mikið síðri slagur.

Spá: Þetta verður erfiðasta próf Khabib hingað til og Gaethje mun meiða hann. Khabib sýnir seiglu en á endanum mun Gaethje taka þetta eftir fimm lotu stríð.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular