spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2021

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2021

Febrúar mánuður er kominn af stað og verður nokkuð góður í MMA heiminum. Það verða bardagakvöld allar helgar í febrúar og fínir bardagar á dagskrá.

Bellator hefur ekki enn opinberað sitt fyrsta bardagakvöld á árinu og ONE sýnir eitt bardagakvöld í febrúar sem fram fór í janúar. UFC er hins vegar með fjögur bardagakvöld í mánuðinum. Bardagakvöldin eru nokkuð jöfn þegar kemur að gæðum og verður einn titilbardagi á dagskrá.

10. Andrei Arlovski gegn Tom Aspinall (UFC Fight Night: Blaydes vs. Lewis, 20. febrúar)

Tom Aspinall var einn af nýliðum ársins í fyrra. Hann fær því reynsluboltann Andrei Arlovski í næsta bardaga sem er alltaf góð prófraun fyrir upprennandi þungavigtarmenn. Þeir bestu sem eru á uppleið rota Arlovski á meðan þeir sem falla á prófinu tapa fyrir Arlovski eftir klofna dómaraákvörðun í leiðinlegum bardaga. Það verður áhugavert að sjá hvernig Aspinall vegnir gegn Arlovski.

Spá: Það hægist aðeins á hæplestinni hjá Aspinall eftir þetta en Bretinn nær samt að vinna eftir klofna dómaraákvörðun í fremur litlausum bardaga.

9. Kelvin Gastelum gegn Ian Heinisch (UFC 258, 13. febrúar)

Kelvin Gastelum hefur tapað þremur bardögum í röð og þarf nauðsynlega að ná í sigur ef hann ætlar ekki að gleymast. Ian Heinisch er ekki auðveldur viðureignar og ætti þetta að verða hörku bardagi í millivigt.

Spá: Kelvin Gastelum er ennþá með þetta og vinnur eftir dómaraákvörðun.

8. Maycee Barber gegn Alexa Grasso (UFC 258, 13. febrúar) 

Maycee Barber var heitasta nafnið í kvennaflokkunum fyrir ekki svo löngu. Hún ætlaði sér að verða sú yngsta til að verða meistari í UFC og þar með bæta met Jon Jones. Þau plön voru sett á ís með slæmu tapi gegn Roxanne Modafferi í janúar 2020. Barber var mun sigurstranglegri hjá veðbönkum fyrir bardagann en tapaði og sleit auk þess krossband í bardaganum. Nú snýr hún aftur eftir erfið meiðsli og fær Alexa Grasso sem er líka á uppleið. Þetta er ekta „striker vs. grappler“ bardagi en sigurvegarinn hér tekur mikilvæg skref í átt að titlinum.

Spá: Þetta verður hörku bardagi en ég held að Barber komi mjög öflug til leiks og stjórni Grasso með fellum.

7. Magomed Ankalaev gegn Nikita Krylov (UFC Fight Night: Rozenstruik vs. Gane, 27. febrúar)

Magomed Ankalaev gerði ekki mikið árið 2020 nema að lemja Ion Cutelaba tvisvar og greinast með Covid. Hann er mjög spennandi í léttþungavigtinni en Nikita Krylov er lúmskur. Krylov er með tvo sigra og tvö töp eftir að hann kom aftur í UFC og er orðinn ágætis hliðvörður inn á topp 5 í léttþungavigt.

Spá: Ankalaev er mjög góður en Krylov lætur ekki klára sig. Ankalaev vinnur eftir dómaraákvörðun og heldur áfram að klifra upp stigann í UFC.

6. Alistair Overeem gegn Alexander Volkov (UFC Fight Night: Overeem vs. Volkov, 6. febrúar)

Evrópskur þungavigtarbardagi, Holland gegn Rússlandi. Þessir tveir eru með mikla reynslu og geta báðir verið þolinmóðir. Þetta verður sennilega einn taktískasti bardagi sem UFC getur sett saman í þungavigt. Báðir geta farið fimm lotur sem er alls ekki sjálfgefið í þungavigtinni.

Spá: Volkov er skynsamur og vinnur taktískan sigur á Overeem eftir dómaraákvörðun.

5. Curtis Blaydes gegn Derrick Lewis (UFC Fight Night: Blaydes vs. Lewis, 20. febrúar)

Þessir tveir áttu að mætast í nóvember en daginn fyrir bardagann greindist Blaydes með kórónuveiruna og þurfti að hætta við. Það er ekkert leyndarmál hvað þessir tveir vilja – Blaydes ætlar að ná fellunni og Derrick Lewis ætlar að standa og rota hann. Lewis er stór, sterkur og höggþungur en lélegur glímumaður. Curtis Blaydes getur tekið alla niður og hefur unnið alla andstæðinga sína nema Francis Ngannou.

Spá: Blaydes tekur Lewis niður ítrekað og nær að klára með hengingu í 4. lotu.

4. Diego Ferreira gegn Beneil Dariush (UFC Fight Night: Overeem vs. Volkov, 6. febrúar)

Þetta verður þrusu bardagi í léttvigt. Ferreira hefur unnið 6 bardaga í röð og Dariush fimm. Báðir eru góðir glímumenn en Dariush sennilega betri standandi. Þeir mættust árið 2014 og þá sigraði Dariush eftir dómaraákvörðun en það var fyrsta tap Ferreira á ferlinum. Síðan þá hefur margt breyst og báðir tekið góðum framförum. Sigurvegarinn hér kemur sér vel fyrir á topp 10 í léttvigtinni þar sem eru ekkert nema stórhættulegir bardagamenn.

Spá: Beneil Dariush bindur enda á góða sigurgöngu Ferreira (aftur) og vinnur eftir dómaraákvörðun.

3. Cory Sandhagen gegn Frankie Edgar (UFC Fight Night: Overeem vs. Volkov, 6. febrúar)

Hinn 39 ára Frankie Edgar virðist ennþá vera með þetta eftir góðan sigur á Pedro Munhoz í fyrra í jöfnum bardaga. Það var hans fyrsti bardagi í bantamvigt en þessi fyrrum léttvigtarmeistari er alltaf með augun á stórum bardögum. Cory Sandhagen hefur verið frábær á sínum ferli í UFC og hefur stimplað sig inn meðal þeirra bestu í bantamvigtinni.

Spá: Hingað og ekki lengra Frankie Edgar. Cory Sandhagen klárar hann með TKO í 2. lotu.

2. Jairzinho Rozenstruik gegn Ciryl Gane (UFC Fight Night: Rozenstruik vs. Gane, 27. febrúar)

Það verða þrjú Fight Night í mánuðinum og er þungavigtin í aðalbardaganum í öllum þeirra. Rozenstruik tapaði illa fyrir Francis Ngannou í fyrra en kom til baka með góðum sigri á Junior dos Santos. Cyril Gane náði líka að rota dos Santos í sínum síðasta bardaga og ætti þetta að verða hörku bardagi. Rozenstruik er þegar á topp 5 í þungavigtinni en Gane gæti komist þangað með sigri.

Spá: Erfitt að spá. Gane gæti haldið fjarlægð og skorað meira yfir 5 lotur en Rozenstruik á alltaf sénsinn á að landa rothögginu. Tippa á rothöggið hjá Rozenstruik í 2. lotu.

1.Kamaru Usman gegn Gilbert Burns (UFC 258, 13. febrúar)

Veltivigtarmeistarinn mætir loksins Gilbert Burns í febrúar. Burns missti þennan titilbardaga til Jorge Masvidal í júlí eftir að hafa greinst með Covid. Nú mætast þessir fyrrum liðsfélagar um titilinn. Þeir hafa æft saman í mörg ár og tekið yfir 200 lotur gegn hvor öðrum á æfingu. Báðir þekkja hvorn annan út og inn og vita nákvæmlega hvað hinn ætlar að gera. Usman æfir núna með Justin Gaethje hjá Trevor Wittman en Burns er ennþá hjá Sanford MMA með þjálfaranum Henri Hooft. Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hvernig þetta spilast hjá fyrrum æfingafélögunum.

Spá: Burns er með fullt af vopnum sem geta valdið Usman vandræðum. Ég ætla samt að spá að Usman eyði miklum tíma í að stjórna Burns upp við búrið með almennum leiðindum og vinni eftir dómaraákvörðun.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular