Í byrjun hvers mánaðar lítum við yfir 10 bestu bardaga mánaðarins. Þann 1. apríl birtum við lista yfir 10 bestu bardaga mánaðarins en aðeins fimm af þeim bardögum urðu að veruleika.
Mikið gekk á í apríl og var fyrirfram búist við góðum mánuði í MMA heiminum. Fljúgandi trillur og ótrúleg slys settu þó strik í reikninginn.
Áhugaverðasti bardagi mánaðarins var bardagi Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson. Listinn var ekki búinn að vera lengi í loftinu þegar bardagarnir fóru að falla niður. Strax þann 1. apríl greindi UFC frá því að Tony Ferguson hefði meiðst eftir að hafa runnið á sjónvarpskapli og reif liðbönd í hnénu. Í hans stað kom svo Max Holloway en hann náði aldrei að stíga í búrið eftir að hafa reynt að skera of mikið niður á of skömmum tíma.
Næsti bardagi sem féll niður var viðureign Matt Brown og Carlos Condit. Bardaginn var í 7. sæti listans og hefði orðið ansi skemmtilegur. Því miður sleit Brown krossband og verður lengi frá en í hans stað kom Alex Oliveira sem endaði á að sigra Carlos Condit.
Þann 5. apríl, tveimur dögum fyrir UFC 223, réðst Conor McGregor á rútu sem innihélt Khabib Nurmagomedov. Hann kastaði trillu í gegnum rúðu á rútunni með þeim afleiðingum að glerbrot rigndi yfir farþega rútunnar. Ray Borg fékk glerbrot í augað og gat því ekki barist gegn Brandon Moreno um helgina eins og til stóð. Sá bardagi var 10. áhugaverðasti bardagi mánaðarins. Michael Chiesa fékk skurð á ennið eftir trillukastið og gat ekki barist gegn Anthony Pettis en sá bardagi var 6. áhugaverðasti bardagi mánaðarins.
Eftir að Max Holloway datt út kom Al Iaquinta inn gegn Khabib en upphaflega átti Iaquinta að mæta Paul Felder. Bardagi Felder og Iaquinta var 5. áhugaverðasti bardaginn í apríl og sat Felder eftir með sárt ennið á meðan Iaquinta barðist um titilinn.
Það var því mikið um forföll í apríl en vonandi gerist ekki hið sama í maí. Nú þegar hefur áhugaverðasti bardagi mánaðarins að okkar mati, bardagi Gunnars Nelson og Neil Magny, fallið niður.