spot_img
Sunday, November 24, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í mars 2014

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í mars 2014

Það er mikið um að vera í mars. Það sem stendur upp úr er UFC 171 sem er nánast eins og mót í veltivigt. Fyrir Íslendinga er hins vegar bara einn bardagi sem skiptir máli en hann þarf varla að nefna. Það eru nokkrir áhugaverðir Bellator bardagar í mars eins og Pat Curran vs. Daniel Straus 2 og Attila Vegh vs. Emanuel Newton en þeir komust ekki á listann. Einn UFC bardagi var mjög nálægt því, Diego Sanchez vs. Miles Jury, en rétt missti af. Það er allt í lagi að minnast á að í síðasta skipti reyndust ALLIR spádómarnir réttir, þ.e. sá rétti vann. Vindum okkur í þetta.

wsof9

10. WSOF 9 – 29. mars 2014, Steve Carl vs. Rousimar Palhares (veltivigt)

Allir bardagar með Palhares eru áhugaverðir. Eins og flestir muna eflaust var kappinn rekinn úr UFC eftir nokkur umdeild atvik. Hér skorar hann á ríkjandi WSOF meistara, Steve Carl. Carl er ekki nafn sem margir þekkja en ferillinn hans er 21 sigrar og 3 töp, hann hefur auk þess stoppað 18 af sínum andstæðingum. Hann hefur nú unnið 7 bardaga í röð, þar með talið Josh Burkman í hans í síðasta bardaga.

Spá: Það getur allt gerst í Palhares bardaga og mun sennilega gerast. Palhares sigrar á limlestingum eða tapar á misskilningi.

gestelumstory

9. UFC 171 – 15. mars 2014, Kelvin Gastelum vs. Rick Story (veltivigt)

Þessir tveir eru nánast spegilmynd hvor af öðrum. Báðir eru jarðýtur, sterkir glímumenn með mikla höggþyngd. Gastelum hefur litið mjög vel út í síðustu tveimur bardögum. Hann sigraði Uriah Hall öllum að óvörum og vann The Ultimate Fighter. Hér þarf hann að standast mjög erfitt próf þar sem Story er reyndur og baneitraður.

Spá: Þessi bardagi verður stál í stál. Tilfinningin er sú að Gastelum sé hungraðri og sigri, mögulega á rothöggi.

stungun hathaway

8. UFC Fight Night – 1. mars 2014, Dong Hyun Kim vs. John Hathaway (veltivigt)

Dong Hyun Kim, eða Stun Gun eins og hann er kallaður, hefur lengi verið í hópi með þeim bestu í veltivigt. Hann hefur sigrað kappa eins og Matt Brown, T.J. Grant, Nate Diaz og Erick Silva í hans síðasta bardaga. Hathaway er nær meðalmennskunni en hefur þó sigrað nöfn eins og Diego Sanchez og Rick Story.

Spá: Stun Gun ætti að vera betri en Hathaway. Sennilega mun hann reyna að ná Hathaway í gólfið og stjórna honum með kæfandi glímustíl sínum. Stun Gun sigrar á stigum eða með uppgjafartaki. Það má ekki gleyma því að þetta er fimm lotu bardagi.

michael-Johnson-wins1melvinguillard

7. UFC Fight Night – 8. mars 2014, Michael Johnson vs. Melvin Guillard (léttvigt)

Michael Johnson var fljótur að fylla í skarðið þegar Ross Pearson meiddist en þessi bardagi er alls ekki síðri. Johson hefur sigrað 5 af síðustu 7 bardögum. Melvin hefur ekki gengið eins vel en hann er alltaf hættulegur og alltaf hársbreidd frá því sigra þó svo hann tapi.

Spá: Þessir tveir eiga það sameiginlegt að vera alltaf í skemmtilegum bardögum. Þeir láta báðir höggin flæða en það er einmitt þannig bardagar sem Guillard sigrar. Guillard rotar Johnson í fyrstu lotu.

shieldslombard

6. UFC 171 – 15. mars 2014, Jake Shields vs. Hector Lombard (veltivigt)

Hér er á ferðinni magnaður bardagi sem margir virðast vera að gleyma. Shields er fyrrverandi Strikeforce meistari. Hann tapaði fyrir GSP og Jake Ellenberger árið 2011 en hefur gengið vel síðan. Í hans síðustu tveimur bardögum sigraði hann Tyron Woodley og Demian Maia. Saga Lombard í UFC er ekki ósvipuð. Hann kom inn sem Bellator meistarinn en tapaði fyrir Tim Boetsch og síðar fyrir Yushin Okami. Hann hefur hins vegar litið hrikalega vel út í sigrum á móti Rousimar Palhares og Nate Marquart.

Spá: Þetta er Strikeforce vs. Bellator. Til að sigra þarf Shields að ná Lombard niður en það er því miður ekki að fara að gerast. Lombard er með frábæra felluvörn enda afburða júdó kappi. Hann mun halda bardaganum standandi og klára Shields í annarri lotu, tæknilegt rothögg.

rua henderson

5. UFC Fight Night – 23. mars 2014, Maurício Rua vs. Dan Henderson (létt þungavigt)

Shogun Rua og Henderson börðust til síðasta blóðdropa í nóvember árið 2011. Sá bardagi var bardagi ársins það árið svo það var freistandi fyrir UFC að láta þá berjast aftur. Henderson sigraði í það skipti en hann hefur síðan tapað þrisvar í röð. Rua hefur gengið aðeins betur, unnið tvo og tapað tveimur.

Spá: Báðar þessar goðsagnir eru komnar yfir sitt besta. Henderson er 43 ára en Rua aðeins 32 ára sem er ótrúlegt sé litið yfir feril hans. Henderson var nálægt því að rota Rua í fyrsta bardaganum en varð þreyttur og tapaði síðustu lotunum (þessi bardagi er líka 5 lotur). Það er erfitt að segja til um hvað gerist en byggt á aldri Henderson og þremur töpum í röð er því hér með spáð að Rua hefni og sigri á rothöggi.

gustymanuwa

4. UFC Fight Night – 8. mars 2014, Alexander Gustafsson vs. Jimi Manuwa (létt þungavigt)                      

Gustafsson kom öllum á óvart með frábærri frammistöðu á móti Jon Jones í hans síðasta bardaga. Margir vildu sjá hann fá annað tækifæri en fyrst þarf að standast eilítið próf. Andstæðingurinn Manuwa er lítið þekktur en hann er ósigraður, mjög höggþungur og hefur unnið þrjá bardaga í UFC. Hann hefur auk þess aldrei farið í þriðju lotu.

Spá: Manuwa er hættulegur en Gustafsson hefur sigrað marga hættulega eins og Shogun Rua og Thiago Silva. Gusty mun gera það sama hér, halda sig fyrir utan og koma inn vel tímasettum höggum og spörkum og sigra á stigum.

121713-UFC-Tyron-Woodley-and-Carlos-Condit-PI-CH_2013121718301243_660_320

3. UFC 171 – 15. mars 2014, Tyron Woodley vs. Carlos Condit (veltivigt)

Þetta er mjög spennandi bardagi. Sigurvegarinn í þessum bardaga gæti fengið tækifæri á móti sigurvegaranum í Hendricks vs. Lawler. Þeir hafa ólíkan stíl en báðir eru grjótharðir keppnismenn sem gefa ekki þumlung eftir.

Spá: Veikleiki Condit er styrkleiki Woodley, þ.e. glíma. GSP og Hendricks notuðu það gegn honum og unnu svo spurningin er hvort Woodley geti það líka. Condit sýndi samt í bardaga sínum á móti Hendricks að hann er orðinn betri í að koma sér út úr erfiðum aðstæðum. Það gæti nánast allt gerst í þessum bardaga en tilfinningin er sú að Condit noti reynsluna og sigri á stigum.

HendircksLawler

2. UFC 171 – 15. mars 2014, Johny Hendricks vs. Robbie Lawler (veltivigt)

Það voru margir sárir að sjá Hendricks tapa á stigum fyrir GSP. Hann fær hér annað tækifæri til að eigna sér beltið sem GSP gaf frá sér. Hér mætast tveir höggþyngstu mennirnir í veltivigt og líka tveir af þeim hörðustu. Það er magnað að Lawler hafi náð svona langt eftir sveiflukenndan feril í hinum ýmsu samböndum en hann á það klárlega skilið.

Spá: Sigurgöngu Lawler lýkur hér. Hendricks er of góður glímumaður og of hungraður til að sigra ekki þennan bardaga. Hendricks á stigum.

AkhmedovVersusNelson

1. UFC Fight Night – 8. mars 2014, Omari Akhmedov vs. Gunnar Nelson (veltivigt)

Bardaginn sem allir hafa beðið eftir. Það er rúmt ár síðan Gunnar sigraði Jorge Santiago í London og Íslendinga þyrstir í meira. Hér fær hann andstæðing sem er ungur og á hraðri uppleið. Það hefur verið mikið talað um innrás Rússanna í UFC og ekki að ástæðulausu. Það er eitthvað ógnvænlegt við þá, eins og þeir séu illmenni í James Bond mynd eða eitthvað slíkt.

Spá: Það er ekki sjálfgefið að spá Gunnari sigri í þessum bardaga. Akhmedov er ekkert grín. Hann er sterkur glímumaður og getur rotað með einu höggi. Gunnar hefur ekki sömu höggþyngd en hann er tæknilegri og nákvæmari. Gunnar þarf að koma þessum bardaga í gólfið og nota sína yfirburða jiu jitsu hæfileika. Búist við jafnri fyrstu lotu þar sem mikið verður um að vera. Í annarri lotu nær Gunnar fellunni, tekur bakið og klárar með „rear naked choke“.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular