Friday, April 26, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2018

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2018

Nú styttist í sumarið en sólin lætur þó aðeins bíða eftir sér. MMA aðdáendur hafa þurft að þola nokkur áföllin en bak okkar er breitt. Það verður bland í poka á boðstólnum í maí en eldri kynslóðin verður áberandi.

UFC er með þrjú ágætis kvöld í maí en það verður svo sem engin veisla. Besti bardagi mánaðarins í okkar huga datt svo út á dögunum þegar Gunnar Nelson meiddist. Bellator á óvenju góðan mánuð sem hjálpar talsvert til. Lítum á þetta.


10. UFC Fight Night 129, 19. maí – Vicente Luque gegn Chad Laprise (veltivigt)

Þessir tveir eru hæfileikaríkir ungir menn sem gætu báðir orðið eitthvað í veltivigtinni. Báðir vilja komast upp í topp 15 á styrkleikalista UFC og gætu gert það með sigri í þessum bardaga. Laprise hefur rotað þrjá í röð og Luque hefur sýnt hvað hann getur með sigrum gegn Nico Price og Belal Muhammad.

Spá: Luque sigrar með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

9. Bellator 200, 25. maí – Mirko Cro Cop gegn Roy Nelson (þungavigt)

Þessi bardagi verður varabardagi í þungavigtarmóti Bellator. Það er nauðsynlegt að vera með varamann þar sem mjög ólíklegt er að ekkert fari úrskeiðis. Það muna sennilega allir hvernig fór með Strikeforce mótið á sínum tíma en það var einmitt varamaður (Daniel Cormier) sem sigraði mótið. Þessir félagar mættust áður árið 2011 á UFC 137 en þá sigraði Nelson á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu. Nelson hefur verið talsvert virkari undanfarin ár en hann hefur barist þrisvar sé litið eitt ár aftur í tímann. Cro Cop hefur barist einu sinni á þeim tíma en undanfarin ár hefur hann barist í Rizin í Japan þar sem eftirlit með lyfjanotkun er ekki beint mikil.

Spá: Sagan endurtekur sig, Nelson sigrar með TKO í annarri lotu í þetta sinn.

8. Bellator 199, 12. maí – Jon Fitch gegn Paul Daly (veltivigt)

Jon Fitch er enn á fullu, orðinn 40 ára gamall. Hann hefur unnnið fjóra bardaga í röð og reynir nú fyrir sér í fyrsta sinn í Bellator. Fyrsta verkefnið verður Paul ‘Semtex’ Daley sem minnti heldur betur á sig í síðasta bardaga með rothöggi gegn Lorenz Larkin.

Spá: Fitch breytist í gamla góða blauta teppið og sigrar á stigum.

7. UFC 224, 12. maí – Vitor Belfort gegn Lyoto Machida (millivigt)

Af einhverjum ástæðum hafa þessir herramenn ekki mæst áður í búrinu. Þá þarf ekki að kynna en báðir eru um fertugt og báðir unnu sinn síðasta bardaga sem telst tíðindi nú til dags. Báðir geta ennþá slegið og eiga góð augnablik þó svo að neistinn sé að mestu horfinn.

Spá: Vitor rotar Machida í fyrstu lotu.

6. Bellator 200, 25. maí – Rafael Carvalho gegn Gegard Mousasi (millivigt)

Það var ákveðin blóðtaka fyrir millivigt UFC að missa Gegard Mousasi. Hann hefur unnið sex bardaga í röð og fær nú að berjast um titilinn í Bellator. Rafael Carvalho er minna þekktur en hann hefur varið þennan titil í millivigt í þrígang og hefur ekki tapað bardaga síðan 2011 (hans fyrsti bardagi).

Spá: Mousasi tekur þetta á reynslunni, sigrar á stigum og hirðir beltið.

5. Bellator 199, 12. maí – Ryan Bader gegn Muhammed Lawal (þungavigt)

Næsti bardagi í hinu þrælskemmtilega þungavigtarmóti Bellator er á milli Ryan Bader og King Mo sem báðir hafa nú verið kenndir við léttþungavigt. Bader gæti mögulega verið besti bardagamaðurinn í Bellator um þessar mundir og margir spá honum sigri í mótinu. Hann þarf hins vegar að komast í gegnum King Mo sem er ekkert grín enda er hann sjálfur höggþungur glímumaður með mikla reynslu.

Spá: ‘Darth’ Bader hefur betur í glímunni og tekur þetta á stigum.

4. UFC Fight Night 129, 19. maí – Kamaru Usman gegn Demian Maia (veltivigt)

Usman virðist hafa dottið í lukkupottinn en hann átti upphaflega að mæta Santiago Ponzinibbio. Það hefði verið betri bardagi fyrir aðdáendur en fyrir Usman fær hann stærra nafn sem er ofar á styrkleikalistanum. Auk þess mætir hann Maia seint á ferlinum, með stuttum fyrirvara og tvö töp í röð.

Spá: Þetta verður slæmur bardagi fyrir Maia, Usman notar glímuna til verjast og gerir nóg til að vinna á stigum.

3. UFC 224, 12. maí – Amanda Nunes gegn Raquel Pennington (bantamvigt kvenna)

Amanda Nunes er búin að sanna sig sem besta bardagakonan í bantamvigt kvenna. Hún hefur í síðustu fimm bardögum sigrað Valentinu Shevchenko (tvisvar), Rondu Rousey, Mieshu Tate og Sara McMann. Andstæðingurinn að þessu sinni er nokkuð ólíklegur en Raquel Pennington hefur smám saman verið að vinna sig upp styrkleikalistann. Viðurnefni Pennington er Rocky en þessi bardagi er algjör Rocky saga nái hún að sigra, nú eða fara allar fimm loturnar gegn þeirri bestu.

Spá: Nunes sigrar örugglega með „rear-naked choke“ í þriðju lotu.


2. UFC 224, 12. maí – Ronaldo Souza gegn Kelvin Gastelum (millivigt)

Hér er á ferðinni mjög mikilvægur bardagi í millivigt. Báðir eru í topp 5 og báðir gætu komið sér í mjög góða stöðu með sigri í maí. Það styttist í titilbardaga Whittaker og Romero og eina fyrirstaðan fyrir Souza eða Galstelum virðist vera Chris Weidman sem hefur verið að glíma við meiðsli. Það virðist liggja í augum uppi að Kelvin muni vilja standa og rota Souza á meðan Jacare mun vilja ná Gastelum niður og ná uppgjafartaki.

Spá: Kelvin nær að mestu að halda bardaganum standandi og afgreiðir Souza með höggum í 2. lotu, ekki ósvipað og Whittaker gerði.

1. UFC Fight Night 130, 27. maí – Stephen Thompson gegn Darren Till (veltivigt)

Þessi bardagi er hrikalega spennandi og það að hann skuli fara fram á heimavelli Darren Till í Liverpool gerir þetta enn betra. Darrenn Till bað um þetta stóra tækifæri en hann gæti séð eftir því. Þetta verður sennilega standandi bardagi og Stephen Thompson er stórhættulegur eins og flestir vita. Þetta verður skák og ólíklegt að þetta fari allar fimm loturnar.

Spá: Thompson tekur Till í sundur með vel tímasettum höggum og klárar bardagann með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular