spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2019

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2019

Maí mánuður verður þokkalegur fyrir MMA aðdáendur út um allan heim en fyrir Íslendinga er hann sögulegur.

10. UFC 237, 11. maí – Antônio Rogério Nogueira gegn Ryan Spann (léttþungavigt)

Ryan Spann er nokkuð spennandi nýliði sem kom í UFC í gegnum Contender seríu Dana White. Hér fær hann algjöra goðsögn en Lil´ Nog er 42 ára og hefur lifað tímana tvenna. Nogueira getur enn slegið en það getur Spann líka.

Spá: Spann rotar Nogueira í fyrstu lotu.

9. UFC Fight Night 151, 18. maí – Aspen Ladd gegn Sijara Eubanks (bantamvigt kvenna)

Sijara Eubanks er komin upp í bantamvigt kvenna eftir erfiðleika við að ná vigt í fluguvigt. Þetta er hörkubardagi en þær Ladd og Eubanks mættust áður árið 2017 í Invicta en þá var það Ladd sem sigraði á stigum. Ladd hefur litið frábærlega út en getur hún varist glímu Eubanks og sigrað öðru sinni?

Spá: Svarið er já, Ladd sigrar á stigum.

8. Bellator 221, 11. maí – Michael Chandler gegn Patrício Freire (léttvigt)

Í Bellator mun Michael Chandler verja titil sinn gegn Patrício ‘Pitbull’ Freire en þeir mættust áður árið 2016. Þá rotaði Chandler Freire í fyrstu lotu svo það verður erfitt að gera betur núna. Freire er búinn að vinna alla fimm bardaga sína síðan þá svo hann ætlar sér að hefna fyrir tapið.

Spá: Chandler rotar ‘Pitbull’ aftur í fyrstu.

7. UFC 237, 11. maí – Jared Cannonier gegn Anderson Silva (millivigt)

Jared Cannonier leit hrikalega vel út í nóvember þegar hann létti sig niður í millivigt og rotaði David Branch með tilþrifum. Hér fær hann risavaxið tækifæri í næstsíðasta bardaga kvöldsins gegn sjálfum Anderson Silva í Ríó. Silva er gamall en sýndi á móti Israel Adesanya að hann er ekki alveg búinn.

Spá: Cannonier nær ekki að rota goðsögnina en sigrar á stigum.

6. UFC Fight Night 150, 4. maí – Al Iaquinta gegn Donald Cerrone (léttvigt)

Stundum er gaman að fá bardaga eins og þennan. Það er ekkert mikið í húfi en nánast öruggt að bardaginn verður skemmtilegur. Það þarf ekki mikið að segja um þessa kappa en báðir eru sleipir standandi og á gólfinu. Það verður áhugavert að sjá hvor hefur betur en skiptir ekki öllu máli. Opnið einn kaldan og horfið á þessa snillinga.

Spá: Iaquinta nær Cerrone í fótalás og sigrar í fyrstu lotu.

5. Bellator 221, 11. maí – Douglas Lima gegn Michael Page (veltivigt)

Veltivigtarmót Bellator heldur áfram með þessum frábæra bardaga. Hér mætir nýstirnið Michael Page gamla meistaranum Douglas Lima. Page var ekki sannfærandi á móti Paul Daley en hvað segir það okkur um þennan bardaga? Lima er reynslubolti og mjög góður allstaðar, til að sigra hann þarf Page grafa djúpt.

Spá: Lima verður fyrstur til að sigra MVP, gerir það á stigum.

4. UFC Fight Night 151, 18. maí – Rafael dos Anjos gegn Kevin Lee (veltivigt)

Kevin Lee ætlar að feta í fótspor Colby Covington og Kamuru Usman og nota Rafael dos Anjos sem lyftistöng upp í toppinn í veltivigt. RDA er sýnd veiði en alls ekki gefin en góðir glímumenn hafa þó verið sterkir gegn honum. Spurningin er kannski hvort Lee sé jafn góður glímumaður í veltivigt og í léttvigt?

Spá: RDA minnir á sig og sigrar á stigum.

3. UFC 237, 11. maí – José Aldo gegn Alexander Volkanovski (fjaðurvigt)

José Aldo þarf ekki að kynna en gamli meistarinn hefur sýnt að hann á enn nóg eftir og gæti hæglega orðið meistari aftur. Í vegi hans stendur frekar óþekktur en hrikalega góður Ástrali. Alexander Volkanovski hefur ekki tapað síðan árið 2013 og rotaði Chad Mendes í hans síðasta bardaga. Þessi bardagi verður prófsteinn fyrir hann og ætti að segja okkur hvort hann eigi möguleika gegn Max Holloway.

Spá: Þetta verður flugeldasýning og stríð en Volkanovski rotar Aldo í annarri lotu.

2. UFC 237, 11. maí – Rose Namajunas gegn Jéssica Andrade (strávigt kvenna)

Það hefur verið gaman að fylgjast með upprisu og þróun Rose Namajunas. Undanfarin ár hefur hún verið á ótrúlegu flugi og hefur nú stimplað sig rækilega inn sem besta bardagakona í heimi í strávigt kvenna. Hér mætir hún hinni hörðu og höggþungu Jéssica Andrade sem er ekkert grín og hefur unnið Cláudiu Gadelha, Teciu Torres og Karolinu Kowalkiewicz í hennar síðustu þremur bardögum. Auk þess verður Andrade á heimavelli. Þess má geta að Andrade er talin líklegri til að sigra samkvæmt veðbönkum.

Spá: Namajunas mun útboxa (og sparka) Andrade og sigra á stigum.

1. Invicta FC Phoenix Rising Series 1, 3. maí – Kailin Curran gegn Sunnu Davíðsdóttir (strávigt kvenna)

Sunna ‘Tsunami’ Davíðsdóttir er kvennalandslið Íslands í MMA. Um helgina keppir hún í eins kvölda útsláttarmóti þar sem sigurvegarinn verður krýndur nýr meistari í strávigt Invicta. Þessi titill er sá stærsti sem Íslendingur hefur átt kost á að vinna í sögu íþróttarinnar og er því um sögulega stund að ræða. Til að sigra þarf Sunna að komast í gegnum þrjá andstæðinga á einu kvöldi en fyrstu tveir bardagarnir eru ein lota.

Spá: Við sendum góða strauma og spáum Sunnu sigri og Invicta titilnum. Áfram Sunna!

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular