Monday, May 20, 2024
HomeErlent12 bardagar féllu niður á bardagakvöldinu í gær

12 bardagar féllu niður á bardagakvöldinu í gær

UFC var með bardagakvöld í Las Vegas í nótt. 8 bardagar voru á dagskrá en 12 bardagar féllu niður á bardagakvöldinu.

Það gekk erfiðlega að setja saman þetta bardagakvöld fyrir UFC. Bardagarnir átta í gær voru skemmtilegir en þeir áttu að vera mun fleiri. Sennilega hafa aldrei jafn margir bardagar fallið niður eða breyst fyrir eitt bardagakvöld.

Upphaflega áttu þær Holly Holm og Irene Aldana að mætast í aðalbardaga kvöldsins en Aldana greindist með kórónaveiruna og var bardaginn færður á annað bardagakvöld. Bardagi Ketlen Vieira og Yana Kunitskaya var einnig færður á annað bardagakvöld.

Jennifer Maia átti að mæta Viviane Araujo en sú síðarnefnda fékk kórónaveiruna og kom Calderwood inn í staðinn. Luke Sanders og Chris Gutierrez áttu að berjast en Sanders dró sig úr bardaganum.

Jamall Emmers átti að mæta Timur Valiev en tveimur dögum fyrir bardagann þurfti Valiev að draga sig úr bardaganum.

Markus Perez átti að mæta Eric Spicely en Spicely var í vandræðum með niðurskurðinn og dró sig úr bardaganum daginn fyrir bardagann. Charlie Ontiveros átti að koma inn í 195 punda hentivigt en það reyndist of seint þar sem hann stóðst ekki læknisskoðun og var sá bardagi líka felldur niður.

Suður-Kóresku bardagamennirnir Jun Yong Park og Da Un Jung áttu að mæta Trevin Giles og Ed Herman en þeir gátu ekki ferðast til Bandaríkjanna vegna heimsfaraldsins.

Trevin Giles átti þá að mæta Kevin Holland í millivigt en skömmu fyrir bardagann í gær þurfti Giles að draga sig úr bardaganum. Giles féll í yfirlið baksviðs fyrir bardagann og mátti því ekki keppa.

Ed Herman átti síðan að mæta Gerald Meerschaert í millivigt en sá síðarnefndi greindist með kórónaveiruna í gær og þurfti að hætta við bardagann samdægurs. Holland bauðst til að mæta Herman í staðinn en Herman var þegar kominn með drykk við hönd þegar bardagi Holland og Giles féll niður.

Ray Borg átti að mæta Nate Maness en Borg dró sig úr bardaganum í gær. Ekki er vitað hvers vegna Borg hætti við. Það voru því þrír bardagar sem féllu niður sama dag og bardagakvöldið átti að fara fram á.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular