Það eru alltaf einhverjir efnilegir bardagamenn á hverju bardagakvöldi og sá áhugaverðasti um helgina er Arman Tsarukyan.
Aldur: 24 ára
Bardagaskor: 15-2
Rothögg: 5
Uppgjafartök: 5
Stærsti sigur: Davi Ramos
Arman Tsarukyan átti að mæta Þjóðverjanum Nasrat Haqparast á bardagakvöldi helgarinnar. En á síðustu stundu þurfti að hætta við bardaga þeirra vegna veikinda Haqparast og núna mun Tsarukyan mæta Bandaríkjamanninum Matt Fravola. Fravola er þó ekki óundirbúinn því að hann átti að mæta Ottman Azaitar en hann var tekinn af bardagakvöldinu eftir brot á sótvarnarreglum.
Tsarukyan er fæddur í Georgíu, ólst upp í Rússlandi en er af armenskum ættum. Hann byrjaði ferilinn á að berjast á alls konar bardagakvöldum í Rússlandi og Asíu þar sem hann náði sér í bardagaskorið 13-1 sem var nóg til að koma honum í UFC.
UFC ferill hingað til
Í sínum fyrsta bardaga í UFC mætti Tsarukyan æfingafélaga Khabib honum Islam Makhachev sem margir trúa að geti orðið meistari í léttvigt. Þar bjuggust flestir við frekar einhliða bardaga þar sem Islam Makhachev ætti að vinna frekar auðveldlega en annað koma á daginn og var bardaginn frekar jafn og spennandi. Eftir harða baráttu vann Islam Makhachev bardagann eftir einróma dómaraákvörðun. Þrátt fyrir það var hægt að taka margt jákvætt út úr bardaganum hjá Tsarukyan en hann var að ná góðum fellum á móti mjög góðum glímumanni.
Bardaginn var valinn besti bardagi kvöldsins og fengu þeir báðir 50 þúsund dollara bónus. Þá er einnig gott að muna eftir því að Tsarukyan var einungis 22 ára í þessum bardaga þannig hann hefur mikinn tíma til að bæta sig. Síðan þá hefur hann unnið tvo bardaga í röð á móti ágætis nöfnum þeim Olivier Aubin-Mercier og Davi Ramos.
Bardagastíll
Tsarukyan er með mjög góða glímu eins og maður ætti kannski að búast við frá bardagamanni sem ólst upp í Rússlandi. Glíman er alls ekki eina vopn hans því að hann er líka mjög góður standandi og æfir að hluta til í Tiger Muay Thai í Tælandi. Þar vann hann úrtökumót hjá Tiger Muay Thai sem gefa nokkrum bardagamönnum fríar æfingar, mat og húsnæði hjá þeim í ár.
Tsarukyan hefur líklega ekki þurft á þessu að halda því að hann virðist vera með mikið af peningum í kringum sig eins og flestir þessir Rússnesku bardagamenn. Tsarukyan er mjög góður alhliða bardagamaður en kannski það eina sem er hægt að setja út á hann er að það gengur erfiðlega hjá honum að klára bardagann. Flestir bardagar hans á móti sterkari andstæðingum hafa farið í dómaraákvörðun og hefur hann ekki náð að ógna þeim mikið með höggum eða uppgjafartaki.
As short notice as they come!
— UFC (@ufc) January 22, 2021
Arman Tsarukyan and 🚂 @MattFre16 close our #UFC257 prelims!
[ #InAbuDhabi | @VisitAbuDhabi ] pic.twitter.com/gNtfXB5Ezb
Möguleikar á móti Frevola
Þetta er mun auðveldari bardagi en á móti Nasrat Haqparast þar sem Tsarukyan er betri á öllum sviðum að mínu mati. Hann ætti að geta unnið Frevola standandi en auðveldasta leiðin væri að ná honum niður og halda honum þar. Helsta hættan væri ef hann fer að skiptast á höggum við Frevola því að hann gæti alveg rotað hann. Frevola er agaður og með mikið hjarta en það ætti ekki að vera nóg til að vinna jafn tæknilega góðan bardagamann eins og Tsarukyan.
Tsarukyan var því miður einu pundi of þungur í vigtuninni en leit alls ekkert hræðilega út. Það er ekki gott að sjá bardagamann ekki ná vigt þegar hann er búinn að berjast svona oft og ætti að vera kominn með tök á þessu en vonandi er þetta einstakt atvik. Fyrr í vikunni talaði hann um það að hann hefði lítið sofið seinustu daga þar sem hann átti erfitt með að venjast tímabreytingum þannig að það er eitthvað að plaga hann en vonandi verður hann í topp formi á laugardaginn.
Hversu langt getur hann náð?
Tsarukyan er mjög efnilegur og hefur verið að vaxa á mig þar sem mér fannst hann mjög leiðinlegur fyrst en er farinn að læra að meta hann. Tsarukyan getur náð mjög langt og sé ég í rauninni enga galla hjá honum nema það að hann klárar ekki bardaga. Ég reikna fastlega með því að hann verði topp 10 bardagamaður í framtíðinni en honum vantar einhvern X-faktor til að verða meistari.