Thursday, April 25, 2024
HomeErlentÁ uppleið: Greg Hardy

Á uppleið: Greg Hardy

Það eru alltaf einhverjir efnilegir bardagamenn á hverju bardagakvöldi en stundum þarf að grafa dýpra til að finna þá og það er klárlega raunin með bardagakvöld helgarinnar.

Greg Hardy mætir Maurice Greene á UFC bardagakvöldinu á laugardaginn. Þetta verður sjöundi bardagi Hardy í UFC á tæpum tveimur árum en innkoma hans hefur verið umdeild.

Aldur: 32 ára
Bardagaskor: 6-2 (1)
Bardagaskor í UFC: 3-2 (1)
Rothögg: 5
Uppgjafartök: 0

Einhverjir eru kannski hissa á því að 32 ára útbrenndur NFL leikmaður með frekar slakan UFC feril geti talist efnilegur en það er eitthvað sem er hægt að færa rök fyrir.

Greg Hardy er fæddur í smábænum Millington í Tennessee fylki þar sem hann ólst upp við sára fátækt. Í framhaldsskóla stundaði hann þrjár íþróttir og skaraði fram úr í þeim öllum. Þetta voru amerískur fótbolti, körfubolti og frjálsar íþróttir. Eftir það fór hann á fótboltastyrk til University of Mississippi og var þar strax mikilvægur hluti af liðinu. Ekki nóg með það heldur spilaði hann einnig í körfuboltaliðinu þar sem hann var þó ekki með jafn stórt hlutverk þar.

Eftir þrjú ár í háskólaboltanum var Hardy valinn af Carolina Panthers í sjöttu umferð nýliðavalsins í NFL. Fljótlega kom í ljós að þetta hafði verið snilldar val hjá Panthers þarna í sjöttu umferð og stóð hann sig strax mjög vel.

Á fyrsta árinu sínu í deildinni var hann með góða tölfræði og hélt hann uppteknum hætti næstu ár sem endaði með því að hann var valinn í stjörnuleik NFL-deildarinnar (Pro-Bowl) þar sem bestu leikmenn í hverri stöðu fyrir sig taka þátt í. Eftir fyrsta leikinn á 2014 tímabilinu komst upp um heimilisofbeldismál Hardy og spilaði hann ekki meira það tímabil.

Eftir tímabilið rann Hardy út á samning og ákváðu Panthers að framlengja ekki við hann en þrátt fyrir vafasama sögu buðu Dallas Cowboys honun 11,3 miljón dollara samning fyrir eitt ár sem hann samþykkti. Stuttu seinna setti NFL Hardy í 10 leikja bann en styttu það seinna niður í 4 leiki.

Eftir að hafa setið af sér bannið kom Hardy mjög sterkur til baka og byrjaði með látum. En á seinni hluta tímabilsins fór síðan að halla undan fæti og lenti honum saman við þjálfara og liðsfélaga. Eftir 2015 tímabilið ákváðu Cowboys að framlengja ekki við Hardy þar sem þeir sögðu að hann hefði ekki góð áhrif á liðið. Eftir það vildi ekkert lið í NFL semja við Hardy.

Í nóvember árið 2017 tók Hardy fyrsta áhugamannabardagann sinn og vann hann eftir 32 sekúndur. Á nokkrum mánuðum tók hann tvo aðra bardaga og vann þá báða í fyrstu lotu. Þetta vakti athygli Dana White sem ákvað að gefa honum tækifæri í Contender Series í júní 2018. Það var hans fyrsti atvinnubardagi þar sem hann vann Austen Lane í fyrstu lotu. Sá var einnig fyrrum NFL leikmaður og var á þessum tíma 4-0 í MMA. Með þessum sigri fékk hann þróunarsamning hjá UFC sem þýddi að hann var samningsbundinn UFC en myndi berjast annars staðar til að öðlast reynslu.

Hardy barðist tvisvar í viðbót árið 2018 þar sem hann vann báða bardagana snemma í 1. lotu. Eftir þetta var kominn tími á fyrsta bardagann í UFC sem fór fram í janúar 2019 aðeins rúmlega ári eftir fyrsta áhugamannabardagann hans.

UFC Ferill

Í fyrsta bardaga sínum í UFC mætti Hardy öðrum sigurvegara úr Contender Series – Allen Crowder. Bardaginn endaði með ósköpum þar sem Hardy var dæmdur úr leik eftir ólöglegt hné. Svo sannarlega ekki góð byrjun á ferlinum. Eftir þetta kláraði Hardy næstu tvo bardaga í fyrstu lotu gegn minni spámönnum áður en hann mætti Ben Sosoli.

Þar vann Hardy eftir einróma dómaraúrskurð en bardaginn var seinna dæmdur ógildur þar sem Hardy notaði astma púst á milli lotna sem er bannað. Byrjunin á UFC ferli Hardy hefur því ekki verið dans á rósum.

Tæpum mánuði eftir Sosoli bardagann samþykkti Hardy að koma inn með stuttum fyrirvara og berjast við Alexander Volkov í Moskvu. Með þessu varð Hardy fyrstur í þungavigt til að berjast fimm sinnum á sama ári. Hardy tapaði bardaganum eftir dómaraúrskurð en var samt hrósað fyrir góða frammistöðu gegn mjög sterkum andstæðingi. Síðast sáum við hann sigra Yorgan de Castro í maí eftir dómaraákvörðun.

Hversu langt getur hann náð?

Að mínu mati getur Hardy náð mjög langt og ég held að hann muni komast í titilbardaga innan þriggja ára. Það sem fær mig til að vera svona viss með þetta er að Hardy er bara ný byrjaður í MMA og það eru sjáanlegar framfarir á milli bardaga hjá honum. Sem dæmi er hægt að taka bardagann á móti Volkov þar sem höndin á Hardy brotnaði í fyrstu lotu en þrátt fyrir það stóð hann sig ágætlega á móti einum besta „strikernum“ í flokknum. Síðan er Hardy einfaldlega frábær íþróttamaður sem er í miklu betra standi en allir í þungavigtinni. Einnig er hann hjá mjög góðu þjálfarateymi í American Top Team þar sem þeir vita alveg hvað þeir eru að gera og hlustar Hardy á þjálfarana.

Sævar Helgi Víðisson
Sævar Helgi Víðisson
- Fjölmiðlafræðinemi - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Langt leiddur MMA aðdáandi
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular