0

Á uppleið: Ciryl Gane (UFC 256)

Það eru alltaf einhverjir efnilegir bardagamenn á hverju bardagakvöldi og sá áhugaverðasti um helgina er Ciryl Gane.

Aldur: 30 ára
Bardagaskor: 6-0
Bardagaskor í UFC: 3-0
Rothögg: 2
Uppgjafartök: 3
Stærsti sigur: Tanner Boser

Ósigraði Frakkinn Ciryl Gane mætir brasilíska reynsluboltanum Junior dos Santos á UFC 256 bardagakvöldi helgarinnar. Þetta er fyrsti bardagi Gane á þessu ári en honum hefur gengið mjög illa að fá bardaga og hefur þurft að hætta við fjóra bardaga á árinu af mismunandi ástæðum. En núna kemst hann vonandi í búrið og mætir þar Junior dos Santos sem hefur tapað síðustu þremur bardögum og öllum með rothöggi. 

Ferill fyrir UFC

Gane byrjaðir atvinnumannaferilinn fyrir rúmum tvemur árum þegar hann mætti Bobby Sullivan í titilbardaga hjá kanadísku bardagasamtökonum TKO. Þann bardaga vann Gane í fyrstu lotu og varði beltið síðan tvisvar. Þetta var nóg til að komast í UFC þrátt fyrir að vera bara kominn með þrjá bardaga og búinn að vera atvinnumaður í aðeins eitt ár.

Þrátt fyrir að ferill Gane hafi verið stuttur var hann mjög sannfærandi. Samanlagt bardagaskor andstæðinga hans fyrir UFC var 16-2 sem verður að teljast mjög gott. Áður en hann byrjaði að keppa í MMA keppti hann í Muay Thai þar sem hann var tvöfaldur franskur meistari. Það getur oft verið erfitt að finna rétt Muay Thai bardagskor en samkvæmt flestum síðum er Gane 7-0 með sigra á móti sterkum andstæðingum.

UFC ferill og stíll

Þrátt fyrir að taka sinn fyrsta UFC bardaga í ágúst 2019 náði hann að taka þrjá bardaga á því ári í UFC. Allir þessir bardagar voru þó á móti frekar slökum bardagamönnum miðað við að vera í UFC. Þessa bardaga var Gane ekki að vinna nægilega sannfrærandi að mínu mati þar sem hann hefði eiginlega átt að vinna alla þessa bardaga í fyrstu lotu. En það sem við sáum í þessum bardögum var að Gane er með ágætt þol þar sem hann gat farið alla leið – þó á frekar hægum hraða.

Málið með Gane er að hann berst dálítið eins og léttari bardagamaður með góðri tækni og heldur fjarlægð vel. Það er samt ekki alltaf best að vera sá tæknilegasti í þungavigtinni þar sem það þarf oft ekki nema eitt högg. Einnig er Gane ekki nægilega höggþungur og virðast höggin hans ekki hafa rosaleg áhrif á andstæðinga hans. Þá byrjar Gane bardaga oftast mjög tæknilega en þegar líður á bardagann fer hann að hlaða meira í höggin til að rota andstæðinginn en þá eru höggin mjög augljós. Hann er ekki með þetta „touch of death“ sem margir þungavigtarmenn hafa. 

Slæmur vani sem ég hef líka tekið eftir hjá Gane er að hann notar öxlina oft til að verjast höggum. Þrátt fyrir að það sé alveg eðlileg tækni að verjast höggum með að fela hökuna undir öxlinni er það frekar hættulegt og sérstaklega í þungavigt. Það er því rautt flagg að mínu mati að sjá einhvern nota þetta oft því að helst ættu bardagamenn bara að nota þessa tækni þegar þeir eru komnir í vesen en ekki að venja sig á að nota þetta ítrekað.

Bardaginn við dos Santos

Þrátt fyrir að ég hafi verið frekar gagnrýninn á Gane í þessari grein reikna ég þó með því að hann vinni bardagann um helgina. Dos Santos er einfaldlega útbrunninn og hans tími búinn þrátt fyrir að vera bara 36 ára. Það er enginn aldur í þungavigtinni en hann hefur auk þess tekið rosalega mikinn skaða í búrinu. Gane ætti að geta haldið honum í fjarlægð og ef hann nær að pressa dos Santos upp að búrinu hefur sá brasilíski verið í miklum vandræðum þar í seinustu bardögum. Í þeim efnum hjálpar það alls ekki að þessi bardagi er í UFC Apex þar sem þeir eru með 25 feta búrið en ekki 30 feta sem er oftast notað. Þá reikna ég með að Gane vinni örugglega eftir dómaraúrskurð eftir frekar daufan bardaga. Þá hefur Gane unnið tvo bardaga með uppgjafartaki í UFC en ég reikna ekki með því að hann geti það á móti dos Santos.

Hversu langt getur hann náð?

Gane er nú þegar kominn á top 15 í þungavigt og með sigri á dos Santos ætti hann að vera kominn í topp 10. Þá fer hann að mæta bardagamönnum sem ég er alls ekki það vongóður um að hann vinni. Þá held ég að Gane gæti lent í veseni á móti bardagamönnum sem eru með sterka glímu. Einnig held ég að hann lendi í veseni á móti þessum klassísku þungavigtar roturum sem eru ekki nálægt því að vera jafn tæknilegir og Gane en þurfa bara að lenda einu höggi til að slökkva ljósin. Þannig ég reikna ekki með því að Gane verði meistari en hann verður til staðar í flokknum í dágóðan tíma.

Sævar Helgi Víðisson
Latest posts by Sævar Helgi Víðisson (see all)

Sævar Helgi Víðisson

- Fjölmiðlafræðinemi - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Langt leiddur MMA aðdáandi

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.