spot_img
Thursday, December 26, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentAaron Pico - Efnilegasti bardagamaður heims

Aaron Pico – Efnilegasti bardagamaður heims

Bellator er með stórt bardagakvöld á laugardaginn í Madison Square Garden. Bardagakvöldið er stjörnum hlaðið nöfnum á borð við Fedor Emelianenko, Wanderlei Silva og Chael Sonnen. Allir eru þeir með fjölmarga bardaga en einn bardagamannanna á kvöldinu hefur aldrei barist atvinnubardaga í MMA.

Það þætti kannski skrítið að setja einhvern sem er 0-0 í MMA í fyrsta bardagann á aðalhluta bardagakvöldsins í Madison Square Garden. Kannski er það ekki svo skrítið í dag þegar menn eins og Kimbo Slice, Dada 5000 og eldgamlir Ken Shamrock og Royce Gracie hafa verið í aðalbardaga kvöldsins í Bellator og CM Punk barðist sinn fyrsta MMA bardaga á aðalhluta kvöldsins í UFC. En Pico er ekki einhver sjónvarpsstjarna sem er þarna út af frægðinni sinni. Hann er einfaldlega þarna af því að þetta er eitt mesta efni sem sést hefur í MMA.

Þetta virkar kannski stór fullyrðing fyrir einhvern sem á ennþá eftir að stíga í búrið og berjast í MMA en Pico er enginn venjulegur bardagamaður. Hann er tvítugur Bandaríkjamaður og er með heilmikla reynslu úr bardagaíþróttum. Bellator samdi við hann í nóvember 2014 þegar Pico var bara 17 ára, en hvers vegna?

Aaron Pico var lengi vel einn efnilegasti glímumaður Bandaríkjanna. Hann nældi sér í fjölda verðlauna á heimsmeistaramótum unglinga í frjálsri glímu (e. freestyle wrestling) og var farinn að keppa á fullorðinsmótum snemma.

Árið 2016 var hann aðeins hársbreidd frá því að komast í Ólympíulið Bandaríkjanna og keppa þar af leiðandi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Pico tapaði í úrslitunum á úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana með minnsta mögulega mun og ákvað að einbeita sér að MMA eftir það. Það merkilega er að Pico telur glímuna ekki vera sinn helsta styrkleika. Hann telur sig vera betri MMA bardagamaður en glímumaður.

Stökkið úr glímunni í MMA var alls ekkert erfitt fyrir Pico. Pico er með um 50 áhugamannabardaga í MMA og því ekki beint blautur á bak við eyrun þegar kemur að MMA. Hann hefur einnig góða reynslu úr hnefaleikum en hann er með yfir 30 áhugamannabardaga í hnefaleikum og hefur unnið nokkra stóra titla í unglingaflokkunum þar.

Síðan Pico var 16 ára hefur hann æft hjá American Kickboxing Academy í San Jose. Menn eins og Daniel Cormier og Luke Rockhold halda vart vatni yfir honum og segja hann vera mesta efni sem þeir hafa nokkurn tímann séð í MMA.

Auk þess að æfa hjá AKA æfir hann box í boxklúbbi Freddie Roach, Wild Card, og jiu-jitsu hjá 10th Planet undir Eddie Bravo. Hann virðist því hafa ansi margt að bera til að ná langt og verður sannarlega forvitnilegt að fylgjast með honum á laugardaginn.

Í frumraun sinni mætir hann Zach Freeman (8-2) og er hann enginn pappakassi. Á pappírum gæti þetta þótt ósanngjarnt, 0-0 gegn 8-2, en eins og gefur að skilja er Pico enginn venjulegur nýliði. Pico vildi alvöru áskorun en ekki einhvern sem með aðeins tvo til þrjá bardaga.

Það er þó mikil pressa á Pico enda lengi verið beðið eftir frumraun hans í MMA. Hann hefur fengið stóra styrktarsamninga við Nike og Dethrone og nú þarf hann að standa undir pressunni.

Hann er þó öllu vanur því að keppa á stórum vigstöðum í skæru ljósunum og hefur hann sagt að hann óttist ekkert að stíga í búrið í einni stærstu höll heims, Madison Square Garden. Margir spá því að ferill hans eigi eftir að fara jafn hratt upp og ferill Jon Jones gerði. Fyrsta skrefið verður tekið á laugardaginn og mun það segja okkur mikið um framhaldið hjá Aaron Pico.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular