Friday, April 26, 2024
HomeErlentÁ uppleið: Duško Todorović

Á uppleið: Duško Todorović

Það eru alltaf einhverjir efnilegir bardagamenn á hverju bardagakvöldi en sá áhugaverðasti um helgina er Duško Todorović.

Aldur: 26 ára
Bardagaskor: 10-0
Rothögg: 6
Uppgjafartök: 3
Stærsti sigur: Michel Pereira

Serbinn Duško Todorović er ósigraður í MMA og tekur núna sinn 2. bardaga í UFC um helgina á móti Punahele Soriano. Todorovic þykir gott efni og hefur litið vel út.

Todorovic tók fyrtu sex bardagana sína í minni bardagasamtökum í Austur-Evrópu við óþekkta andstæðinga. Árið 2018 barðist hann við Japanann Kazuo Takahashi sem hafði áður tekið þátt í UFC 12 mótinu árið 1997, barist í Pride og orðið þungavigtarmeistari í Pancrase. Þá var Takahashi orðinn 49 ára gamall og ekki búinn að berjast í fimm ár. Þannig að það er kannski ekki hægt að taka mikið út úr þeim bardaga.

Eftir þetta fór hann aftur til Serbíu og barðist þar við Brasilíumanninn Michel Pereira. Todorovic rotaði hann í fyrstu lotu en Pereira er núna kominn með fimm bardaga í UFC og hefur vakið mikla athygli. Þessi sigur kom Todorović á UFC radarinn og fékk hann bardaga í Contender Series í kjölfarið. Þar leit hann vel út í góðum sigri og fékk UFC samning. Í sínum fyrsta bardaga í UFC mætti Todorović reynsluboltanum Dequan Townsend. Todorović vann bardagan eftir högg í jörðinni í annarri lotu.

Bardagastíll

Todorović er svart belti í BJJ og Taekwondo. Eftir að hafa horft á bardagana hans kom það mér frekar mikið að óvart að hann væri svart belti í BJJ þar sem berst aðallega standandi. Þó notar hann mjög mikið að ná andstæðingunum í „clinchið“, er mjög agaður þar og góður í að staðsetja sig rétt og sérstaklega með pressuna sem hann býr til með hafa hausinn á réttum stað. Það litla sem við höfum þó séð af honum í jörðinni var á móti Dequan Townsend en hann náði honum niður og komst frekar auðveldlega í „mount“ þar sem hann var mjög þungur og lenti góðum höggum sem kláruðu bardagann.

Þegar Todorović er standandi er hann mjög léttur og hreyfanlegur. Þetta er frekar skemmtilegt að horfa á þegar hann er í miðju búrinu en hann eyðir mjög miklum tíma í  „clinchinu“ að gera lítið. Standandi er hann með hendurnar alveg niðri og hökuna upp í lofti og minnir stundum á Austur-evrópskan Anderson Silva. Það þarf bara örlítil mistök svo að þetta fari hræðilega illa en Todorović notar frábæran hreyfanleika til að komast frá höggum. Þá fara andstæðingar hans að missa illa en þá er opið fyrir að hann lenda góðum gagnhöggum sem Todorović gerir.

Bardaginn á móti Punahele Soriano

Todorović mætir öðrum ósigruðum bardagamanni um helgina en það er Hawaí-búinn Punahele Soriano. Báðir þessir bardagamenn eru mjög efnilegir og er það eiginlega synd að annar þeirra þurfi að tapa um helgina. Soriano er með mjög þungar hendur og hefur verið að rota flesta andstæðinga sína en þegar hann náði ekki að rota Jamie Pickett í Contender Series var hann orðin mjög þreyttur í seinni hluta bardagans.

Ég spái því að Soriano byrji bardagann um helgina á fullu gasi og hendi í risa bombur en Todorović mun vera hreyfanlegur og lenda gagnhöggum. Þá mun Soriano þreytast og ég reikna með því að Todorović taki yfir. Þetta er auðvitað bara sentimetra spursmál og gæti Soriano alveg lent einhverri af þessum bombum. Þá ætti Todorović að vera í miklu veseni en hann virðist vera með mjög góða höku þannig það gæti hjálpað honum.

Hversu langt getur hann náð?

Todorović er mjög efnilegur en hefur alveg sína galla. Það kæmi mér alls ekki að óvart ef hann yrði topp 10 bardagamaður í millivigtinni en efast um að hann fari alla leið í beltið.

Sævar Helgi Víðisson
Sævar Helgi Víðisson
- Fjölmiðlafræðinemi - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Langt leiddur MMA aðdáandi
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular