ADCC fer fram í Brasilíu um helgina. Mótið er stærsta uppgjafarglímumót heims og var Gunnari Nelson tvisvar boðið að keppa á mótinu. Til að hita upp fyrir ADCC rifjum við upp eftirminnilega glímu hans gegn Jeff Monson.
ADCC 2009 fór fram í Barcelona og var Gunnari boðið að keppa á mótinu. Hann keppti í -88 kg flokki og var eins og svo oft áður léttastur í flokknum. Að öllu jöfnu hefði Gunnar keppt í -77 kg flokki en sá flokkur reyndist vera fullur þegar Gunnari var boðið að keppa á mótinu. Hann gekk því á vigtina óskitinn og með bakpokann á sér eins og hann orðaði það og var vel undir -88 kg mörkunum.
Gunnar mætti James Brasco í fyrstu umferð og tapaði á dómaraákvörðun (engin stig skoruð). Brasco mætti svo Braulio Estima í næstu umferð og tapaði en Estima sigraði flokkinn. Gunnar bjóst því ekki við að vera valinn til að keppa í opna flokknum næsta dag. Hann sat því upp í stúku og horfði á glímurnar þegar hann var skyndilega kallaður upp.
Í fyrstu umferð í opna flokknum mætti hann risanum Jeff Monson. Monson hafði náð bronsinu í +99 kg flokki daginn áður og keppti um þungavigtartitil UFC árið 2006. Öllum að óvörum tókst Gunnari að sigra Jeff Monson á stigum. Sigurinn vakti mikla athygli enda mikill þyngdarmunur á köppunum. Þess má geta að Gunnar hafði ekkert borðað nema ís í morgunmat þann dag líkt og hann talaði um í þessu skemmtilega myndbandi Stuart Cooper.
Velgengni Gunnars þann dag hélt áfram og sigraði hann Dave Avellan með hengingu (rear naked choke) í næstu umferð. Avellan hafði tekið bronsið í flokki þeirra, -88 kg, daginn áður. Gunnar var því kominn í undanúrslit þar sem hann mætti reynsluboltanum Xande Ribeiro. Ribeiro náði Gunnari í „kneebar“ og sigraði glímuna. Í glímunni um 3. sætið mætti Gunnar Brasilíumanninum Vinny Magalhaes. Magalhaes sigraði Gunnar á stigum eftir að hafa náð fellu á lokasekúndum glímunnar.
Gunnar náði því 4. sæti í opna flokknum á ADCC, einu sterkasta uppgjafarglímumóti heims. Meðal keppenda í opna flokknum má nefna Chris Weidman, Dean Lister, Andre Galvao og Roberto ‘Cyborg’ Abreu. Þetta var ótrúlegur árangur og kom Gunnari almennilega á heimskortið í glímuheiminum. Glímuna við Jeff Monson má sjá hér að neðan.