Strávigtarmót Invicta FC fer fram í Kansas í kvöld. Þar keppir Sunna Rannveig Davíðsdóttir en sigurvegarinn verður nýr strávigtarmeistari Invicta bardagasamtakanna.
Þetta er í fyrsta sinn sem Invicta heldur slíkt mót en mótið kallast Phoenix Rising. Fyrstu tvær umferðirnar á mótinu eru aðeins ein fimm mínútna lota en úrslitabardagann hefðbundinn þriggja lotu bardagi. Átta konur munu keppa á mótinu og mun ein standa uppi sem sigurvegari að móti loknu. Dregið var í flokkinn á dögunum en eftirfarandi konur mætast í fyrstu umferð:
Sunna Rannveig Davíðsdóttir gegn Kailin Curran
Danielle Taylor gegn Juliana Lima
Amber Brown gegn Brianna Van Buren
Manjit Kolekar gegn Sharon Jacobson
Sunna Rannveig Davíðsdóttir (3-0)
Sunna okkar er með minnstu reynsluna af keppendum mótsins og fær hér risa tækifæri. Sunna hefur verið að glíma við meiðsli en þegar hún stígur í búrið gegn Kailin Curran verða 657 dagar síðan hún barðist síðast. Bardaginn er bara fimm mínútur og er því enginn tími til að hrista af sér ryðið.
Sunna er 3-0 sem atvinnukona í MMA en allir sigrar hennar hafa verið í Invicta. Andstæðingar hennar til þessa hafa verið með einn eða tvo sigra í MMA og mun hún því eiga við allt önnur skrímsli nú. Þetta verður því gífurlega mikilvægur prófsteinn fyrir hina 33 ára Sunnu! Sunna er með alvöru baráttuhjarta og það skiptir miklu máli í móti sem þessu.
Kailin Curran (4-6)
Kailin Curran er andstæðingur Sunnu í fyrstu umferð. Curran kom 3-0 inn í UFC en átti ekki góðu gengi að fagna í UFC. Curran vann einn bardaga en tapaði aftur á móti sex og er það með verri bardagaskorum sem sést hafa í UFC.
Curran er þó mun betri bardagakona en ferillinn gefur til kynna. Curran er mistæk og kastaði sigrum frá sér í nokkur skipti í UFC. Þá mætti hún líka sterkum stelpum á borð við Felice Herrig og Paige VanZant sem voru einfaldlega betri. Þjálfari Curran er Jason Parillo en hann hefur þjálfað menn á borð við Michael Bisping og B.J. Penn en Parillo var yfirþjálfari Bisping þegar hann vann millivigtartitil UFC. Parillo segir að Curran sé gríðarlega hæfileikarík og geti gert mun betur en hún hefur sýnt hingað til.
Curran er sókndjörf, setur upp mikinn hraða í bardögum sínum og veður óhrædd áfram. Curran var í ólympískri glímu sem unglingur og er einnig með fínt box. Hún er aftur á móti frekar léleg varnarlega – bæði þegar kemur að vörnum gegn höggum og fellum. Curran er með mjög gott þol en ákvarðanartaka hennar er ekkert sú besta oft á tíðum. Curran er 28 ára gömul og tók sinn fyrsta áhugabardaga 18 ára gömul.–
Danielle Talyor (10-4)
Danielle Taylor var einnig í UFC þar sem hún vann tvo bardaga en tapaði þremur. Taylor er aðeins 152 cm á hæð en er vön því að berjast við hærri andstæðinga og er líkamlega sterk með fínan höggþunga. Taylor er nokkuð jöfn á öllum vígstöðum en á það til að sækja full lítið á tímum. Meðfram bardagaferlinum starfar Taylor í gæsluvarðhaldinu hjá lögreglustjóranum í Los Angeles. Starfið fékk hana til að langa að læra að verja sig og byrjaði hún í kjölfarið í boxi en fór síðar í MMA. Taylor hefur unnið einn bardaga í Invicta eftir að samningi hennar við UFC var sagt upp.
Juliana Lima (9-5)
Aldursforseti mótsins er hin 37 ára Juliana Lima. Lima var 3-4 í UFC en hún hefur ekki barist síðan í janúar 2018. Lima hefur mætt öflugum andstæðingum eins og Joanna Jedrzejczyk og Tecia Torres þar sem hún beið lægri hlut. Þetta verður fyrsti bardaginn hennar síðan samningi hennar við UFC var sagt upp en hún hefur ekki unnið bardaga síðan í desember 2016.
Amber Brown (7-5)
Hin þrítuga Amber Brown átti upphaflega að vera í varabardaga kvöldsins gegn Manjit Kolekar en þar sem Mizuki Inoue náði ekki tilsettri þyngd kemur Brown inn í mótið í staðinn. Brown er með nokkuð mikla reynslu í Invcita en hún hefur barist átta bardaga í bardagasamtökunum. Eftir góða byrjun hjá Invicta hefur hún tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum en hún hefur undanfarin misseri verið í atómvigt (105 pund).
Sharon Jacobson (5-4)
Sharon Jacobson er 35 ára og kemur frá Bandaríkjunum. Jacobson var öflug í ólympískri glímu áður en hún fór í MMA og sést það vel í bardögum hennar. Jacobson byrjaði æfa glímu 16 ára gömul og á tvo landsmeistaratitla í glímunni en skipti svo yfir í MMA árið 2012. Jacobson er með mjög öflugar fellur og gætu stuttir bardagar hentað henni vel. Jacobson var gjörsamlega að rústa sínum síðasta bardaga en endaði á að tapa eftir armlás þegar það voru aðeins 15 sekúndur eftir. Jacobson er með fimm bardaga í Invicta þar sem hún hefur nælt sér í þrjá sigra en tapað tveimur bardögum. Jacobson starfar sem liðþjálfi í bandaríska hernum.
Manjit Kolekar (11-2)
Manjit Kolekar er 28 ára bardagakona frá Indlandi. Þetta verður hennar annar bardagi í Invicta en upphaflega átti hún að mæta Amber Brown á kvöldinu. Kolekar barðist einn bardaga í Invicta árið 2016 en hefur að mestu barist á Indlandi á undanförnum árum og eru flestir hennar sigrar gegn mun reynsluminni andstæðingum. Hún er því dálítið óskrifað blað í þessu móti. Kolekar hefur verið að æfa hjá Syndicate MMA í Las Vegas fyrir þennan bardaga en Sunna Rannveig æfði þar undanfarnar þrjár vikur.
Brianna Van Buren (5-2)
Brianna Van Buren er 25 ára og kemur frá Bandaríkjunum. Van Buren er spennandi bardagakona en hún átti að mæta Sunnu Rannveigu í mars áður en bardagakvöldið var fellt niður og þetta útsláttarmót sett á laggirnar í staðinn. Van Buren er hættuleg standandi en hún er svart belti í sanshou (kínverskt kickbox), brúnt belti í brasilísku jiu-jitsu og keppti í ólympískri glímu á skólaárum sínum. Hún var auk þess í fluguvigt og er því sennilega með stærri keppendum í mótinu. Van Buren er búin með einn bardaga í Invicta en þá sigraði hún fyrrum UFC bardagakonuna Jamie Moyle þrátt fyrir að Moyle hafi verið 10 pundum of þung í vigtuninni.
Mótið verður sýnt beint í kvöld á Stöð 2 Sport og Fight Pass en bein útsending hefst á miðnætti. Sunna er í fyrsta bardaga kvöldsins.